Saturday, December 20, 2008

Grafinn lax með einiberja, trönuberja og ginkryddblöndu

Í fyrra gróf ég eigin lax sem við höfðum svo í forrétt á gamlárskvöld. Ákvað að gera slíkt hið sama þetta árið og eftir að hafa skoðað ýmsar kryddblöndutillögur ákvað ég að halda mig við þá sömu og í fyrra... enda var það alveg rosalega gott ;)

Í kryddblönduleitinni minni sá ég ferlega fínt myndband á tasteline.com sem sýnir handtökin við að grafa lax. Sjá hér. Margar uppskriftir mæla með því að maður frysti laxinn áður en hann er grafinn en ég nota trixið hennar Bergljótar ömmu minnar og frysti hann eftir grafningu, tek hann svo úr frysti sama dag/kvöld og ég ætla að bera hann fram svo að hann sé hálffrosinn þegar ég sker hann. Þá er miklu auðveldara að skera í næfurþunnar sneiðar og ef hann er ennþá frosin þegar maður sker þá þiðnar hann á nokkrum mínútum þarna í sneiðum á fatinu. Að frysta er algjört lykilatriði til að fá í burtu allar mögulegar salmonellur og skemmtileghet...

Svo já. Aðferðin er þessi;
Tekur heilt laxaflak og skerð í tvo jafn stóra hluta. Blandar saman
4 msk sykur
2 msk salt
2 tsk þurrkuð einiber, barin í morteli
2 tsk þurrkaður rósarpipar, barin í morteli

og berð ofaná báða laxabitana. Svo er 1-2 cl gini dreypt yfir.
Núna set ég plastfilmu ofaní fat sem annar laxbitinn passar ofaní. Einn laxbiti er settur þarna í með hreistrið niðurávið, klippa svo góðri lúkufylli af dilli ofaná og dreifa yfir 1 dl af trönuberjum. Hinn laxabitinn er svo settur ofaná svo myndi einskonar samloku (hreistrið uppávið semsagt).
Öllu pakkað inní plast og farg sett ofaná. Látið standa í kæli í 1-2 daga og svo fryst þartil á að notast.

Friday, December 19, 2008

Smákökur með trönuberjum og hvítum súkkulaðibitum

Ég á sérstakan jólauppskriftakassa fullan af jólamatreiðslublöðum og bókum. Þangað fer sko nýjasta uppskriftabók Nigellu Lawson "Nigella Christmas" þegar jólin eru búin og bíður eftir mér til næsta árs ;)
Prófaði smákökuuppskrift úr bókinni og verð að segja að hún kom mér á óvart. Kannski var það afþví ég var nýbúin að baka (og smakka) íslenska smákökuuppskrift sem var svo dísæt að mér leið einsog ég væri að bryðja bragðbættan sykurmola. Svo þegar koma að frú Nigellu minnkaði ég sjálfkrafa sykurmagnið með prýðis árangri. Ég hef nefnilega komist að því að ég er ekkert rosalega mikið fyrir súkkulaðibakstur eða dísætar kökur. Frekar ávexti og haframjöl !
Þessi smákökuupskrift inniheldur bæði.

Smákökur með trönuberjum og hvítum súkkulaðibitum
(eiga að gefa 30 stykki)

150 g hveiti
1/2 tsk "baking powder" / bakpulver / örlítið minna ef notað er lyftiduft
1/2 tsk salt
75 g haframjöl
125 mjúkt smjör
75 g púðursykur eða dökkur muscavadosykur, ég minnkaði magnið niður í 60 g
100 g sykur, aftur minnkaði ég magnið niður í 85 g
1 egg
1 tsk vanilludropar
75 g þurrkuð trönuber
50 g pecan hnetur, saxaðar
150 g hvítir súkkulaðidropar eða "chips". Fann hvergi svoleiðis svo ég keypti hvítt blokksúkkulaði og saxaði það.

Hita ofninn í 180 gráður. Mæla í skál hveiti, bakpulver, salt og haframjöli.
Þeyta saman í hrærivél smjöri og sykri (bæði púðursykri og venjulega) og bæta svo við egginu. Hræra svo saman við hveiti/haframjölsblöndunni. Hnoða svo saman við trönuberjunum, hnetunum og súkkulaðinu.
Svo er að bretta upp ermarnar ! Taka litla lúkufylli af deigi og rúlla í kúlu. Hversu stóra fer eftir því hversu stórar kökur þú ert að skjóta á að fá. Ég gerði golfkúlustærð. Setja á bökunarpappírsklædda ofnplötu og þrýsta svo aðeins niður þannig að kúlan fletjist örlítið út. Baka í heitum ofninum í cirka 15 mín. Leyfa að kólna áður en tekið er af plötunni.

Þessar má baka og frysta í allt að 3 mánuði. Þíða þá við stofuhita. Geymast annars í 5-7 daga í lokuðu íláti.

Friday, December 12, 2008

Árangur jólagjafadútls ársins

Gaf mér tíma í dag til að stússast aðeins í konfekt- og kassagerðinni sem ég var búin að tala svo mikið um (sjá áður birta færslu hér).

Árangurinn var stórkostlega, unaðslega fallegur... já og góður líka. Uppskriftin var ekki fyrir 12 döðlur einsog hún Leila hafði gefið til kynna heldur endaði ég með 25 stykki þegar upp var staðið. Ekkert verra enda er þetta alveg einstaklega gott !
Braut saman kassana á korteri og voila.... komin hin fínasta jólagjöf sem verður færð gestgjöfum kvöldsins (við erum sko að fara í jólaboð á eftir).
Posted by Picasa

Wednesday, December 03, 2008

GI-hakk og spakk með indverskum blæ

Hvert heimili hefur sína eigin útgáfu af þjóðarréttinum hakk og spagettí. Sumir setja smá rjómaost útí, aðrir sveppi, rifnar gulrætur, tómatpuré... eða hreinlega bara tilbúna dósasósu útá nautahakkið.

