Tuesday, October 12, 2010

Mexíkönsk svartbaunasúpa

Hef í kvöld fundið uppáhalds súpuna mína. Við sleiktum pottinn og fórum strax að skipuleggja hvenær við gætum haft þessa súpu aftur í matinn. Algjört möst-try, holl og góð, sneisafull af bæði bragði og bætiefnum ;)



Mexíkönsk svartbaunasúpa
fyrir 4 (úr LagaLätt, sept 2010)


1 pakki beikon (cirka 200 grömm), skorið í bita
1 msk smjör
2 laukar, saxaðir
2 sellerístilkar, sneiddir fínt
3 gulrætur, skornar í fernt á lengdina og svo í þvert í litla bita
1/2 - 1 rautt chillí, fræin hreinsuð út og svo saxað
1 tsk cummin
3 dósir svartar baunir (eða samsvarandi magn af þurrum, lagðar í bleyti)
5 dl vatn
2 msk kjúklinga eða grænmetiskraftur
1,5 tsk hvítvínsedik
1 tsk púðursykur/dökkur muscavado... eða bara venjulegur sykur ef hitt er ekki til í skápnum hjá þér


Og til að setja ofaná hvern súpudisk þegar borið er fram;
- ferskir tómatar, skornir í litla bita
- ferskur kóríander, mikið af því... er svo gott
- niðursneiddur salatlaukur eða vorlaukur (má sleppa)

Best að byrja á að saxa grænmetið (laukinn, chillí, sellerí).

Svo steikir maður beikonbitana í djúpum súpupotti (ekki á pönnu). Bæti útí smá smjörklípu og leyfir að bráðna og helli öllu saxaða grænmetinu útí ásamt cummin. Leyfi að steikjast í nokkrar mínútur. Opnar baunadósirnar og skola baunirnar uppúr köldu vatni. Set í skál og mixa GRÓFT með töfrasprotanum (eða cirka 1/3 af heildarmagninu í matvinnsluvél) Bæti svo við vatninu og kraftinu.

Leyfi að sjóða í 10 mínútur þartil súpan er orðin þykk og fín. Smökkuð til með hvítvínsediki, sykri, salti og pipar.
Borin fram í skálum og ofanáleggið sett á hvern disk ... eða hverjum og einum leyft að raða ofaná það sem þeim finnst best.

Með þessu gerði ég ostatortillur; rifinn ostur (1 poki), 1-2 dl gulur maís úr dós og smávegis ferskur kóríander. Öllu blandað saman og væn handfylli sett ofaná eina tortillu. Önnur tortilla sett ofaná og þrýst vel saman svo úr verði samloka. Penslað með smá olíu og steikt á pönnu þartil ein hliðin hefur tekið lit. Snúið og steikt á hinni hliðinni. Skorið í fernt og borið fram með súpunni.

Monday, August 23, 2010

Fiskur með appelsínutómatsósu

Einhvernvegin finnst mér ekki fiskur og appelsína passa saman... fyrr en ég smakkaði það ! Ótrúlega ferskt og skemmtileg tilbreyting á "fiskur með tómatsósu" sem öll börn lifa á. Hilmi fannst þetta meira að segja gott og át upp til agna (með smá alvöru tómatsósu líka). Sem meðlæti var ofnbakað butternut squash (svona aflangt grasker) með dilli. Smaskens ;)

Fiskur með appelsínutómatsósu
(úr LagaLätt, sept '10)

Þorskbitar, notaði frosna sem ég afþíddi og raðaði í ofnfast mót, salta og pipra

4 skalottlaukar, skornir á einn veginn svo myndi hringi
2 appelsínur, afhýddar og filéaðar (skera út bátana án himnunnar), bitanir svo helmingaðir
2 msk nýrifinn engifer
1-2 hvítlauksrif, kramin
1 dós saxaðir tómatar

Hita olíu í potti og steikja skalottlaukinn smástund. Bæta við engifer og hvítlauk og láta malla smástund. Hella svo tómatadósinni útí. Raða appelsínubitunum ofaná fiskinn og hella úr pottinum yfir. Ofnbaka í 15 mín við 225 gráður.

Áður en maður leggur í að gera fiskinn getur maður nýtt tímann með því að afhýða graskerið og skera niður í mjóa báta. Hella smá olíu yfir, salta og pipra og skella inní ofn. Það verður mjúkt á cirka 20 mín. Mixa með töfrasprota, bæta við dilli (2 msk saxað) og 1-2 dl sýrðum rjóma eða þykkri jógúrt.

