Monday, January 06, 2014

Meðlæti x 2

Ég datt niður á svo frábært kombó af meðlæti að ég bara má til með að koma því frá mér bloggleiðis. Fékk yfrið nóg af dósamatsmeðlætinu með jólamatnum (eins gott að það getur nú annars verið) og þess vegna komu þessir tveir hressilega á óvart. Bar fram með kalkúnabringu og lambakjöti annað skiptið. Auðvelt að stækka og minnka uppskriftirnar eftir hentugleika.

Rauðkálssalat
1 dl heslihnetur
600 g rauðkál (ferskt)
1 msk hlutlaus olía
1,5 tsk salt
1 tsk sykur (eða minna)
4 appelsínur
1 dl gular rúsínur (ekkert möst að hafa gular en liturinn gefur extragleði)

Byrja á að rista heslihneturnar á þurri steikarpönnu, cirka 5 mín. Leggja svo í hreint viskustykki og nudda hýðið svo losni frá. Allt í lagi þó það fari ekki alveg af. Merja gróft í morteli eða berja í viskustykkinu með kökukefli.
Rífa eða flysja niður rauðkálið svo úr verði mjóir strimlar. Blanda saman olíu, salti og sykri og hella yfir rauðkálið. Taka appelsínurnar og skera utanaf þeim hýðið og skera svo í hýðislausa báta. Gott að gera þetta yfir rauðkálinu svo safinn renni á réttan stað.
Leggja rauðkálið á fat/í skál og skreyta með appelsínubátum, rúsínum og heslihnetubrotunum.

Sætar kartöflur með kóríander
(úr Gestgjafanum)
2-3 sætar kartöflur, skrældar og skornar í stafi. Fer eftir stærð hversu margar þú tekur en áætlaðu bara eftir fjölda gesta. Soðnar í vatni þartil mjúkt. Kælt.
Fersk kóríander, cirka handfylli, saxað.
Svo kemur cirkabátið: 1 tsk hunang, 1 tsk olía og 1 tsk hvítt edik. Drussað yfir kartöflurnar þegar þær eru orðnar kaldar.
Söxuðu kóríander dreift yfir og nokkrar saxaðar valhnetur.