GI-frelsaði sjálfa mig um daginn og héðan verður ekki snúið !

Hakk og spagettí með indverskum blæ.
f. 4

1 laukur, saxaður
3 hvítlauksrif, einnig söxuð

1 msk karrí
1 tsk engifer (duft, ekki ferskt)
möluð nellika á hnífsoddi
1 dl tómatpuré
1 dl vatn
400 g nautahakk

Hvítlaukur og laukur steikt uppúr örlítillri olíu. Bæta við hakkinu og öllum kryddunum. Salta og pipra. Vatninu helt útá pönnuna og látið malla í nokkrar mínútur.
Borið fram með heilhveitispagettíi (ofcourse!) og mangósósu sem ég geri úr sýrðum rjóma með smá mangóchutney. Ef maður ætlar að vera alveg agalega flottur á því má setja möndluflögur oná alveg í blálokin ;)

Tuesday, November 18, 2008

Úti á grænni grundu.... fiskur með ruccolapesto (GI)


Ég fékk næstum því heimþrá til Íslands þegar ég sá litasprengjuna sem samanstóð af kríthvítri íslenskri ýsu þakinni heimagerðu ruccolapestói. Fór að kyrja ættjarðarlög og hljóp svo og náði í myndavélina til að festa augnablikið á (digital) filmu.
Eftir veruna í ofninum tapaðist nátturulega aðeins af þessum skærgræna lit en var nú samt alveg óheyrilega fallegt á diskinum með baunasalatinu. Feikna hollt og feykilega gott.

Posted by Picasa


Hvítur fiskur með heimalöguðu ruccolapestó

600 g hvítur fiskur að eigin vali. Ég notaði íslenska ýsu sem ég átti í frystinum... mmm

50 g ruccolasalat
50 g furuhnetur, brúnaðar á heitri, þurru pönnu
1 dl parmesanostur
3 msk olía
Þessu er mixað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota þartil orðið að fallegu skærgrænu mauki.

Fiskurinn er lagður í ofnskúffu/fat, saltaður, pipraður og pestóinu smurt ofaná. Eldaður í 200 gráðu heitum ofni í 15-20 mín.

Bar þetta fram með baunasalati (GI-style) sem samanstóð af (ath! magnið miðast við salat fyrir einn); 1 lítil dós stórar hvítar baunir, hálfu avocadoi, smá niðurskornum rauðlauk og slettu af hvítvínsediki, olíu og salti+pipar.




Saturday, November 08, 2008

Jólagjöfin (og jólaföndrið) í ár...

Heimagert konfekt í heimagerðri öskju !

Gerist það betra ?

Í fyrra gerði ég æðislega góða sultu sem sló nátturulega í gegn hjá þeim sem voru nógu heppin að fá svoleiðis í jólagjöf frá mér... en þetta árið langar mig að dútla aðeins meira. Og þá meina ég töluvert mikið meira. Ekki nóg með að ég ætli að búa til smá konfekt heldur ætla ég líka að brjóta saman gjafaöskju fyrir hvern og einn.

Myndin er úr Elle Mat och Vin og ég ætla að gera tvær týpur sem þar er að sjá. Innihaldslýsing og uppskrift er hér. Svo er ég líka pínu heit fyrir að gera svona fylltar konfektdöðlur líka... sjá hér.

Ég er búin að sitja og æfa mig í að búa til öskjurnar. Það er alveg ferlega auðvelt ef maður bara er með réttan pappír og góða reglustiku til að fá öll brotin fín. Brotalýsingin er hér.

Sunday, September 21, 2008

Pasta með perum og gráðosti

Fljótlegasta pasta í heimi. Og alls ekkert óhollt heldur því það þarf lítið magn af gráðosti og beikoni til að gefa mikið mikið bragð.

Pasta með perum og gráðosti
f. 2-3

Heilhveitipasta, áætlið magn fyrir fjöldann
1 pera, skorin í eins þunnar sneiðar og hægt er
lófafylli af valhnetum, grófsaxað
1 pakki af beikoni, steikt þartil stökkt, látið kólna aðeins á eldhúspappír (dregur líka í sig fituna) og grófsaxað
100 g gráðostur að eigin vali

Ég sauð pastað, hellti af því og bætti ostinum við oní pottinn. Hrært þartil osturinn hafði bráðnað og skammtaði svo á diskana. Stráði svo restinni af innihaldinu ofaná hvern disk; fyrst beikoni, svo perubitunum og loks valhnetunum.
Posted by Picasa

Ætifífilssúpa með sítrónurækjum og rauðlauksbrauði

Ok... þessi súpa hljómar MUN girnilegri á sænsku; jordärtskocksoppa. Ég hafði ekki hugmynd um hvað jordärtskocka héti á íslensku, né heldur ensku svo ég bara googlaði því. Upp kom þessi síða hjá gestgjafanum.
Sumsagt Jordärtskocka = ætifífill = jerusalem artichoke.
Minnir á hnýðótta ljósa kartöflu í útliti en er ekki jafn mjölkennd á bragðið.

Þessi uppskrift er GI-skotheld en með brauðbollunum fer það dáldið forgörðum. En maður getur svosem sleppt þeim eða bara fengið sér pínusmá... því þær eru svo góðar að það má varla sleppa þeim ;)
Ég varð eiginlega mest hissa á því hvað rækjurnar féllu vel við bragðið á súpunni. Eiginlega dáldil sparisúpa (enda sunnudagur í dag og engin steik á þessu heimili) og ég á ekki eftir að hika við að bjóða gestum uppá þessa útgáfu einhverntíman fljótlega.

