Sunday, January 31, 2010

Súpa úr hvítum baunum... löguð á korteri !

Við sem erum einhvað örlítið GI meðvituð forðumst kartöflur einsog heitan eldinn... en ég er sko búin að finna það næst besta; stórar hvítar baunir !
Heitar eða kaldar eru þær alveg einsog kartöflur á bragðið. Og núna þegar ég hef prófað að gera súpu úr þeim er ég alveg sannfærð um bragðvíxlunina. Fín "skápasúpa" í þokkabót (ef mar á tvær dósir af stórum hvítum baunum eða í öðru falli Cannellinibaunir í skápnum og spínat í frystinum er dæmið klárt).

Súpa úr hvítum baunum

1 laukur, saxaður
1 hvítlauksrif, pressað/kramið
2 dósir af stórum hvítum baunum eða Cannellini baunum þær fyrrnefndu finnast ekki, vökvanum hellt af og baunirnar skolaðar.
1 l grænmetis eða kjúklingasoð
2 msk sítrónusafi
rifinn sítrónubörkur af 1/2 sítrónu
1 dl sýrður rjómi
spínat í frjálsu magni (ferskt eða frosið og afþítt; vatnið kreist vel úr)
salt og pipar

Laukarnir mýktir í smá olíu, baunum og soði bætt við. Leyft að malla í 10 mín og svo mixað slétt með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Sítrónusafa og berki bætt við ásamt sýrða rjómanum. Spínatinu bætt við og leyft að hitna í gegn. Smakkað til með salti og pipar.

Thursday, January 28, 2010

GI-bananabrauð... ofurhollt !

Það er ekki beint auðvelt að baka GI-heldar uppskriftir og þess vegna varð ég dálítið vel forvitin að komast að því hvernig þessi yrði á bragðið. Þurfti aðeins að breyta frá upprunalegu uppskriftinni (amerískar vörur sem ég hef ekki aðgang að) en mér fannst útkoman alveg fantagóð. Vel samkeppnishæft við þær útgáfur sem ég er vön að baka og stútfull af "góðum" sykri, eggjahvítu, grófmöluðu spelti, hörfræjum og þar fram eftir götunum.

Hollt (GI) bananabrauð

1,5 bolli (355 ml) heilhveitispelt eða heilhveiti venjulegt
3/4 bolli (177ml) hörfræ sem eru keyrð í matvinnsluvél þartil orðin að grófu dufti
2 tsk lyftiduft/bakpulver
1 tsk matarsódi/natrón
1 tsk kanil
1/2 tsk salt
3 vel þroskaðir bananar
6 msk sykur að eigin vali. Ég notaði ávaxtasykur (fruktos) í sama magni þar sem hann er GI vænni en sá hvíti/brúni.
3/4 bolli (177 ml) gräddfil/buttermilk/þykk venjuleg jógúrt með smá sítrónusafa útí
4 eggjahvítur
1 tsk vanilludropar
3/4 bolli (177ml) saxaðar valhnetur.

Byrjaði á því að þeyta eggjahvíturnar ásamt sykrinum þartil þær voru farnar að freyða vel. Ekki stífþeyta þó, bara farnar rétt að lyfta sér. Bætti svo öllum þurrefnunum saman og þeytti örstutta stund saman við hvíturnar.
Stappaði bananana og bætti við þá gräddfilnum og vanilludropunum. Hrærði þetta varlega saman við hvíturnar+hveitið og allra síðast söxuðu valhneturnar.
Hellti í aflangt form og bakaði við 175 gráður í 40-50 mín.

