Thursday, November 29, 2007

Tvennskonar jóladesertar... þar af einn óvart !

Bjó alveg óvart til überdüber jólalegan desert í gærkvöldi. Var að gera afrískan pottrétt (sem er ekki nógu ofurgóður til að ég birti uppskriftina hér) og sat uppi með 1/2 dós af létt kókosmjólk. Prófaði uppskrift sem ég hafði fengið á desertgerðarnámskeiði:

Kókospannacotta

2,5 dl rjómi
2 dl kókosmjólk (létt er í lagi)
35 g sykur
2 1/2 gelatínblað
Leggur gelatínblöðin í bleyti í köldu vatni. Setur rjóman, kókosmjólkina og sykurinn í pott og hitar við vægan hita þartil sykurinn hefur bráðnað. Tekur upp gelatínblöðin og kreistir úr þeim allan vökva. Lætur þau útí rjómakókosmjólkina og hrærir þartil allt er blandað saman. Hellir í skálar (fjöldi fer eftir hversu mikið hver og einn á að fá... ég hellti í 4 grunnar desertskálar og það passaði fínt) og setur í kæli í nokkrar klukkustundir eða þartil orðið stíft.
Svo kemur jólahlutinn:
ég afþíddi í örbylgjunni tvær góðar handfyllir af hindiberjum. Tók desertskálarnar með pannacottanu úr kæli og dýfði botninum á skálunum í heitt vatn. Þannig losnaði pannacottan frá skálinni og ég gat hvolft henni á stóran djúpan desertdisk. Ein handfylli af hindiberjum fór oní hvern disk og svo hellti ég afgangi af kirsuberjasósu (úr fernu) yfir.

Hina uppskriftina hef ég ekki prófað, enda sá ég hana bara í morgun í nýjasta Dagens Nyheter. En bara hugsunin um að borða þetta fær vatnið til að renna..... VERÐUR að prófa !

Piparkökuþeytingur með glöggmaríneruðu sítrussallati
(úr DN 29. nóvember 2007)
fyrir 6

10-15 piparkökur muldar
2,5 dl þeytirjómi.... já... þeyttur ;)
Blandað saman og geymt í kæli

4 appelsínur
2 blóðappelsínur
1 blóðgreip
1 dl hvítt glögg
4 nellikur
1 kanilstöng

Ávextinir skrældir og skornir í báta (filéaðir; skorið milli himnanna á ávextinum svo kjötið eitt verði eftir). Glöggin er hituð upp ásamt nellikunum og kanilstönginni. Hellt yfir ávextina og leyft að standa í minst 1 klst. Sítrussallatið er svo borið fram með piparkökurjómanum.
*sluuuuuurp*

Monday, November 26, 2007

Mangókjötbollur - hversdags

Alltaf gott að grípa til þess að elda úr hakki svona hversdags. Ekki sakar nú ef úrkoman er fljótgerð, holl og alveg þrusugóð ! Svo er uppskriftin svo imbaheld að meira að segja elskulegur eiginmaður minn væri fær um að gera þetta án aðstoðar (hann fékk að fylgjast með og rúlla upp bollunum). Tók 20 mín að gera frá grunni !

Mangókjötbollur
(úr Allt om mat 4/2007)
f. 4 (en við vorum nú bara 2 + 1 og átum allt upp til agna)

500 g nautahakk
1 egg
2 msk mangó chutney
1/2 dl létt sýrður rjómi
1 tsk salt

Allt blandað saman og rúllað upp í cirka 20 litlar bollur. Sett í bökunarpappírsklædda ofnskúffu og eldað í 250 gráðu heitum ofni í 10-15 mínútur.
Gerð sósa úr:
2 dl létt sýrður rjómi/tyrknesk jógúrt
smá salt
2 msk (eða meir eftir smekk) mangó chutney

Borið fram með couscous og soðnu brysselkáli. Vil taka fram að brysselkálið var alveg sjúúúklega gott með þessu og átti alveg einstaklega vel við. Í upprunalegu uppskriftinni áttu einnig að vera 1 dl "sötmandel" (sætar möndlur?) en ég átti þær ekki til svo þeim var sleppt.

Sunday, November 18, 2007

Eru jólin að nálgast ? Kaliforníudraumar og Trönuberjasmákökur

Alvarlegt smákökuheilkenni að hrjá mig þessa dagana. Mig dreymir um að gera sjö sortir fyrir jólin og fer eflaust létt með það... vandamálið er bara.... hver á að éta þetta allt saman ?!
Var búin að vera að glugga í bækur og blöð, ætlaði að bíða með þetta frammá síðustu stundu svo ég væri nú ekki bakandi einsog brjáluð húsmóðir í heilan mánuð. En í dag sprakk ég. Gat ekki meir. Tvær sortir voru testaðar í kvöld með fínum árangri:

Kaliforníudraumar, 25 stk
(úr "Sju sorters kakor")

2,5 dl brun farin (brúnn strásykur, væri eflaust hægt að nota dökkan muscavado sykur), ég reyndar minnkaði sykurmagnið niður í 1,5 dl án þess að það kæmi að sök
1 msk maizenamjöl
1 fingurklípa salt
2 eggjahvítur (notaði 3 því eggin voru svo lítil)
2 dl hakkaðar hnetur að eigin vali (notaði Pecanhnetur og hakkaði í töfrastafnum)

Eggjahvíturnar stífþeyttar og sykrinum, saltinu og maizenamjölinu blandað varlega (snúið niður) við. Hneturnar blandaðar varlega við í lokin.
Litlar valhnetustórar klípur settar á smjörpappír með tveim teskeiðum og bakað í cirka korter í 150 gráðu heitum ofni.

Trönuberjakökur með hlynsírópi, 40 stk
(úr Gestgjafanum, 12. tbl. 2003)
125 g lint smjör
100 g sykur
3 msk hlynsíróp (notaði dökkt síróp)
1 tsk vanilludropar
2 egg
150 g hveiti
1/4 tsk matarsódi
60 g þurrkuð trönuber, grófbrytjuð

Ofninn hitaður í 190 gráður. Hræra smjörið í hrærivél og hella sykrinum saman við í mjórri bunu (veit ekki afhverju... þetta er nú bara strásykur ?!). Þeyta þartil blandan er létt og ljós. Þeyta þá hlynsírópi og vanilludropum við og loks eggjunum. Blanda saman hveiti og matarsóda og hræra saman við og blanda að lokum trönuberjunum við með sleikju. Setja á pappírsklæddar bökunarblötur með teskeið og hafa gott bil á milli. Bakið efst í ofninum í 10 mín eða þartil kökurnar hafa brúnast á jöðrunum.