Ætifíflasúpa með sítrónurækjum
(uppskriftin segir fyrir 4 en við vorum 2 fullorðnir + barn og átum upp til agna... potturinn var sleiktur)

2 hvítlauksrif, þunnt sneidd
1 msk olía
5 dl vatn (ég bætti smá grænmetiskrafti við, á svo gott "lantbuljong")
600 g skrældir ætifíflar, skornir í helminga
salt
1 dl matreiðslurjómi
1 msk hvítvínsedik
Hvítlauksrifin mýkt uppúr olíunni, smávegis af vatninu bætt við og að lokum ætifífilsbitarnir. Restinni af vatninu bætt við en það á rétt að ná að þekja ætifífilsbitana í pottinum. Leyft að malla í 15 mín eða þartil orðnir vel mjúkir. Saltað örlítið og mixað með handmixara (eða sett í matvinnsluvél).
Rjómanum og edikinu bætt við og leyft að hitna aftur.

200 g rækjur
Safinn af einni sítrónu
2 msk olía (gjarnan olívuolía)
Rækjunum leyft að liggja aðeins í sítrónusafanum + olíunni. Ég saltaði örlítið. Bætt við í hvern súpudisk rétt áður en borið er fram og piprað.

Rauðlauksbrauðbollur
10 bollur (ég minnkaði uppskriftina um helming og gerði bara 5 sem nægði alveg fyrir okkur.. en hér kemur heil uppskrift)

4,5 dl hveiti
2 tsk "bakpulver" (svipað og lyftiduft)
1/2 tsk salt
50 g smjör
2 rauðlaukar, skornir í strimla
100 g rifinn, fitulítill ostur
Upprunalega uppskriftin segir að hér eigi að vera líka 1 dl olívur en ég átti engar svo ég sleppti þeim og jók við ostamagnið
2 dl mjólk

Ofninn hitaður í 250 gráður. Þurrefnunum blandað saman og smjörið skorið í bita, bætt við og mulið með fingrunum. Lauknum, ostinum og mjólkinni blandað við. Sett á bökunarpappírsklædda ofngrind. Búnar til 10 bollur sem eru cirka 5 cm að breidd. Bakað í 10 mín.
Posted by Picasa

Friday, September 12, 2008

GI - Indverskur kjúklingaréttur

Uppgötvaði í dag hversu brjálæðislega mikill munur væri á dósasósu og svo karrísósu frá grunni. Sérstaklega þessari GI-útgáfu sem er með fullt fullt af grænmeti í. Bragðmeira einhvernvegin og tekur alls ekki svo langan tíma að gera...
Bar að sjálfsögðu fram með hráhrísgrjónum og salati sem innihélt saxað hvítkál og papaya. Smá tyrknesk jógúrt setti punktinn yfir i-ið (sjá mynd).

Indverskur kjúklingaréttur

1 laukur, saxaður
400 g kjúklingabringur (tvær), skornar í bita
2 tsk karríduft
2 dl hafrarjómi (eða bara matreiðslurjómi)
2 rauðar papríkur
1 rautt chillí
1/2 blómkálshaus

Kjúllinn brúnaður á pönnu eða í potti uppúr smá olíu, lauknum bætt við og mýktur aðeins. Karríduftinu og rjómanum bætt við og leyft að malla smá við lágan hita. Papríkurnar saxaðar, chillíið snyrt fræhreinsað og saxað. Þessu bætt við í pottinn. Blómkálið er skorið í litla vendi og soðið í vatni þartil orðið aðeins mjúkt. Síðan bætt við í kjúklingapottinn. Öllu leyft að hitna í gegn.
Posted by Picasa

Friday, September 05, 2008

GI - sallat með beikoni

Áfram held ég að lista upp GI-mataræðinu. Í hádeginu í dag ætla ég að gæða mér á salati sem í er;
- steikt beikon
- 1 lítil dós "matvete" (svona hveitihafrar í dós)
- kirsuberjatómatar
- sykurbaunir, léttsoðnar
- blandað salat

og svo með því 10% Kesella (þeir kalla það ferskan ost, bragðast einsog sýrður rjómi) með fersku timjan og basil í.

Thursday, September 04, 2008

GI - tvennskonar hversdagsspagettí


Það var spagettíréttur á fyrsta degi GI-viknanna tveggja... og svo aftur í kvöld á þriðja degi. Bæði jafn ótrúlega gott og verður pottþétt sett í "gera aftur" möppuna mína.
Upprunalega uppskriftin mælir náttúrulega með að notað sé heilhveitipasta og núna eftir að hafa prófað bæði venjulegt og heilhveiti (svona til að gera vísindalegan samanburð) get ég sagt að þetta heilhveitis er sko engu verra ! Alls ekkert pappírsbragð einsog ég var búin að ákveða í huganum. Ingó lýsti því yfir að honum þætti það meira að segja betra svo hananú ! Heilhveitibær héðan eftir ;)



Pasta með rjómaskinkusósu/svindl-Carbonara (sjá mynd)
fyrir 4

Soðið spagettípasta (heilhveiti) sem nægir fyrir 4
1 gulur laukur, saxaður
olíusletta
2 dl hafrarjómi (hollara en venjulegur)
200 g reykt skinka í bitum (notaði sænskan kassler)
50 g parmesanostur, rifinn
2 egg
salt og pipar eftir smekk

Laukurinn hakkaður og léttsteiktur uppúr smá olíu í potti. Rjómanum bætt við og hitinn lækkaður í lægsta. Rífa parmesanostinn og bæta við eggjunum tveimur, hræra örlítið. Öllu blandað saman (best að gera það í pastapottinum eftir að búið er að hella vatninu af og taka af hellunni).

