Thursday, November 30, 2006

Allt er til á netinu....

Ég get eytt heilu og hálfu dögunum í að skoða uppskriftir og fyllast innblæstri á góðum uppskriftasíðum á netinu. Mínar uppáhalds eru;
www.tasteline.com
www.epicurious.com
www.bbcgoodfood.com
www.foodtv.com

aðrar áhugaverðar;
www.sunmaid.com
www.mrschengs.com
www.arla.se


Lofa að bæta við þennan lista ef ég rekst á nýjar síður !

Wednesday, November 29, 2006

Líbanskt kryddaðar kjötbollur með kjúklingabaunum

Hilmir hakkaði þessar í sig sem mest hann mátti... kjúklingabaunirnar gera bollurnar extra djúsi og þær voru sko ekki síðri daginn eftir sem afgangar.

Líbanskt kryddaðar kjötbollur
(úr Vivokúnnablaði)

500 g hakk (lamba best, annars nautahakk)
1 lítill gulur laukur, hakkaður
2 hvítlauksrif
1 dós soðnar kjúklingabaunir
2 msk olía til steikingar eða smjör
2 tsk kúmmin
2 tsk papríkuduft
0,5 tsk kanilduft
örlítill cayennepipar eða chillí
2 msk fljótandi kálfakraftur (fond)
0,5 dl persilja, hakkað
1 egg
salt og pipar


Hitið ofninn í 200 gráður. Fínhakka lauk og hvítlauk. Hella af kjúklingabaununum og skola með köldu vatni. Mauka gróflega með gaffli eða kartöflustappara.
Hita olíu eða smjör á pönnu og léttsteikja laukana, bæta svo við kjúklingabaunastöppunni og kryddunum. Láta allt hitna vel í gegn, cirka 1 mín. Látið kólna og blandið svo með kjöthakkinu. Bætið við kálfakraftinum, hakkaðri persilju, eggi, salti og pipar og mótið í litlar bollur. Setjið í ofnskúffu og ofnsteikið í 10 mínútur. Þvínæst eru þær steiktar á pönnu uppúr smjöri/olíu þartil þær fá góðan lit. Með því að ofnsteikja halda þær betur formi heldur en ef maður steikir strax á pönnu.

Bera fram með hrísgrjónum og myntujógúrt (hrein jógúrt, miiiikið af ferskri myntu, salt og pipar).

Tuesday, November 07, 2006

Pasta með graskeri (pumpkin)

Hafði aldrei á ævinni borðað grasker svo ég stóðst ekki mátið að þreyta frumraun í a) graskerseldamennsku og b) elda uppskrift af dagatali (þess ber að geta að dagatalið er frá Good Food svo ég taldi það nokkuð áreiðanlegt og líklegt til árangurs).
Tek fram að þetta er engin dietuppskrift enda ómælt magn af smjöri þarna en ég minnkaði magnið þó til muna og held að megi gera enn betur í næstu umferð. Það lá við að við sleiktum pottinn eftir að hafa étið yfir okkur af þessu ! Hilmir fékk ekki einusinni að smakka....

Pasta með graskeri, furuhnetum og geitarosti
(úr Good Food)

300 gr af graskeri, kjarnhreinsað, afhnýtt og niðurskorið í cirka 2 cm bita
olía, salt og pipar
Ferskt pasta af einhverri góðri týpu, magn fyrir 3-4
85 gr af smjöri (ég minnkaði niður í 50 gr án vandræða)
50 gr furuhnetur
4-5 msk smátt söxuð fersk salvía (verður að vera fersk!)
180 gr geitarostur

Graskersbitarnir olíubornir örlítið, saltaðir og pipraðir vel og bakaðir í ofni við 200°c í 30 mín eða þartil mjúkir.
Pastað soðið og látið renna af því, geyma þó cirka 1 bolla af vatninu undan því og sett til hliðar.
Smjörið brætt á pönnu við meðalhita og furuhnetum og salvíu bætt út í. Steikt þartil smjörið er orðið örlítið brúnt, furuhneturnar farnar að taka lit og salvían að verða stökk. Þá er smjörblöndunni bætt við pastað í pottinum ásamt graskersbitunum og geitarostinum. Hrært þartil osturinn er farin að bráðna og mynda sósu. Nota vatnið undan pastasoðinu til að bleyta meira upp í ef þykir þurfa.
Piprað.