Thursday, March 25, 2010

Bökuð ostakaka

Grunnuppskriftir eru svo mikil snilld. Endalaust hægt að varíera útkomunni. Fer þá bara eftir því hvaða þurrkaða ávexti maður á til í skápunum hjá sér.
Bjó þessa til um helgina og við fjögur fullorðin náðum að slátra heillri sem eftirrétt þrátt fyrir að hafa étið á okkur hálfgert gat af aðalréttinum. Svo mikil var græðgin og það góð var hún. Ég kynni til sögunnar;

Bökuð ostakaka - grunnuppskrift

50 g smjör
150 g digestive kex

Smjörið brætt og kexið mulið í agnir. Smjörinu hellt útá mylsnurnar og blandað vel saman. Sett í botninn á smjörpappírsklæddu smelluformi og þrýst vel út.

350 g rjómaostur (Philadelphia), hrært þartil mjúkt
150 g sykur
4 egg
1 sítróna, bæði safinn innanúr og fínrifinn börkurinn utanaf
2 tsk vanilludropar
handfylli af þurrkuðum ávöxtum/berjum að eigin vali. Ég notaði í þessu tilfelli trönuber.

3 dl sýrður rjómi (ég notaði 34% feitan)

Öllu nema sýrða rjómanum og þurrkuðu ávöxtunum hellt í skál og blandað vel saman. Hellt ofaná kexbotninn, þetta þurrkaða að eigin vali dreift ofaná, og bakað í 180 gráðu heitum ofni í 30 mín. Taka út og leyfa að standa í 10 mín (heldur áfram að bakast þó það sé tekið út). Sýrði rjóminn svo smurður ofaná og skellt aftur inní ofn í 10 mín í viðbót. Látið kólna vel og geymt í ísskáp þartil bera á fram.