Friday, December 22, 2006

Í tilefni jóla: amerískar haframjöls- og rúsínusmákökur


Þetta eru svona smákökur sem eru stórar... þúveist... stórsmákaka. Ef kakan er gerð minni verður hún þurr og óspennandi, þær bara EIGA að vera pínu seigar og sá árangur næst aðeins með því að gera dáldið veglega klumpa á bökunarpappírnum. Svona golfkúlustærð cirka.
Uppskriftina fann ég eftir ítarlega leit á netinu fyrir allmörgum árum síðan. Margar mismunandi aðferðir og innihald í boði en eftir samanburð og pælingar miklar varð þessi uppskrift "mín" ;)
Gleðileg jól !



Amerískar Oatmeal-Raisin Cookies3 egg, léttþeytt
2,4 dl rúsínur
1 1/2 tsk vanilludropar
Þessu þrennu er blandað saman og látið standa í stofuhita í 1 klst

2,4 dl smjör (cirka 220 gr)
1,7 dl púðusykur
1,7 dl sykur
Hrært vel saman þartil verður að jafnri smjörblöndu

6 dl hveiti
1/2 tsk salt
1 tsk bökunarsódi
1 tsk kanil
Blandað saman við smjörblönduna og eggja-rúsínuhrærunni bætt við

4,8 dl haframjöl
Hrært saman við allt að lokum

Ágætlega stórar "klessur" eru settar á bökunarpappír með skeið. Má vera dálítið á milli hverrar kökur og gerðar örlítið minni en lokaútkoman á að vera því að þær fletjast út meðan þær eru að bakast. Bakað við 180° í 10-12 mínútur eða þartil fullbakaðar og farnar að taka lit.

Thursday, December 07, 2006

Svínalund með ætiþistlum

Svínalundin er voða vinsæl hérna í Svíþjóð. Ýmist heilsteikt eða skorin í þunnar sneiðar. Finnst oft erfitt að fá kjötið til að verða almennilega meyrt en það tókst ágætlega í gær með þessari uppskrift. Býst við að eitt aðaldæmið sé að steikja kjötið passlega lengi.

Svínalund með ætiþistlum
(úr Arla bæklingi)

600 gramma svínalund, skorin í 2 cm þykkar sneiðar sem eru svo reistar uppá rönd (endinn sem skorin var snúi upp) og klesstar aðeins niður.
smjör til steikingar, salt og pipar

2 hvítlauksrif, kramin
2 dl sýrður rjómi (15%)
2 msk fljótandi kálfakraftur (kalv-fond)
1 tsk soja
2 tsk timjan
1 dós ætiþistlar, skornir í helminga

Svínalundabitarnir steiktir á pönnu þartil fallega brúnir uppúr smjöri, kryddaðir vel með salti og pipar. Sýrða rjómanum, krafti, soja og timjan blandað saman í skál.
Bitarnir teknir uppúr pönnunni og hvítlauknum leyft að hitna aðeins á pönnunni. Sýrða rjómablöndunni og ætiþistlunum hellt útá og hrært þartil verður að sósuþykkni. Kjötbitunum bætt við og öllu leyft að malla smástund til viðbótar, 3-4 mín eða svo. Borið fram með hrísgrjónum.

Thursday, November 30, 2006

Allt er til á netinu....

Ég get eytt heilu og hálfu dögunum í að skoða uppskriftir og fyllast innblæstri á góðum uppskriftasíðum á netinu. Mínar uppáhalds eru;
www.tasteline.com
www.epicurious.com
www.bbcgoodfood.com
www.foodtv.com

aðrar áhugaverðar;
www.sunmaid.com
www.mrschengs.com
www.arla.se


Lofa að bæta við þennan lista ef ég rekst á nýjar síður !

Wednesday, November 29, 2006

Líbanskt kryddaðar kjötbollur með kjúklingabaunum

Hilmir hakkaði þessar í sig sem mest hann mátti... kjúklingabaunirnar gera bollurnar extra djúsi og þær voru sko ekki síðri daginn eftir sem afgangar.

Líbanskt kryddaðar kjötbollur
(úr Vivokúnnablaði)

500 g hakk (lamba best, annars nautahakk)
1 lítill gulur laukur, hakkaður
2 hvítlauksrif
1 dós soðnar kjúklingabaunir
2 msk olía til steikingar eða smjör
2 tsk kúmmin
2 tsk papríkuduft
0,5 tsk kanilduft
örlítill cayennepipar eða chillí
2 msk fljótandi kálfakraftur (fond)
0,5 dl persilja, hakkað
1 egg
salt og pipar


Hitið ofninn í 200 gráður. Fínhakka lauk og hvítlauk. Hella af kjúklingabaununum og skola með köldu vatni. Mauka gróflega með gaffli eða kartöflustappara.
Hita olíu eða smjör á pönnu og léttsteikja laukana, bæta svo við kjúklingabaunastöppunni og kryddunum. Láta allt hitna vel í gegn, cirka 1 mín. Látið kólna og blandið svo með kjöthakkinu. Bætið við kálfakraftinum, hakkaðri persilju, eggi, salti og pipar og mótið í litlar bollur. Setjið í ofnskúffu og ofnsteikið í 10 mínútur. Þvínæst eru þær steiktar á pönnu uppúr smjöri/olíu þartil þær fá góðan lit. Með því að ofnsteikja halda þær betur formi heldur en ef maður steikir strax á pönnu.