Pasta með zucchini, chevré og bresaola
fyrir 4

Hvernig getur pastaréttur ekki orðið guðdómlegur með þessu innihaldi ?
Soðið heilhveitispagettí fyrir fjóra.

1 zucchini (lítið), skorið í þunnar sneiðar og steikt á pönnu uppúr smá olíu þartil hefur tekið lit. Saltað, piprað og grófsaxað.

150 g chevréostur (geitarostur), mulinn
200 g bresaola (eða annað reykt álegg... hmmm... hvernig ætli fitulítið hangikjöt yrði í svona ?)

Ég lagði þannig uppá disk að ég setti fyrst bara soðið pastað, svo saxaða bresaolað, zucchiníið og ostinn að lokum. Þá getur hver og einn hrært í sínu eigin pasta svo osturinn smyrjist á pastað og verði að nammisósu.
Mestbest !

Tuesday, September 02, 2008

GI-menningin

Ég hef farið á marga megrunarkúra yfir æfina og hef af því dregið einn mikilvægan lærdóm; öfgar eru ekki að gera sig.
Atkins-kúrinn hefur þess vegna aldrei heillað mig neitt sérstaklega né heldur það sem ég hélt að væri GI-mataræði. En svo tók ég mig til og fór að lesa aðeins meira um þetta GI-dæmi allt saman. Komst fljótlega að því að það eru til öfgar innan GI líka ! Common sence GI er hinsvegar einhvað sem ég hef nú þegar aðhyllst og bara vissi ekki fyrr en ég fékk það staðfest þarna í girnilegu GI kokkabókunum sem ég var að skoða.
Ég meina... afhverju að vera að fræða sig um hvað er mátt hátt eða lágt GI ef maður á svo bara að sleppa öllu kolvetni algjörlega ?! Nei frekar fannst mér vit í því að velja sér góð kolvetni og sleppa þeim vondu (hvítt brauð, hvít hrísgrjón, venjulegt pasta og kartöflur).

Hráhrísgrjón, quinoa, bulgur og dökkt brauð er nefnilega alveg my cup of tea ;) Heilhveitipasta er kannski meira svona ullabjakk en hver veit.. kannski mér takist að bliðka bragðlaukana til að skipta út góða góða eggjapastanu sem ég borða venjulega !
Brauðát vandi ég mig af um leið og ég flutti til Svíþjóðar og mér hálfbregður alltaf þegar við erum heima á Íslandi í fríum hvað eitt svona risabrauð er fljótt að fara þarna í Þverásnum.
Ætti ekki að vera of flókið !

Svo.
Ákvörðun hefur verið tekin. Ég ætla að reyna að halda mig við bókina "Klaras Goda GI-dagar" sem ég keypti loksins eftir að hafa reynt að handskrifa helming uppskriftanna úr lánsbókinni sem ég var með frá bókasafninu. Þar er tveggja vikna matseðill gefin upp með ótrúlega girnilegum réttum í hádegi og kvöldmat.
Alltaf gaman að prófa einhvað nýtt og hver veit nema ég fái einhvað útúr því kílóa og heilsusamlega séð líka ?!

Í dag er semsagt dagur nr. 1 og í hádeginu gerði ég mér salat úr;
- kjúkling (átti inní frysti eldaðan kjúkling sem ég hafði skorið niður og geymt til að hafa í salati)
- gúrkubita
- kirsuberjatómata
- sykurbaunir eða belgbaunir (sugar snap peas/sockerärtor), léttsoðnar
- rauðlauk
- stórar hvítar baunir úr dós
Hellti yfir þetta cirka 1 tsk af rauðvínsediki og 1 msk olíu. Gerði svo dressingu úr 1/2 dl Kesella og 2 msk 15% sýrðum rjóma, salt, pipar og litla lófafylli af fersku timjani.

Í kvöld verður svo pasta með skinku og léttrjómasósu. Skelli inn uppskriftinni af því á morgun ;)

Wednesday, July 02, 2008

Rauðbeðukaka.... BLEIK kaka !

Posted by Picasa


Posted by Picasa
Já ást mín á rauðbeðum er hrein og tær. Held að það sé samblandan af þessum djúpa, skæra rauða lit og brjálæðislegrar hollustu.
Reif útúr sunnudags DN fyrir nokkrum vikum síðan breska uppskrift að Rauðbeðuköku. Fannst hún spennandi. Ekki varð það heldur verra þegar ég tók mig svo loks til að baka kökuna og degið varð SKÆRbleikt (sjá efri mynd). Eftir sinn tíma í ofninum var ennþá fallegur bleikrauður blær á henni. Og góð var hún líka !!
Rauðbeðukaka
250 g rauðbeða, hrá/fersk og rifin á grófu rifjárni
250 g smjör
sítrónubörkur, rifin, af cirka 1 sítrónu
250 sykur
2 egg
150 g þurrkaðir ávextir að eigin vali (trönuber, rúsínur, apríkósur.... ég blandaði þessu þrennu saman)
300 g hveiti
Smjörinu, sítrónuberkinum og sykrinum hrært vel saman þar til ljóst og mjúkt. Eggjunum bætt í, einu í einu. Rifnu rauðbeðunum og þurrkuðu ávöxtunum bætt við og hrært passlega mikið saman (með handafli), hveitinu að lokum. ATH !! Degið er fyrst dálítið einsog þurr pappamassi og ég hélt lengi vel að ég hefði mismælt hveitið. Hinsvegar láta rauðbeðurnar frá sér mikin safa þegar þær hitna í ofninum svo hætt er við að kakan verði hrá ef farið er nákvæmlega eftir uppskriftinni. Þar stóð nefnilega að það ætti að baka kökuna í 175 gráðu heitum ofni í 45 mínútur en ég hefði gjarnan viljað bæta að minnsta kosti 10 mín við þann tíma.
Gott með þeyttum rjóma, vanilluskyri eða "icing" (100 g flórsykur, sítrónusafi af 1 sítrónu, 3 msk þeytirjómi... flórsykur í skál, bæta við safanum og þeyta rjómann í smátt og smátt þartil verður að klístruðu kremi).

