Saturday, February 16, 2013

Bananakaka með berjum og kremi

Bananakaka með berjum og kremi.

Uppskriftin er úr gömlu Gestgjafablaði sem ég var búin að líma inní uppskriftabókina mína ónýtt í mörg ár. Þartil um daginn þegar mig langaði að gera öðruvísi bananaköku en venjulega og loksins átti ég ber (enda er þetta bananakaka með berjum). Reyndar ekki bláber einsog uppskriftin segir til um heldur jarðaber en ekki varð hún síðri fyrir því. Berin verða að vera fersk.

90 g mjúkt smjör
170 g sykur
2 egg
2 vel þroskaðir bananar, stappaðir
2-3 dl bláber/skorin jarðaber
220 g hveiti
1 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
50 g haframjöl
1 tsk vanilludropar

Hita ofn í 175 gráður og taka fram jólakökuform sem er fóðrað með smjörpappír.

Hræra vel saman smjöri og sykri, bæta eggjum við einu í einu og hræra vel á mili. Bæta svo við stöppuðu bönununum (flott orð!). Hella berjunum í sér-skál og púðra yfir þau 2-3 msk af hveiti svo þau þekjist örlítið. Þá maukast þau ekki jafn mikið í deiginu. Bæta svo öllum þurrefnum við. Ef þú ert að nota bláber skaltu núna bæta þeim varla við ásamt vanilludropunum. Hella svo deiginu í formið. Ef þú ert að nota jarðaber skaltu bæta vanilludropunum við og hræra en svo get ég mælt með að hella helmingi deigsins í formið og láta svo jarðaberin ofaná áður en þú hellir restinni af deiginu yfir.
Bakað í 50 mín. Kæla.

Ostakrem:
80 g mjúkt smjör, 80 g rjómaostur og 80 g flórsykri blandað vel saman ásamt 1 tsk rifnum sítrónuberki. Smurt yfir kalda kökuna.