Bera fram með hrísgrjónum og myntujógúrt (hrein jógúrt, miiiikið af ferskri myntu, salt og pipar).

Tuesday, November 07, 2006

Pasta með graskeri (pumpkin)

Hafði aldrei á ævinni borðað grasker svo ég stóðst ekki mátið að þreyta frumraun í a) graskerseldamennsku og b) elda uppskrift af dagatali (þess ber að geta að dagatalið er frá Good Food svo ég taldi það nokkuð áreiðanlegt og líklegt til árangurs).
Tek fram að þetta er engin dietuppskrift enda ómælt magn af smjöri þarna en ég minnkaði magnið þó til muna og held að megi gera enn betur í næstu umferð. Það lá við að við sleiktum pottinn eftir að hafa étið yfir okkur af þessu ! Hilmir fékk ekki einusinni að smakka....

Pasta með graskeri, furuhnetum og geitarosti
(úr Good Food)

300 gr af graskeri, kjarnhreinsað, afhnýtt og niðurskorið í cirka 2 cm bita
olía, salt og pipar
Ferskt pasta af einhverri góðri týpu, magn fyrir 3-4
85 gr af smjöri (ég minnkaði niður í 50 gr án vandræða)
50 gr furuhnetur
4-5 msk smátt söxuð fersk salvía (verður að vera fersk!)
180 gr geitarostur

Graskersbitarnir olíubornir örlítið, saltaðir og pipraðir vel og bakaðir í ofni við 200°c í 30 mín eða þartil mjúkir.
Pastað soðið og látið renna af því, geyma þó cirka 1 bolla af vatninu undan því og sett til hliðar.
Smjörið brætt á pönnu við meðalhita og furuhnetum og salvíu bætt út í. Steikt þartil smjörið er orðið örlítið brúnt, furuhneturnar farnar að taka lit og salvían að verða stökk. Þá er smjörblöndunni bætt við pastað í pottinum ásamt graskersbitunum og geitarostinum. Hrært þartil osturinn er farin að bráðna og mynda sósu. Nota vatnið undan pastasoðinu til að bleyta meira upp í ef þykir þurfa.
Piprað.

Monday, September 25, 2006

Saffranhrísgrjón með kjúkling og grænmeti

Enn og aftur kjúklingur hér... fæ ekki nóg af honum... borða kjúlla töluvert oftari en rautt kjöt og enn oftar en fisk *gúlp*. Tek mig á í fiskmálefnunum fljótlega... niðurstöður birtar hér ;)

Saffranhrísgrjón með kjúkling og grænmeti (úr LagaLätt 8/2006)

2 dl hrísgrjón
1/2 poki saffran (cirka ein væn fingurklípa)
3 rauðar papríkur
1 gúrka
1 knippi persilja (má sleppa)
2 fersk mangó skorin í bita (er hægt að kaupa frosið!)

Dressing:
safinn af 1 lime
3 msk olía
salt + pipar

Kjúklingurinn:
4 kjúklingabringur
2 msk olía
1 msk malið cummin (EKKI kúmen einsog ég hélt einusinni)
1 1/2 tsk salt

Kveikið á ofninum á 250° heitt grill (yfirhiti)
Sjóðið hrísgrjónin ásamt saffraninu skv. leiðbeiningum á pakka... semsagt bara einsog venjulega ;)
Skerið úr kjarnann úr papríkunum og setjið á bökunarpappír á ofnskúffu inní ofninn. Leyfið að grillast í 10 mín efst í ofni eða þartil farið að taka lit. Þá er hægt að taka þær út, setja í plastpoka og loka fyrir þartil kólnar aðeins. Svo tekið úr pokanum og þá er auðveldlega hægt að draga hýðið af... í ljós kemur unaðsleg og mjúk papríkan sem slær engu við í bragði.
Skerið gúrkuna í litla bita og blandið saman innihaldinu fyrir dressinguna.
Skerið kjúklingabringurnar í 5-7 bita hver og steikið uppúr olíunni. Kryddið með cummin og salti.
Blandið öllu saman í stórt fat; hrísgrjón, grænmeti, dressing og kjúlli.