Monday, June 30, 2008

Fertugsafmælismatur fyrir fjölda manns

Ingó varð fertugur í síðustu viku og við boðuðum að sjálfsögðu til grillveislu :) Ég hef aldrei eldað fyrir svona marga; sitjandi matarboð fyrir 20 fullorðna + börn ! Tókst alveg hrikalega vel og maturinn var lofaður í bak og fyrir.Það sem boðið var uppá:
BBQ-maríerað svínafillé
Mangó og svartbaunasalat
Gulrótarsalat
Svo voru nýsoðnar färskpotatis og þrennskonar kaldar sósur.
Í eftirrétt var vanillupannacotta með rabbabaracompott ofaná. Setti í lítil glær plastglös fyrir hvern og einn. Er með dáldið fetish fyrir svona individuall desert fyrir gesti ;)

Uppskriftirnar koma hér ! Allt magn gefið upp hér að neðan er fyrir 4 svo ég margfaldaði bara með 5....
BBQ marínering
fyrir cirka 1 filé
3 msk sojasósa
2 msk tómatsósa
1 msk hrásykur
1 msk rifin engifer
1 hvítlauksrif, pressað
smá pipar
Lagt í poka og látið marínerast í um það bil sólarhring.

Mangó og baunasallat
1 dós svartar baunir
1 þroskað mangó, skorið í bita (ég nota frosin mangó)
1/2 gúrka, skorin í bita
2 litlir vorlaukar

dressing:
2 msk ferskur limesafi
2 tsk sykur
1 tsk cummin duft
smá pipar og salt

1/2 msk sesamolía
1/3 krukka af ferskum kóríander (mér finnst mega sleppa því.... öðrum finnst það ómissandi)

Allt grænmetið skorið í bita og blandað saman við dressinguna. Sesamolíunni dripplað yfir og kóríanderinn saxaður og bætt við í lokin.

Gulrótarsallat
(bæði gott heitt eða kalt)
1,5 kg gulrætur
1 feitt hvítlauksrif
2 tsk heil cuminfræ, ristuð á þurri pönnu
1 tsk hunang
safi af 1 sítrónu
handfylli af rúsínum
handfylli af furuhnetum, ristuðum á þurri pönnu
2 msk olía
1 krukka kóríander

Gulræturnar soðnar heilar í smá söltu vatni þartil þær eru orðnar rétt tæplega fullsoðnar. Merjið hvítlauksrifið með örlitlu salti og bætið við cumminfræjunum. Merjið saman. Bæta við maukið hunangi og sítrónusafanum.
Hellið vatninu af gulrótunum og þegar þær eru orðnar nógu kaldar (en þó enn volgar) eru þær skornar í sneiðar og settar í skál ásamt dressingunni. Rúsínunum og furuhnetunum bætt við. Látið standa með loki á (eða filmuplastað) þartil á að borða. Ágætt ef salatið fær að standa í a.m.k. klukkustund til að draga í sig bragð af dressingunni.

Vanillupannacotta með rabbabarakompotti
4 dl rjómi
1/2 vanillustöng
1/2 dl sykur
2 gelatínblöð

Rjóminn settur í pott ásamt sykrinum. Vanillustöngin opnuð og fræin skröpuð út. Bæði fræ og stöngin sett í pottinn með rjómanum og suðunni leyft að koma snögglega upp.
Gelatínblöðin lögð í kalt vatn í 5 mín, tekin uppúr og vatnið kreist út og bætt svo út í heitt (en ekki sjóðandi heitt) rjómablandið.
Sett í lítil glös og geymd í kæli þartil farin að stífna.

300 g rabbabari
1 msk vatn
3/4 dl sykur
1/2 gelatínblað
Rabbabarinn skorin í centimeterþykkar sneiðar og sett í pott ásamt vatninu og sykrinum. Leyft að malla þartil rabbabarinn er orðin vel mjúkur. Leyft að kólna örlítið. Gelatínið lagt í bleyti í köldu vatni í 5 mín, tekið uppúr og kreist og bætt svo út í rabbabaramaukið.
Þessu er svo bætt ofan á stífa pannacottuna og leyft að stífna enn frekar.

Tuesday, April 29, 2008

Rauðbeðusalat með beikon, epli ofl.

Ég hef oft lýst yfir ástríðu minni á rauðbeðum. Finnst þær bara sjúklega góðar hvort sem þær eru niðursoðnar í dós eða ferskar.
Við borðuðum úti á svölum í fyrsta sinn á þessu ári í kvöld. Yndislegt að sitja þarna með hvort sitt matarmikið salatið (sá stutti fékk bara pasta í staðinn) og hvítvínsglas, fylgjast með sólinni hníga bakvið ystu trén í bakgarðinum... algjör slökun !

Rauðbeðusalat með beikoni
(þetta magn dugði fyrir okkur tvö)

1 poki babyspínat
4 rauðbeður, soðnar svipað lengi og kartöflur, kældar, skrældar og skornar í bita
1 pakki beikon, steikt á pönnu og skorið í bita
1 dl furuhnetur, þurrsteiktar á pönnu
1 dl rifinn ostur (uppskriftin sem ég staðfærði þetta frá bað um Västerbottenost en ég notaði bara annan bragðsterkan ost)
1 lítið epli, afhýtt og skorið í bita
1 lítill rauðlaukur, skorin í mjóar ræmur

Lagði allt uppá fat og bar fram með balsamicoediki.

