Sunday, August 30, 2009

Gulrótarbuff með apríkósum

Ég er fyrir löngu búin að sannreyna kosti þess að borða grænmetismat... allavega svona einusinni í viku til að breyta til.
Í kvöld gerði ég gulrótarbuff eftir uppskrift sem ég hafði skrifað hjá mér uppúr einhverju blaði... Gestgjafanum ef mig misminnir ekki. Breyti innihaldslýsingunni örlítið til að barnvæna buffin en mér fannst það alls ekki koma að sök. Fann svo extra mikla gleði í því að geta fengið að nota eldhúsgræju sem ég fæ sjaldan tækifæri (eða man eftir) að nota; gufusoðsgrind. Algjör snilld að gufusjóða gulræturnar sem fara í buffin því þá eru þau passlega "þurr" að suðu lokinni og buffin urðu stinn og fín (sjá mynd). Dáldið mikið sem þurfti að saxa fínt og þá misnotaði ég töfrasprotan bara (litlu skálina). Frekar þæginlegt og sparaði mér saxeríið ;)

Gulrótarbuff með apríkósum
gera 8 buff

8-10 gulrætur, skornar í tvennt og soðnar (gjarnan gufu) þartil mjúkar
2 brauðsneiðar, skorpan skorin af og blitzað í matvinnsluvél svo verði að brauðmylsnu
1 ferskt chillí, fræhreinsað og saxað fínt (ég sleppti þessu)
6-8 þurrkaðar apríkósur, saxaðar fínt
4 vorlaukar, saxaðir fínt
2 hvítlauksgeirar, saxaðir fínt
3 msk furuhnetur
1 egg
3 msk söxuð steinselja (sleppti líka)
Gulræturnar maukaðar og kældar örlítið, öllu svo blandað saman og búin til 8 buff. Þeim vellt uppúr hveiti og steikt á pönnu uppúr olíu, 5 mín á hvorri hlið.

Bar fram með jógúrtsósu;
2,5 dl þykk jógúrt, safi úr 1/2 sítrónu, 1 tsk hunang og 2-3 msk söxuð mynta eða kóríander.

og baunasalati;
1 stór dós Cannelinibaunir, 1 lítil dós nýrnabaunir, 1 avókadó (skorið í bita), 1 appelsína (skorin í bita) og smá safi af henni, 1-2 msk olía, 1-2 msk hvítvínsedik, salt og pipar.

og hráhrísgrjónum....
Posted by Picasa

Monday, August 24, 2009

Sítrónupasta með avocado og hrognum

Við hjónakornin fengum tækifæri til að fara á smá hversdagsdeit á eigin heimili. Samanstóð af því að gefa undrabarninu okkar að borða barnheldan mat klukkan sex, svæfa hann og borða svo sjálf einhvað "fullorðins" í friði og ró.

Gerði lauflétta sítrónupastasósu sem var borin fram með steinbítshrognum og avocado. Næstum svo auðvelt að það er skömm að því að kalla þetta uppskrift en ég kalla þetta þá bara leiðbeiningar og hér má lesa þær:

Sítrónupasta
(úr LagaLätt)

2 dl 15% sýrður rjómi
fínrifinn börkur af 1 sítrónu og tæplega matskeið af sítrónusafa (meira ef vill, ágætt að smakka til aðeins)
1 teningur af fiskikrafti eða slurkur af fljótandi krafti því samsvarandi (1 msk?)
Allt hitað varlega í potti og smakkað til með salti og pipar.
Tagliatelle pasta soðið skv. leiðbeiningum og sósunni blandað saman við.

Lagt uppá diska og fínskornum rauðlauk, avocadobitar, ferskmalaður pipar og slettu (rúma teskeið) af ferskum rauðum steinbítshrognum (stenbitsrom) smellt ofaná sem endaslettu á listaverki.
Posted by Picasa

Wednesday, August 19, 2009

Baka með rabbabara, beikoni og brie

Sat uppi með smá rabbabara og var komin hálfa leið með að gera klassíska mylsnuböku (smulpaj) þegar ég rak augun í gamla úrklippu úr Gestgjafanum sem ég bara VARÐ að prófa strax næsta dag.
Í morgun bakaði ég því böku sem svo var borðuð með góðu salati í kvöld. Óhemjugott ! Á örugglega eftir að gera þessa í næsta saumó í staðinn fyrir heitan brauðrétt...

Baka með rabbabara, beikoni og brie
(úr Gestgjafanum)

Botninn:
125 g smjör
3,5 dl hveiti
2 msk kalt vatn

Öllu hnoðað saman (notaði matvinnsluvél) og þrýst út í smelluform eða eldfast mót. Pikka í botninn með gaffli og geyma í kæli í 30 mín. Forbakað svo í 15 mín við 200 gráður.

Fyllingin:
200 g beikon, steikt þartil stökkt og skorið í litla bita
1 stór laukur, skorin í þunnar sneiðar og steikt örlitla stund á sömu pönnu og beikonið (tekur bragð úr beikoninu... nammmm)

1 dós sýrður rjómi (notaði 35%)
3 egg
salt og pipar

150-200 g rabbabari, skorin í litla bita
1 brie ostur (150-200 g)
ferskt timjan

Beikoninu og lauknum raðað fyrst oní forbakaðan botninn. Sýrða rjómanum og eggjunum hrært saman og saltað og piprað. Þessu hellt ofan á beikonið og laukinn. Rabbabaranum svo dreift ofaná og brie osturinn skorinn í þunnar sneiðar og lagðar yfir herlegheitin. Fersku timjani dreift yfir og bakað svo við 200 gráður í 25-30 mín.

Wednesday, August 12, 2009

Kräftpastasósa

Þessi pastasósa er eiginlega dáldið mjög sænsk... veit eiginlega ekki einusinni hvort það sé hægt að heimfæra á íslensk hráefni þegar þarna er að finna bæði kräftor (ferskvatnskrabbi) og västerbottenostur (sérstakur sænskur harðostur).

En fyrir ykkur lesendur sem búið í Svíþjóð ætti að vera lítið mál að snara þessu saman :)

Kräftpastasósa
úr einhverju gömlu SvD blaði...

200 g kräftstjärtar (ég nota reyndar 300 g því ég vil hafa vel af því í skammtinum mínum)
100 g ferskar sykurbaunir - sockerärtor
2 skallottlaukar
1 msk smjör
2 dl sýrður rjómi
1/2 msk (eða meir, fer eftir smekk) fljótandi humarkraftur
1,5 dl rifinn västerbottenostur (fæst tilbúin rifinn í poka og ég nota allan pokann... 3 dl ?)
1 msk dill, hakkað
salt og pipar eftir smekk

Laukurinn hakkaður smátt og smjörið brætt í pott. Laukurinn léttsteiktur uppúr smjörinu þartil glær. Sykurbaunirnar skornar í tvennt á ská og skellt útí pottinn. Steikt nokkrar mínútur til viðbótar. Svo er sýrða rjómanum og humarkraftinum bætt útí og þynnt með smá vatni... fer eftir hvað maður vill þunna sósu.. kannski 0,5-1 dl ?
Osturinn settur útí og hitað í gegn þartil hann bráðnar og samlagast sósunni.
Kräftunum skellt útí rétt áður en bera á fram og smakkað til með dilli, salti og pipar.

Mumsfílíbaba !