Sveitó kjúlli með eplum

Þegar ég segi sveitó þá meina ég sænskt sveitó... og sænskt sveitó er epli og rótargrænmeti. Eplabragðið kom mér á óvart, gerði sósuna ferlega góða, frísklega og jömmí.

Sveitó "Lantig" kjúklingur með eplum (úr LagaLätt 08/2006)

1 heill kjúklingur, hlutaður niður... nú eða bara kjúklingabringur ef mar er extra latur og það eru bringur á tilboði einhverstaðar ;)
1 msk olía
2 epli
4 sellerístilkar (ég notaði fennel í staðinn með fínum árangri)
12 meðalstórir skallottlaukar
1 msk olía
2 dl eplasafi (þykkni)
1 tsk timjan
3 lárviðarblöð
1 tsk salt og smá pipar
1 dl matreiðslurjómi

Kveikið á ofni; 200° . Brúnið kjúklingin (hlutana eða bringurnar) á ölum hliðum þartil gyllt uppúr olíu og leggið svo í ofnhelt fat.
Skerið eplin í báta og kjarnhreinsið. Skera selleríið í 3 cm langa bita og leggið ásamt eplunum í fatið.
Afhýðið og helmingið skallottlaukinn. Steikið í olíu á pönnu og bætið svo við eplasafanum, timjan, lárviðarlaufum og látið malla smástund. Hellið svo öllu þessu yfir kjúklingin í fatinu. Saltið og piprið. Breiðið álpappír yfir fatið og setjið í miðjan ofninn í 30 mínútur. Takið þá af álpappírinn og hellið matreiðslurjómanum í. Sett aftur inn í ofn í 10 mín til viðbótar eða þartil kjúklingurinn er fulleldaður.... gæti þurft að vera lengur ef stórir bitar.
Borið fram með kartöflumús og jafnvel smá salati.

Tuesday, August 29, 2006

Hversdags; grænmetispasta með kjúkling

Fann þessa uppskrift í hverfisblaðinu og þarsem innihaldið stemmdi ágætlega við innihald ísskápsins skellti ég mér á það. Kom mér á óvart hvað geitarosturinn gerir mikið fyrir pastað.

Grænmetispasta með kjúkling og geitarosti.
(magn fer, líkt og fyrri daga, nokkurnvegin eftir smekk og þörf)

Kjúllabringur eldaðar á hefðbundin hátt (brúnaðar á báðum hliðum uppúr örlitlu smjöri, salt og pipar, inní ofn á 150° þartil fulleldaðar)

Pasta soðið

Zuccini (1 stk), rauðlaukur (1 stk), hvítlaukur (2 rif) og papríka (1 stk) skorin í sneiðar og báta. Steikt uppúr örlítillri olíu þartil mýkist. Tómötum í dós hellt útá og leyft að malla smástund. Saltað og piprað. Pastainu er svo blandað saman við grænmetismallið og smá basilíku og geitarostur blandað við.

Borið fram með kjúklingabringunum.

Friday, August 04, 2006

Wokaðar rækjur

Í ljósi þess að við Ingó erum að reyna að taka okkur á matarlega og hreyfingarlega séð er ég að reyna að enduruppgötva sósulausan og ferskan mat. Tók þessvegna fram wokpönnuna mína í gær og prófaði þennan holla og litríka rétt uppúr Good Food blaði ;

Wokaðar rækjur með spínati
(magnið dugði fyrir okkur tvö)
Slatti af risarækjum, afþiðnum og þurrkuðum (svo ekki komi rosa mikill vökvi af þeim, kreisti bara vel með eldhúspappír), magn eftir smekk og lyst
1 rauð papríka skorin í hæfilega stóra báta/bita
1 feitt hvítlauksrif skorið í þunnar sneiðar
1 poki af spínati
olía
2 msk (eða eftir smekk) af fiskisósu (thailenskt Nam Pla)

Olía (nóg til að mynda smá poll) hituð í wokpönnu og hvítlauknum skellt útí. Steikt þartil laukurinn er farin að taka lit og þá veitt uppúr og látið liggja á eldhúspappír. Papríkan wokuð þartil orðin mjúk og veidd uppúr og sett til hliðar. Olíu bætt við ef þykir þurfa og rækjurnar wokaðar þartil heitar (rækjur verða aldrei hráar þannig að tíminn er ekki langur, 2 mín cirka). Spínatinu bætt við og wokað þartil orðið mjúkt, svo fiskisósan og að lokum papríkunni og hvítlauknum. Borið fram strax með hrísgrjónum.