Saturday, April 05, 2008

Svínakótilettur í basillikusósu

Ókei... þetta er kannski dáldið svona "creamy" heimilismatur en fersku tómatarnir og basilíkan gerðu þetta allt saman voða frísklegt og gott.

Svínakótilettur í basillíkusósu

4 beinlausar svínakótilettur
Steiktar á pönnu uppúr smá smjöri, teknar uppúr pönnunni og geymt meðan sósan er gerð.
2 hvítlauksrif, kramin
Örlitlu meira smjöri bætt á pönnuna og hvítlaukurinn mýktur smástund á pönnunni áður en restinni er bætt við;
1 dl vatn
2 msk fljótandi kjötkraftur
2 dl sýrður rjómi (ég notaði 15%)
handfylli eða eftir smekk af ferskri (eða frosinni) basillíku
Sósunni á pönnunni leyft að sjóða aðeins og kótiletturnar síðan lagðar á pönnuna aftur. Steikt/soðið uppúr sósunni í 5 mínútur í viðbót.
2 tómatar, skornir í litla bita
1 dl rifinn ostur
Dreift yfir kjötið á pönnunni og leyft að hitna aðeins eða þartil osturinn fer að bráðna.
Bar fram með ofnkartöflubátum en hefði ábyggilega verið gott með hrísgrjónum líka.

Monday, February 25, 2008

Létt eplakaka með hindberjum

Þegar ég segi létt þá meina ég að hún er bæði léttgerð (einnig kallað imbaheld;)) og létt=diet. Frekar lítill sykur og smjör í þessu miðað við útkomumagn en þó alveg óhemjugóð. Maður getur bætt sér upp hitaeiningatapið með því að bera hana heita fram með vanilluís, þeyttum rjóma eða hinni sérsænsku vanillusósu.

Eplakaka með hindberjum
(úr "ViktVäktarna, Matnyttigt!")

3 3/4 dl hveiti með bakpulver eða lyftidufti í (ég notaði teskeið af hvoru til að vera viss!)
1 fingurklípa af salti
150 g smjör
3/4 dl sykur
225 g epli, skræld og skorin í litla bita
2 egg, slegin
3 msk léttmjólk
225 g fersk eða frosin hindber (ég hálf afþíddi þau frosnu sem ég notaði, kom ekki að sök)
3/4 dl möndluflögur
flórsykur að dusta yfir

Hitið ofninn í 175 gráður. Setjið bökunarpappír í botninn á hringlaga formi.
Blandið saman hveiti, salti og smjöri. Myljið með fingrunum þartil orðið að kornóttu deigi. Bætið svo við sykri, eggjum og mjólk. Hræra þartil allt samanblandað. Hrærið varlega saman við eplunum og meirihlutanum af hindberjunum (vaaaarlega því að hindberin kremjast ef farið er ógætilega, skemmir ekki bragðið en deigið verður ljósfjólublátt á litinn!).
Hellið deiginu í form og sléttið aðeins úr því. Hellið yfir afganginum af berjunum og möndluflögunum. Bakist í 60-75 mín eða þartil kakan hefur hefast og fengið fínan lit.
Taka úr forminu og dusta flórsykri yfir.

Tvennskonar tælenskar kjúklingasúpur

Finnst asískur matur dáldið góður og þá sérstaklega sá tælenski. Svona sterkar og góðar kjúklingasúpur reka hvaða kvef sem er langt í burtu og þá sérstaklega sú fyrri sem inniheldur engifer. Sú seinni er svo dáldið matarmeiri afþví hún er með rísnúðlum í. Báðar þó léttar og góðar, gæti eiginlega ekki gert upp á milli þeirra !

Kjúklingasúpa I

2 kjúklingabringur skornar í strimla
10 sveppir, saxaðir
3 gulrætur, saxaðar
Þetta er steikt uppúr 2 tsk olíu, saltað og piprað.
5 dl vatn
2 msk kjúklingakraftur, þetta tvennt hitað að suðu og kjúklingnum og grænmetinu bætt út í og leyft að sjóða í 5 mín. Því næst er eftirfarandi bætt út í...
1 tsk engifer
1 rautt chillí, saxað
2 msk fiskisósa (Nam Pla)
1 dós léttkókosmjólk
safinn af 1 lime
1-2 tsk kóríander (eða ferskt kóríander að vild).
Leyft að sjóða aftur í 5-6 mín.


Kjúklingasúpa II
1 msk grænt currypaste (tælenskt)
2 miðlungsstórir gulir laukar, þunnt sneiddir
2 hvítlauksrif, pressuð
1 þurrkað limeblað (eða börkurinn af 1 lime)
1 líter vatn með kjúklingakrafti í
150 g kjúklingakjöt sem búið er að skera í strimla og steikja á pönnu
hnefafylli af rísnúðlum (ath að sumar tegundir þurfa að fá að liggja í bleyti í nokkrar mínútur áður en settar út í til suðu)
1 dl létt kókosmjólk
1 hnefafylli af ferskum kóriander
salt og pipar
Þykkbotna pottur er hitaður á hellu og currypeistið léttsteikt (30 sek), setja útí lauk, hvítlauk, limeblað og smávegis af kjúklingakraftinum. Leyft að sjóða í 5 mín eða þartil laukurinn er orðin mjúkur.
Leggið í kjúklingin, hellið við afganginum af kraftinum og leyfið suðunni að koma upp. Setjið svo núðlurnar út í og leyfið að sjóða í nokkrar mínútur (cirka þann tíma sem núðlurnar þurfa til að fullsjóðast). Takið pottinn af hellunni veiðið uppúr þurrkuðu limeblöðin (ef þau voru notuð) og bætið við kókosmjólkinni, kóríander og saltið og piprið að smekk.

