Tuesday, October 27, 2009

GI - sítrónulax með baunasalati

Biðst fyrirfram afsökunar á myndaleysinu... við vorum bara svo ofurfljót að borða þennan girnilega sítrónulax að það gafst ekki tími til að sækja myndavélina. En ég lofa að þetta er bæði girnilegur og góður réttur sem uppfyllir þar að auki allar GI kröfur :)

Sítrónulax

4 jafn stórir bitar af laxaflaki (1 bita á mann)

1 dl sýrður rjómi (15% er í góðu lagi)
1 dl hafrarjómi (eða matreiðslurjómi en þá er það ekki lengur GI... )
fínrifinn börkur af 1 sítrónu
safi af 1 sítrónu
8 salvíublöð (fersk) fínt hökkuð
1 tsk dijon sinnep
salt og pipar að smekk

Öllu blandað saman og hellt yfir fiskinn sem lagður hefur verið í fat. Inní 225 gráðu heitan ofn í cirka 15 mín.

Baunasalat
1 dós stórar hvítar baunir
1 dós svartar baunir
2-3 gulrætur, skornar í mjóar ræmur (ég nota flysjara og sker svo aftur svo ég fái örmjóa stilka)
3 msk olía
1 msk rauðvínsedik
salt og pipar að smekk

Öllu blandað saman.

Saturday, October 03, 2009

GI-Entrecote-steik með greip og avókadósalati


Það er ekki oft sem ég verð alveg einlægt hissa á að lenda á góðri uppskrift. Þegar uppskriftin uppfyllir svo líka skilyrðin að vera bragðgóð, með lágt GI-hlutfall (kolvetnalítil, með súrum ávexti) og koma virkilega á óvart með óvæntu innihaldi (greip í baunasalati!) þá er gleðin sönn :)
Þessa uppskrift var að finna í DN, birt í samvinnu við uppáhalds matartímaritið mitt LagaLätt.
Íslenskuð hér með;
Entrecote með greip og avókadósalati
1 entrecote steik á mann, kryddaðar með
1 tsk karrí
1 tsk chillíflögur
1 tsk hunang
salt og pipar, olía
Ég var með tvær stórar steikur og makaði fyrst hunanginu á þær áður en ég bar á þær karrí og chillí. Olía hituð á pönnu og steikurnar steiktar. Kryddaðar með salti og pipar meðan þær eru á pönnunni. Steiktar eftir smekk hvers og eins og svo leyft að hvíla nokkrar mínútur á pönnunni (ekki á hellunni þó!) með loki ofaná. Þá kemur smá kjötsafi í pönnuna sem má annaðhvort hella beint ofaná steikurnar þegar þær eru komnar á diskinn eða þykkja örlítið með því að setja smá sósuþykkni beint útá pönnuna (steikurnar teknar af að sjálfsögðu) og hræra... gæti þurfti að setja smá hita undir pönnuna. Hella svo sósunni ofaná steikurnar.
Salat
2 lítil avókadó, skorin í hæfilega bita
1 askja kirsuberjatómatar, helmingaðir
1 dós stórar hvítar baunir eða Cannelini baunir
1 mozzarellaostur, skorin í hæfilega bita (eða nota mínímozzarellakúlur)
1 greip, hýðið og allt það hvíta skorið utanaf og svo skorið í báta. Til að fá nákvæmar leiðbeiningar um hvernig þetta er gert (vel þess virði að tileinka sér þetta!) má kíkja á vídeó hér.
2 msk olía, salt og pipar.
Öllu innihaldi blandað saman og borið fram með steikinni.