Wednesday, July 26, 2006

Tælenskar kjötbollur

Verð alltaf svo geypilega hugmyndalaus þegar kemur að nautahakki. Hakk og spakk getur ekki verið á matseðlinum í hverri viku ?! Þessi uppskrift var prufukeyrð í gær... með fínum árangri. Líka þæginlegt hvað það eru fáar afurðir í þessu, flest sem ætti að geta verið til í ísskápnum eða skúffunni ;)

Tælenskar kjötbollur

500 g nautahakk
1 egg

2 msk ósaltaðar jarðhnetur
2 msk Rautt curry paste
4 dl (1 dós) kókosmjólk (sjálf notaði ég létt kókosmj. )
1 msk tælensk fiskisósa (Nam Pla)
1 msk sykur

Blanda hakki og eggi saman, móta í passlega litlar bollur, vellta uppúr örlitlu hveiti og steikja uppúr smá olíu.
Setja jarðhneturnar í matvinnsluvél og blitza þartil þær verða vel muldar, ekki þó svo að þær verði að dufti ! Hita smá olíu í potti og "steikja" curry paste-ið litla stund. Bæta svo við kókosmjólkinni, fiskisósunni, sykrinum og hnetunum. Láta malla smástund. Hella svo sósunni útá pönnuna með bollunum og leyfa að hitna vel í gegn, cirka 5-6 mínútur.
Borið fram með hrísgrjónum.

Wednesday, June 28, 2006

Hversdags; tælandi kjúlli

Kjúklingabringur skornar í hæfilega stórar ræmur/bita og steiktar á pönnu. Einni dós af Mrs. Cheng´s karríbeis bætt við (held þær séu allar jafngóðar... bara um að gera að prófa sig áfram.. Massaman Curry er uppáhalds hjá mér) og leyfir að malla undir loki í 5-7 mínútur. Bætir svo við 2 msk af fiskisósu og strimluðum sallatslauk (míní púrrlaukur). Borið fram með hrísgrjónum.

Friday, June 23, 2006

Hversdagsmatur; svínakjöt með pestói

Held áfram með hversdagslegan mat (einsog kjúllarétturinn hér að neðan). Var rétt í þessu að prófa þennann rétt;
Svínakótiletta, barin út þartil tvöföld að stærð og frekar þunn. Söltuð og pipruð.
Grænt pestó er svo borið á eina hliðina
Parmaskinka (ein sneið) er sett yfir pestóið og rúllað uppá kjötið svo pestóið og skinkan "lokist inni".
Kjötrúllunni er svo vellt uppúr smávegis hveiti.
Steikt á pönnu á öllum hliðum, samtals um 7-8 mínútur eða þartil gegnumsteikt.

Ferlega gott borið fram með kartöflubátum sem hafa verið ofnsteiktir (olía, salt, pipar, 200° í cirka hálftíma) og rétt áður en borið er fram er þunnt sneiddur vorlaukur settur saman við.
Og salati að sjálfsögðu ;)

Friday, June 16, 2006

Mangókjúlli the easy way

Prófaði þessa í gær og betrumbætti frá upprunalegu Weight Watchers uppskriftinni. Stórgott, fljótgert, auðvelt og fitulítið ;) Þessi uppskrift er fyrir tvo en það er um að gera að bæta við magni hér og þar eftir hentugleika og smekk, sérstaklega í sósunni. Mismunandi hvað fólk vill mikla bleytu á disknum sínum !

Mangókjúlli

2 kjúklingabringur kryddaðar með salti, pipar og papríkukryddi

3 dl vatn
1 laukur, saxaður
2 bananar, niðurskornir í hæfilega bita
1 tsk karrí
3 msk mangó chutney
4 msk matreiðslurjómi (fituminni)
ljós sósuþykknir eftir smekk

Kryddar kjúllann og steikir á pönnu í olíu eða smá smjöri þartil brúnn og fínn. Þarf ekki að gegnumsteikja því svo er vatninu og lauknum bætt við á pönnuna og látið malla með loki á í 20 mín eða svo.
Bringurnar eru svo teknar uppúr og haldið heitum meðan sósan er búin til. Banananum er skellt í vatnið á pönnunni og karrí, mangó chutney og matreiðslurjómanum bætt við. Látið malla saman þartil orðið sósukennt, heitt og fínt. Þykkni bætt við eftir smekk.

Borið fram með hrísgrjónum og góðu salati.