Friday, February 15, 2008

Thailenskur lax með núðlum

Fékk vinkonu og skólasystur (íslenska) í mat núna í vikunni. Hún er voða hrifin af lax svo ég ákvað að prófa eftirfarandi uppskrift sem var birt í DN einhverntíman... var rifinn úr og geymd þartil tækifæri gafst. Og það tækifæri gafst loksins þarna ;)
Var 30 mín að gera þetta, innifalið var spjall við gestinn og ein ferð niðrí þvottahús meðan vatnið fyrir núðlurnar færi að sjóða.
Lýgilega gott miðað við tíma og magn hráefnis !

Thailenskur lax með núðlum

Einn biti úr laxaflaki, stærð fer eftir fjölda gesta en við vorum þarna 2
1 tsk rautt curry paste (tælenskt)
Rifinn börkur af 1 lime
salt og pipar
Tók laxinn úr ísskápnum cirka 45 mín áður en það fór inn í ofn og bar á það þunnt lag af curry paste, saltaði og pipraði og reif svo yfir börkinn af 1 lime.
Lét þetta standa á borðinu meðan ofninn var að hitna og skellti því svo inn meðan ég var að steikja grænmetið með núðlunum. Var semsagt í cirka hálftíma við 175 gráður.

Eggjanúðlur, magn fer eftir fjölda, í upprunalegu uppskriftinni var ætlast til að maður notaði glernúðlur en ég er hrifnari af eggjanúðlunum svo ég nota þær.... Soðnar (matreiddar) skv. leiðbeiningum á pakkanum.
1-2 rauðar papríkur skornar í bita
2-3 vorlaukar/salatslaukar, sneiddir
Tvær hnefafyllir af frystu brokkolíi, afþýtt í örbylgjunni áður en notað
1,5 dl kókosmjólk
1 msk fiskisósa (Nam Pla)
safinn af liminu
Byrjaði á því að steikja papríkurnar á heitri pönnu með smá olíu í, bætti svo við vorlauknum og að lokum brokkolíinu. Steikti með hraði þartil allt fór að mýkjast örlítið. Bætti þá útí kókosmjólkinni og fiskisósunni og skellti tilbúnum eggjanúðlunum útá. Smakkaði til með limesafanum og leyfði öllu að hitna vel í gegn.

Saturday, February 09, 2008

Svínasneiðar með engifer.... og appelsínuquinoasallati

Ég er áskrifandi að DN og það er fastur liður hjá mér að kíkja fyrst á öftustu blaðsíðuna því þar er "uppskrift dagsins". Hef ósjaldan prófað það sem þar er birt og það bregst næstum aldrei. Góður hversdagsmatur.
Þessi réttur tók (grínlaust) 20 mín að gera svo það er næstum fljótlegra heldur en að panta pizzu. Og náttlega töluvert hollari ;) Svo skemmdi það ekki heldur fyrir að það var quinoasallat með svínasneiðunum ! Elska elska elska quinoa.

Svínasneiðar með asískum keim ásamt appelsínuquinoasallati
úr DN 28. jan 2008
4 svínakjötssneiðar (hér kallast þær karré, einskonar kótilettur)
2 tsk rifinn engifer
1 hvítlauksrif, kramið
1 msk sojasósa
1 msk vatn
Kjötsneiðarnar steiktar á pönnu þartil farnar að taka lit, saltaðar og pipraðar. Engiferinn og hvítlaukurinn blandaður saman og smurt ofan á hverja sneið á pönnunni. Hitinn lækkaður og 1 msk sojasósu hellt yfir kjötið ásamt 1 msk (eða meir ef maður vill meiri sósu) vatni. Lok sett á pönnuna og kjötinu leyft að fullsteikjast nokkrar mínútur í viðbót, ca 8 mín.
Kjötið tekið uppúr pönnnni og smá sósuþykkni bætt út í vökvann sem myndaðist. Þá er komin heimsins besta sósa til að hafa með þessu.

Appelsínuquinoasallat
2 dl quinoa, soðið skv. leiðbeiningum á pakka ásamt 1 kanilstöng eða 1 stjörnuanís sem svo er tekin uppúr eftir suðu. (Ef þið eigið rautt quinoa þá er það sjúklega flott á litinn og extra gaman að nota það í þetta sallat)
1/2 lítill rauðlaukur, skorin í þunnar sneiðar
1 appelsína, afhýdd og "filéuð" (bátarnir skornir úr appelsínunni án þess að hýðið komi með), passa uppá að safinn af appelsínunni sé geymdur, kreista það sem eftir verður þegar búið er að skera bátana burt)
Smá persilja og salt.
Öllu blandað saman og borið fram með svínakjötsneiðunum og smá sósu.

Thursday, January 24, 2008

Tómatsúpa og hrað-hefaðar brauðbollur

Fór í ICA um daginn að kaupa einhvað smáræði. Í grænmetistorginu var stór rúlluvagn hlaðin tilboðsvörum. Þar á meðal 1,5 kíló af plómutómötum á tíkall. Jáh... tíkalll (sænskar) !
Voru akkúrat vel þroskaðir og alveg tilvaldir í súpugerð.
Lagðist í rannsóknarvinnu og fann miljón og eina aðferð við að gera tómatsúpu. Letin rak mig frá því að gera súpur sem þurfti að hita, endurhita, sigta, sía og kæla svo aftur... átakið mitt og nýársheit rak mig frá því að gera rjómasúpu eða súpu með massamikið af eggjarauðum (a´la Jamie Oliver elskulegur) svo ég endaði á því einfaldasta. Og mikið svaðalega var hún góð ! Engu síðri daginn eftir heldur og skammturinn varð svo passlega stór að ég náði meira að segja að frysta einn skálarskammt.