Wednesday, January 27, 2010

Jógúrtbrauð

Fer að verða síðasti sjéns að nýta hefunarábyrgðina sem þungað ástand mitt hefur og baka alvöru gerbrauð... prófaði þetta í gær og leyfði Hilmi að "skreyta" brauðið með hendinni sinni. Kom vel út bæði á að líta og borða. Verst að ég tók ekki mynd... en ef ég lýsi verklaginu þá bað ég Hilmi að setja hendina sína ofaná brauðið áður en ég setti það inní ofn, svona einsog ég ætlaði að teikna eftir hendinni. Svo var ég með hveiti í tesíl og dustaði VEL yfir brauðið svo það varð allt hvítt fyrir utan handarfarið sem myndaðist þegar hann tók hendina í burtu. Eftir að brauðið hafði bakast og orðið gullinbrúnt lýsti fjarvera hvíta hveitisins upp hendina sem hafði stækkað í ofninum og aflagast pínu svo úr varð rosa spennandi listaverk (eða það fannst allavega Hilmi sem stolltur borðaði handabrauðið "sitt").
Það er líka hægt að búa til stensil úr einhverju mynstri og dusta yfir hveiti.. nú eða bara dusta smá hveiti yfir án nokkurs og sjá æðarnar sem myndast þegar brauðið lyftir sér.

Uppskriftin er allavega einföld og laus við sykur af nokkurri sort sem er ekki verra ;)

Jógúrtbrauð
2 litlir hleifar

5 dl jógúrt/ab mjólk. Velgd uppað 37 gráðu hita (fingurvolgt).
50 g lifandi ger (eða þurrger), blandað saman við hluta af volgu jógúrtinni. Þarf ekki mikið til að fá það til að leysast upp, cirka 1-2 dl.

Í hrærivélaskálina er svo sett;
6 dl rågsikt/rúgmjöl
3-4 dl hveiti, geyma rúman dl til að hnoða út deigið með eftir að það hefur hefast í fyrsta sinnið.
2 tsk salt

Allt unnið vel saman í vélinni, plastfilma + viskustykki sett yfir skálina og hún sett til hliðar gjarnan á hlýlegan stað í eldhúsinu. Látið hefast í minnst 30 mín (ég leyfði að hefast í rúman 1,5 klst því ég var ekkert að flýta mér aldrei þessu vant).

Svo tekið úr skálinni og hnoðað örlítið með afgangs hveitinu. Það þarf ekkert að hnoða þartil það hættir að vera klístrað.. bara rétt svo maður geti búið til tvo litla hringlótta hleifa sem settur eru á bökunarpappírsklædda grind. Leyft að hefast í 30 mín til viðbótar. Skreytt með hveitimynstri ef maður vill.
Bakað í 15 mín við 250 gráður og leyft að hvílast í eftirhitanum þegar maður hefur slökkt að bökunartímanum loknum. Við vorum svo gráðug að við borðuðum brauðið ylvolgt 20 mín eftir að það hafði fullbakast, mjög gott. Þegar það svo hafði alveg kólnað seinna um kvöldið var það orðið þéttara í sér og "þroskaðra" einhvernvegin. Alveg jafn prýðisgott daginn eftir og skorpan orðin mýkri af dvölinni í plastpokanum.

Thursday, January 14, 2010

Fljótgerður pizzabotn úr spelti !

Alveg hreint elska ég brauðuppskriftir sem innihalda lyftiduft í staðinn fyrir ger. Hef oftast ekki þolinmæðina í að láta brauð lyfta sér og þá sérstaklega ekki ef maður er að gera heimagerða pizzu í snarhastri. Annars verður freistingin að labba útá horn og sækja sér eina tilbúna hjá vingjarnlegu kúrdunum of mikil.

Í kvöld prófaði ég eftirfarandi uppskrift með hreint æðislegum árangri. Nýtt uppáhald hjá fjölskyldunni !

5 dl spelt (dinkel á sænsku), notaði til helminga fínmalað og grófmalað
1 tsk salt
2 msk olía
3 tsk lyftiduft
1 msk blandað þurrkrydd (setti smá oregano, timjan, basiliku, jurtaaromat ofl)
3 dl ab-mjólk (naturell fil/a-fil)

Öllu hrært saman þar til rétt svo blandað saman. Má ekki ofhræra. Verður einsog teppalím í áferðinni en það er í fínu lagi, ég lofa ! Svo klessir maður þessu á bökunarpappír í þeirri stærð sem maður vill ná (ég gerði eina litla fyrir Hilmi og eina stóra fyrir okkur fullorðnu). Botninn á eftir að tvöfaldast að þykkt inní ofninum þannig að það má dreifa svolítið vel úr deiginu.
Forbakað í 200 gráðu heitum ofni í 5 mín, tekin úr og sett pizzasósa og álegg að eigin vali, bakað áfram í 15 mín í viðbót.