Tuesday, May 16, 2006

Örbylgjurisotto

Vissiru að það væri hægt að gera risotto í örbylgju ? Ekki ég heldur... fyrr en fyrir stuttu... og varð hissa á hversu auðvelt og gott þetta er. Minnkar fyrirhöfnina á matreiðslunni til muna ;)

Fljótgert tómata risottó (úr Good Food, maí 2006)

250 g risotto hrisgrjón (Arborio til dæmis)
1 laukur, fínsaxaður
50 g smjör
140 ml grænmetiskraftsvatn
500 ml passata (fínmaukaðir tómatar, einskonar þykkur tómatasafi)
500 g kirsuberjatómatar
100 g mozzarellakúla, skorin eða rifin í stóra bita
rifin parmesanostur eftir smekk ásamt ferskri basilíku

Blandið saman í örbylgjuheldri skál grjónunum, lauknum og helmingnum af smjörinu. Setjið á lok (eða plastfilmu þétt) og hitið í örbylgjuofninum á hæstu stillingu í 3 mínútur. Hrærið við kraftinum ásamt passatainu og haldið áfram að hita í örbylgjunni án loks/filmu í 10 mín. Hræra vel aftur og blanda við ferskum tómötunum og mozzarellaostinum. Öbba aftur í 8 mínútur eða þartil hrísgrjónin eru orðin alveg passlega "soðin". Þarf kannski að bæta við nokkrum mínútum ... fer eftir styrkleika örbylgjuofnsins.
Þá mega grjónin slaka á í nokkrar mínútur og blanda svo við restinni af smjörinu, parmesaninu og basil. Salta og pipra að lokum.

Tuesday, May 09, 2006

Meðlætissalat með perum

Móðir mín elskuleg bauð okkur uppá þetta um páskana ásamt geggjuðum kjúlla (sem ég á eftir að prófa og gefa svo uppskriftina hingað inn). Ég hermdi svo og bauð uppá þetta um helgina ásamt íslenskum grilluðum lambalærissneiðum. Súperdúpergott og á pottþétt eftir að vera endurtekið oft í sumar með grillmatnum.

Perusalat með gráðaosti
(hlutföllin fara eftir smekk finnst mér)
Perur, afhýddar og úrkjarnaðar, skornar í hæfilega stóra báta
Steiktar uppúr smá smjöri þartil mjúkar en samt ekki farnar að detta í sundur.

Spínat sett í skál og olíu, sítrónusafa, salti og pipar blandað við.

Furuhnetur þurrsteiktar á pönnu.

Nachos snakk með chillíbragði brotið í litla bita... cirka lúkufylli eða meira eftir smekk.

Gráðaostur mulin í bita.

Öllu blandað saman og vessegú !!

Tuesday, May 02, 2006

Banana who ?

Elska banana í mat; bananakökur og bananabrauð er æði !
Þessar tvær eru favvó og endurteknar á víxl á þessu heimili;

Bananahleifur (úr Good Food, apríl 2004)
p.s. ! má frysta !
100 g smjör
140 g ljós muscavado sykur
2 egg
3 þroskaðir bananar, maukaðir (cirka 450 g)
50 g pecan hnetur
50 g rúsínur
150 ml "buttermilk" (ég nota gräddfil hérna í Svíþjóð, ætli súrmjólk/ab mjólk myndi ekki ganga líka!)
250 g hveiti
1 tsk matarsódi

Hita ofn í 160 gráður f. blástursofn, 180 gráður venjulegan. Smyrja aflangt jólakökuform og setja bökunarpappír í botninn einungis.
Hræra vel saman sykur og smjör þartil ljóst og kremkennt. Bæta við eggjum, einu í einu... gerir ekkert til ef það virðist verða kekkjótt. Bæta svo við maukuðum bönunum, hnetum, rúsínum og gräddfil/súrmjólk. Hveitið er siktað í ásamt matarsódanum og blandað varlega ("fold") saman við, passa vel uppá að ofhræra ekki ! Þessu er svo hellt í formið og bakað í cirka 1 klst og 15 mínútur.

Banana og pekanhnetuskúffukaka (Brownies and bars)
200 g smjör
200 g sykur
3 egg
200 g "self raising flour" (2 tsk lyftiduft fyrir hvern bolla af hveiti)
2 þroskaðir bananar
150 g pecan hnetur, gróflega saxaðar
Hita ofn í 180 gráður. Hræra vel saman smjöri og sykri (þartil kremkennt) og bæta svo við eggjunum einu í einu. Hræra hveitinu varlega saman við ("folda"). Bananar og hnetur hrærðar varlega við í lokin. Hella í smurt form (djúpt, 20x30 cm) og baka í cirka 25 mínútur. Kælt og skorið í hæfilega stórar sneiðar. Geymt í loftþéttu íláti.

Friday, April 28, 2006

Mangósalsa

Eldaði eftir uppskrift úr misgömlu Mannlífsblaði í gær. Sesamhúðaður lax með mangósalsa. Laxinn var frekar einfaldur en ekkert voða spes miðað við hversu miklar væntingar ég bar til þess sem borið var á laxinn áður en hann var settur inní ofn; mangóchutney !, sesamfræ, salt og pipar.
Hinsvegar fylgdi með dýrindis mangósalsa sem var alveg sjúklega gott og ég á definetly eftir að gera aftur með fisk eða grillmat.