Einfaldasta tómatsúpa í heimi
fyrir guðmávita hvað marga
1 laukur
2 hvítlauksrif - olía hituð í potti og laukunum leyft að svitna í nokkrar mínútur.
1,5 kíló af gróft söxuðum plómutómötum bætt útí og leyft að malla cirka 35 mínútur
Mixað með töfrasprota þartil orðið að sléttu súpumauki.
Kryddað að vild, ég setti vel af salti, pipar og ogguskonsu grænmetiskrafti.
Bar fram í djúpum skálum og setti smá lófafylli af rifnum osti út í hverja skál.

Hraðhefuðu brauðbollurnar voru svo algjört delish með. Líka svo sætar í muffinsformum ;) ATH ! brauðið festist dáldið við muffinsformin, sérstaklega nýbökuð en það á alveg að vera hægt að setja deigið í vel smurt og brauðmylsnuþakin muffinsformabakkann (eiga ekki örugglega allir svona muffinsformaplötu, með 12 muffinsgötum í? *heheh*).

Hraðhefaðar brauðbollur (úr DN jan/2008)
12 stykki

50 g lifandi ger eða þurrger því að jafnaði
2 dl mjólk
2 msk olía eða brætt smjör
1 tsk sykur
1 dl jógúrt (ég notaði þessa þykku tyrknesku, annars ætti AB mjólk eða álíka að duga)
1 egg
1,5 tsk salt
1 dl rúgmjöl eða annað gróft
6 dl hveiti
Ofn hitaður í 250 gráður.
Mjólkin velgd og hellt yfir gerið í deigskálinni. Öllu hinu bætt við, hveitinu síðast og látið vinnast í hrærivélinni í nokkrar mínútur á góðum hraða. Deigið verður mjög rennandi en það er í lagi... á að vera svo... Hellt í smurt og brauðmylsnuþakið muffinsform eða í muffinsform og leyft að hefast í 30-35 mín eða þartil tvöfalt í stærð. Sett inn í ofn og hann lækkaður niður í 200 gráður. Bakað í 15-20 mín.

Tuesday, January 01, 2008

Nýársfiskisúpa ("fiskisúpa kokksins")

Eftir allt tilheyrandi og bráðnauðsynlega ofát stórhátíðarinnar fannst mér við hæfi að bjóða uppá fiskisúpu á nýársdag. Við átum nú barasta samt yfir okkur af henni ! Enda rjómi og fleiri góðir hlutir í henni sem núlluðu út hollustuna í fiskinum ;) En mikið rosalega var hún góð.... öll indversku-thailensku kryddin voru hreint yndisleg með góða íslenska fiskinum. Heiti því að prófa hana heima í Svíþjóð líka og gá hvort hún sé jafn góð með "útlenskum" fiski. Hrikalega þæginleg uppskrift til að gera fyrirfram, gerði súpuna sjálfa um morgunin og skellti svo bara fiskinum í korteri áður en við ætluðum að borða hana.



Fiskisúpa kokksins (örugglega birt í Fréttablaðinu, des 2007, hlekkur líka hér ef þú villt sjá uppskriftina í upprunalegri mynd og án minna kommenta)

(Fyrir 6-10)
Tekur 30 mínútur að undirbúa. Líka góð daginn eftir.
150 g lúða
150 g ýsa (ég tvöfaldaði magnið af fiskinum, bæði ýsu og lúðu)
150 g rækjur
150 g hörpudiskur (má sleppa og ég sleppti því)
Mikilvægt að setja rækjurnar í eftir að slökkt er á pottinum eða hafa aðeins 1-2 mínútur á gashellu.
3 hvítlauksrif
3-4 gulrætur sneiddar
1 stk. laukur, saxaður
1 rauð paprika, söxuð
1 græn paprika, söxuð
1 dós tómatpuré
1 dós niðursoðnir tómatar
2½ dl vatn (ég þurfti að auka allverulega vatnsmagnið en það gerði ég í lokin þegar ég sá hvað hún varð þykk, fer eftir smekk býst ég við)
1 teningur fiskikraftur
½ teningur hænsnakraftur
1 tsk. tandoori masala (fann ekki þetta krydd heldur bara krydd sem hét Tandoori)
¼ tsk. karrí
¼ tsk. hvítur pipar
6 sólþurrkaðir tómatar sneiddir
4 msk. mango chutney
1 dl sæt chilisósa
500 ml matreiðslurjómi
Byrja á að hita eina matskeið af olíu í pottinum og brúna þrjú hvítlauksrif sem búið er að merja með hnífsblaði og skera niður. Tekið af hitanum og sett í skál. Brúna síðan í sama potti gulræturnar, laukinn og paprikurnar í tveimur matskeiðum af olíu. Þá er bætt í tómatpuré, niðursoðnu tómötunum, vatni, fiskikrafti, hænsnakrafti, tandoori masala, karríi og hvítum pipar. Nú strax á eftir eru sólþurrkuðu tómatarnir sneiddir niður og mango chutney, sætu chilisósunni og matreiðslurjómanum bætt við. Möluðum svörtum pipar bætt við eftir smekk og látið sjóða niður í um það bil fimmtán mínútur. Þá er slökkt undir pottinum. Þegar borðhaldið fer að nálgast er vermt undir pottinum og fiskurinn (allur nema skelfiskurinn) settur út í og beðið eftir suðunni. Gott að nota lúðu, ýsu eða búra. Skelfiskur eins og rækjur, hörpudiskur eða humar er settur út í þegar potturinn er tekinn af hellunni. Látið standa í fimm mínútur. Borið fram með nýju brauði. Smátt skorinni steinselju er sáldrað yfir.