Mangósalsa

1 þroskað mangó, skorið í teninga
1/2 rauð papríka og
1/2 græn papríka, skorið í passlega litla bita
1 rauðlaukur, saxaður
handfylli af basilíku, söxuð
salt og pipar
2 msk hvítvínsedik
1 msk olía
1 tsk hunang
(svo væri ábyggilega vert að prófa að setja saxað rautt chillí ÁN fræja til að spica þetta aðeins upp)

Monday, April 10, 2006

Brownies með meiru

Keypti mér bók í fyrra sem ég er búin að margnota. Ekki oft sem ég margnota uppskriftabækur sem innihalda meira eða minna kökur og annað gúmmelaði en þarna viðurkenni ég fyllilega ... að ég er fallinn.
Ansi mikið einfaldar uppskriftir þarna sem byggja oftast á sama magni af smjöri/sykri/hveiti/lyftidufti en svo bætist alltaf við einhvað lýmskulega gott stöff sem gerir verkið einstakt, bæði í útliti og bragði.
Vara við að þetta er ekki fyrir sykurviðkvæmt fólk ! Algjörar spariskúffur þarna á ferð !

Expresso Brownies (úr Brownies and Bars)
250 g smjör
500 g sykur
100 g dökkt súkkulaði
50 g hreint kakóduft
4 egg
100 g "self raising flour" (hveiti með lyftidufti í; fyrir 1 bolla af hveiti er 2 tsk af lyftidufti)
2 msk sterkt expresso kaffi
2 msk heilar kaffibaunir, malaðar gróft
Hita ofninn að 180 gráðum. Setja smjörið, sykur, súkkulaðið og kakóið í pott og hita á lágum hita, hræra stöðugt, þartil smjörið er bráðnað. Verður að þykkum, grófkorna legi sem er svo leyft að kólna. Hrærið eggin, eitt og eitt saman við súkkulaðiþykknið og hrærið svo hveitið og expressokaffið við.
Hellið í ofnskúffu (djúpa, 20 x 30 cm að stærð) og dreifið grófmöluðu kaffibaununum yfir deigið. Bakist í 25 til 30 mínútur eða þartil deigið er rétt nýfarið að verða fullbakað. Passa þarf vel uppá að ofbaka ekki... deigið á að vera "fudgy". Leyft að kólna í ofnskúffunni og skorið í hæfilega stóra bita. Geymt í loftþéttu íláti.

Súkkulaði, peru og macadamia-hnetu Brownies (úr sömu bók, sjá ofan)
250 g smjör
500 g sykur
100 g hreint kakóduft
4 egg
100 g "self raising flour" (hveiti með lyftidufti í; fyrir 1 bolla af hveiti er 2 tsk af lyftidufti)
2 þroskaðar en stinnar perur, afhýddar, kjarninn tekin úr og skornar í bita.
100 g macadamiahnetur, gróflega saxaðar
Hita ofninn að 180 gráðum. Setja smjörið, sykur og kakóið í pott og hita á lágum hita, hræra stöðugt, þartil smjörið er bráðnað. Verður að þykkum, grófkorna legi sem er svo leyft að kólna. Hrærið eggin, eitt og eitt saman við súkkulaðiþykknið og hrærið svo hveitið, perurnar og hneturnar við. Hellið í ofnskúffu (djúpa, 20 x 30 cm að stærð). Bakist í 25 til 30 mínútur eða þartil deigið er rétt nýfarið að verða fullbakað. Passa þarf vel uppá að ofbaka ekki... deigið á að vera "fudgy". Leyft að kólna í ofnskúffunni og skorið í hæfilega stóra bita. Geymt í loftþéttu íláti.

Monday, April 03, 2006

Pasta sem garanterar sumarfílinginn

Þessi uppskrift er frá sætabossanum honum Jamie Oliver. Ég reyndar tek mér alltaf bessaleyfi þegar ég þýði uppskriftir frá frummáli yfir á íslensku að staðfæra/uppfæra og breyta einsog ÉG geri uppskriftina sjálf (hlutföll verða kannski öðruvísi o.sfrv.). Þá vitiði það...
Það er algjörlega fyrirhafnarinnar virði að möndlast við tómatana í staðinn fyrir að nota tómata úr dós. Mar verður líka svo einstaklega sérstaklega stollt af sjálfri sér að nenna því.... og verðlaunast vissulega þegar bragðlaukarnir hefja sitt starf.

Pasta með rækjum og "sætri" tómatsósu
(Jamie´s Kitchen)
Fyrir allt að fjóra,
8 ferskir plómutómatar, mega alveg vera soldið þroskaðir en alls ekki grænir! (gengur alveg með venjulega tómata eða tómata úr dós)
salt og pipar
1 msk af smjöri
olívuolía 1 msk
300 gr. rækjur
1 hvítlauksrif
1 sítróna (safinn og börkurinn rifinn smátt utanaf)
koníakslurkur... ca 1 msk (má sleppa)
100 ml matreiðslurjómi (15% rjómi)
Tagliatelle pasta, magn eftir þörfum
handfylli af saxaðri ferskri persillu
Tómatarnir eru "blancheraðir" (hýðið tekið af)... sem er gert svona:
Maður sker í burtu kjarnann (sem er efstur)... þarf ekki að vera djúpur skurður... bara fara með hnífinn rétt hringinn í kringum kjarnan og fjarlægja hann í burtu. Skera léttan kross í botninn á tómatinum, krossinn verður að fara a.m.k. í gegnum hýðið á tómatinum. Vatn látið sjóða í potti og tómötunum skella útí í ca hálfa mínútu... þið sjáið þegar hýðið fer að losna aðeins af. Teknir uppúr einn í einu með skeið og látnir oní skál með köldu vatni. Svo getur maður tekið þá í hendina og einfaldlega togað hýðið af... losnar af einsog bananahýði ! Ógó sniðugt og miiiiklu betra en tómatar úr dós í svona rétti!
"Nakinn" tómaturinn er þá tekin og skorin í tvennt, fræin og það sem er innaní er tekið úr með skeið og hent svo það sé bara "kjötið" af tómatinum sem er eftir. Það er svo hakkað léttilega svo það verði í sæmilegum teningum. Voila !


Hitar pönnu og setur smjörið og olíuna á þartil orðið sæmilega heitt... steikir í nokkrar mínútur hvítlaukinn, sítrónubörkinn (smátt rifin á rifjárni!), rækjurnar og tómatana. Bæta við koníakinu (ef vill) og láta hitna aðeins í gegn. Bæta næst við rjómanum og láta malla í 2-3 mínútur. Bragðbæta með sítrónusafanum, salti og pipar (maður verður að smakka sig vandlega til... má ekki vera of mikill sítrónusafi og alveg slatti af salti)
Þessu er svo bætt við soðið pastað og hakkaðri persillu stráð yfir.

Saturday, April 01, 2006

Tvær "kjötbollu" uppskriftir

Byrja á að setja inn það sem ég átti hvort eð er á tölvutæku... þá er þetta þó allt á sama stað; HÉR ! :)
Báðar þessar eru gerðar með hakki en sú seinni mæli ég sterklega með að sé notað lambahakk ef það er til... bragðmeira og betra en venjulegt nautahakk. Margar af mínum uppáhalds hakkupskriftum eru einmitt úr lambahakki, lofa að bæta þeim við hér síðar.

Litlar kjötbollur í karrí og kóríander

(LagaLätt 2005)
fyrir fjóra
250 g frosið blaðspínat
400 g svínahakk
1 egg
1 tsk af eftirfarandi; cummin, malið kóríander, múskat, salt... og svo smá pipar líka
1 msk olía
2 tsk (eða meira ef þú vilt sterkt....) grænt currypaste
1 1/2 dl (lítil dós) létt kókosmjólk
1/2 teningur kjúklingakraftur + 2 dl vatn
smá maízenaþykkir... magn eftir smekk
3 msk hakkað ferskt kóríander eða eftir smekk...

Þíddu spínatið og leggðu það í sigti svo þú getir kreist úr því allt vatnið. Hakkaðu helmingin af því gróft.
Blandaðu hakkið með eggi, kryddunum og hakkaða spítaninu (helmingnum þ.e.a.s). Rúllaðu valhnetustórar bollur úr blöndunni.
Hitaðu pönnu með olíunni og brúnaðu bollurnar á öllum hliðum. Taktu þær svo uppúr pönnunni og á disk meðan þú.... setur karrípeistið í pönnuna og steikir það í cirka 1 mín, hræra allan tímann! Helltu svo í kókosmjólkinni og kraftinum og láttu það sjóða í nokkrar mínútur. Leggðu svo kjötbollurnar í sósuna ásamt salti, pipar og ef til vill aðeins meiru karrípeisti. Ef þig langar að hafa sósuna þykkari bætiru við smá maizenaþykki eða ljósum sósuþykkji.
Hrærðu að lokum í kóríanderinn saman við ásamt restinni af spínatinu. Gott að bera fram með hrísgrjónum eða núðlum.

Kofta Karrí bollur

(Healthy Cooking; a commonsence guide)
fyrir fjóra
500 gr hakk (lambahakk helst)
1 laukur, saxaður
1 hvítlauksrif, saxað
1 tsk ferskt engifer niðurrifið (það er snilld að eiga ferskt niðurrifið engifer í krukku inní ísskáp... endist lengi)
1 rautt chillí, saxað
1 tsk garam masala
1 tsk malið kóríander
1/4 bolli (25 g) möndlur, saxaðar (þessu má sleppa og verður engu verra)
2 tsk hakkað ferskt kóríander (má líka sleppa)
1 tsk salt
Blanda þessu öllu saman og gera valhnetustórar bollur sem eru svo steiktar á pönnu... þarf ekki að steikja alveg í gegn því sósan kemur svo...

1 msk olía
1 laukur, saxaður
2 msk Korma karrí paste (eða annað karrí paste m/bragði)
400 g hakkaðir tómatar í dós
1/2 bolli (125 g) jógúrt, t.d. tyrknesk eða matreiðslujógúrt
1 tsk lime safi
Hitaðu olíuna í potti á lágum hita, bættu við lauk og steiktu í nokkrar mínútur þartil mjúkur og gylltur. Bættu við karrípeistinu ásamt tómötunum og leyfðu að malla í 5 mín. Hrærðu við jógúrtina, 1 msk í einu, og limesafanum. Helltu sósunni yfir bollurnar á pönnunni og mallaðu á lágum hita með loki á pönnunni í cirka 20 mín.
Ferski kóríanderin stráð yfir áður en borið er fram með hrísgrjónum.

Wednesday, March 29, 2006

Quinoa

Nýjasta hráefnisæðið mitt er quinoa. Það er svipað og búlgur og couscous ef þú kannast við það, og fæst líklega í sömu hillu útí matvörubúð. Munurinn er bara sá að quinoa er "mýkri" undir tönn en hitt sem mér finnst oft frekar þurrt. Svona einsog munurinn milli kartaflna og pasta... skilst það ?
Maður þarf að byrja á að skola quinoafræin vel uppúr vatni áður en það er soðið. Rosa gott bæði heitt og kalt.

Hérna koma uppskriftirnar tvær sem ég er búin að prófa so far... báðar sjúkó góðar !

Quinoa sallat med mangó og rækjum

(úr LagaLätt 05/2005)
2 dl quinoa
4 dl vatn
500 gr rækjur
1 mangó
1 avókadó
1 rauð papríka
2 sallatslaukar (eða smá vorlaukur
1/2 gúrka
handfylli af ferskum kóríander
2 msk limesafi
salt og pipar
Setja upp vatnið að suðu, quinoa bætt við og látið sjóða í cirka 15 mínútur. Rækjunum bætt við þegar quinoað er fullsoðið svo volgni örlítið.
Saxa niður allt grænmetið eftir smekk (sumt í bita, annað í báta o.sfrv.). Öllu blandað við quinoarækjurnar og limesafinn ásamt salti, pipar og kóríander bætt við í lokin.

Quinoasallat með rauðbeðum og valhnetum

(af www.Tasteline.com)
3 ferskar rauðbeður
2 dl quinoa
4 dl vatn með grænmetiskrafti
1 poki babyspínat
2 msk sítrónusafi
1 fínhakkaður rauðlaukur
1 fínhakkað hvítlauksrif
100 gr fetaostur
6 valhnetukjarnar, saxaðir
Rauðbeðurnar soðnar, skrælaðar og skornar í bita. Quinoa soðið uppúr grænmetiskraftsvatninu. Raðað í salatskál í eftirfarandi röð; spínat, rauðbeður, quinoa, sítrónusafi, laukar, fetaostur, hnetur.
Þetta var borið fram með pönnusteiktum lax en mér fannst þetta alveg eins geta virkað sem matarmikið salat eitt og sér.

Útskýring á þessu blessaða matarbloggi....

þar kom að því ! Búin að langa til og tala um og vera hvött til þess af ýmiskonar fólki að uppskriftarblogga. So here I go ! Tilgangur bloggsins er m.a.;
- Ég á mér margar uppáhalds uppskriftir sem eru staðsettar í bæði blöðum og bókum, oft er ég stödd einhverstaðar þarsem ég get ekki komist í uppskriftirnar mínar og þá er gott að hafa svona blogg ! Allt á netinu þarsem ég vil hafa það :)
- er oft beðin um uppskriftir af vinum og kunningjum
- langar næstum alltaf að deila með mér uppskriftum með öðrum þegar ég er búin að prófa sjálf og finnst gott... er með smá "feed the world" heilkenni.
Veit ekki alveg hvernig ég ætla að hafa þetta samt ... kemur í ljós með tímanum.... ætla ekki að lofa nýjum uppskriftum á hverjum degi ... nema ég sé í extramiklu stuði ! En svo kannski koma margar á dag, ekkert kemur á óvart.