Tuesday, July 06, 2010

Sítrónukjúklingur með marokóskum gulrótum


Þessa uppskrift reif ég samviskusamlega úr DN í gærmorgun og prófaði svo í kvöld. Dýrðlegt ! Reyndar fannst mér sjálf uppskriftin frekar flókin í framkvæmd svo ég ákvað strax að staðfæra með betri útskýringum.. og það að sjálfsögðu á íslensku ;)
Sítrónukjúklingur með marokóskum gulrótum
Kjúklingabringur (2 hér, gætu verið fleiri) látnar marínerast í kryddlegi yfir nótt eða lágmark 10 mínútur.
Kryddlögur;
1 sítróna, byrja á að fínrifa börkinn utanaf henni og geyma, safinn kreistur úr og settur í skál
3 msk olía
1 msk sambal oelek
1 msk hunang
1 msk sojasósa
Gulrótarsalat;
4-6 gulrætur (fer eftir fjölda þess sem borða) skornar í cirka 1 cm stóra bita, gjarnan örlítið á ská
Steiktar á meðalheitri pönnu uppúr 2 msk olíu, þegar fer að taka smá lit eða mýkjast bæta útá kryddum;
1 tsk kummin
1-2 msk fersk rifin engifer
smá salt
1 rautt chillí, fínsaxað (sleppti þessu því sonurinn átti að borða líka)
1 msk fljótandi hunang, drussað yfir að lokum. Pönnulokið sett á og hitinn lækkaður niður í algjört lágmark eða jafnvel slökkt og gulræturnar látnar mýkjast... cirka 10 mín.
Svo eru gulræturnar lagðar uppá fat (eða á disk hvers og eins) og eftirfarandi sáldrað yfir;
geitarost (cirka 100 gr samtals)
ristuð sólkjarnafræ eða graskersfræ (lúkufylli)
þurrkuð trönuber (1/2 dl samtals)
Kóríanderdressing;
1 krukka ferskur kóríander (lúkufylli)
safinn af 1/2 lime
2 msk olía
salt
Allt mixað saman með töfrasprota.
Nú er kjúllinn tekinn úr maríneringunni og steiktur á pönnu þartil tekur lit. Hitaður í ofni (200 gráðu heitum) í 20 mín eða meir þartil fulleldaður. Tekin út og rifna sítrónuberkinum sáldrað yfir ásamt örlitlu þurrkuðu oregano.
Kóreanderdressingin er borin fram með og sáldrað yfir kjúklinginn og gulræturnar þegar allt er komið á disk.

Monday, May 24, 2010

Rauðbeðusúpa að mínum hætti

Í gær hafði ég einsett mér að búa til rauðbeðusúpu og fór þess vegna í uppskriftaleit. Skoðaði bæði bækurnar mínar (nokkrir hillumetrar fullir af viðeigandi bókum) og á netinu. Lokaniðurstaðan var sú að ég átti ekki allt sem uppskriftarhöfundar vildu meina að ætti að vera í rauðbeðusúpu þannig að ég varð að taka málið í eigin hendur og semja einhvað á staðnum.
Auðvitað varð þetta einhver sú besta rauðbeðusúpa sem ég hef eldað og borðað ;) ! Finnst það líka mark um góða súpu ef 5 ára sonurinn sleikir skálina sína....

Rauðbeðusúpa

4-5 ferskar rauðbeður skrældar og skornar í bita (því minni bitar, þeim mun minni suðutími)
3 gulrætur skrældar og skornar í bita

2 skalottlaukar
1 feitt hvítlauksrif

Sneiddi báða laukana þunnt og léttsteikti uppúr vænni smörklípu þartil urðu glærir. Setti svo rauðbeðu og gulrótarbitana útí og vellti uppúr smjöraða lauknum. Hellti svo soðnu vatni yfir allt þartil rétt þakti grænmetisbitana og svo cirka matskeið af lantbuljong (ferlega góður grænmetiskraftur). Leyfði þessu öllu að sjóða í 30-40 mínútur eða þartil mér fannst rauðbeðurnar orðnar mjúkar. Stakk svo töfrasprotanum oní og blitzaði allt þartil orðið að mauki. Maukið var frekar þykkt svo ég þynnti með meira soðnu vatni. Setti 2 tsk af rauðvínsedik útí og saltaði svo.
Þetta bar ég fram með timjankvistum í diskunum og fetaostahræru (hálft stykki stappaður fetaostur + 1 dl sýrður rjómi).

Tuesday, April 27, 2010

Fitulaus, sykurlaus "súkkulaðiís"

Þessa uppskrift sá ég í einhverju konublaði þarsem verið var að kynna enn einn megrunarkúrinn. En einhvað heillaði mig og ég barasta varð að prófa. Og alveg get ég lifað á þessu sem sjónvarpsnammi í staðinn fyrir alvöru rjómaís ! ... allavega svona af og til ;)

2 - 3 bananar, skornir í sneiðar og frystir
kakó í frjálsu magni
örlítil sletta af tyrkneskri jógúrt, ab-mjólk eða skyri

Mixar öllu saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Maður þarf að prófa sig áfram með magni af kakói.. fer eftir því hversu dökkan ís óskað er eftir. Borða eins og skot !

Sunday, April 11, 2010

Áhugaverðir hlekkir

Er komin í einhvað furðulegt matarskap sem hefur áhrif á mig á þann veginn að núna er ég orðin súrdeigsforeldri (lagði í súrdeig sem fékk að standa í 4 daga og ætla að gera fyrsta brauðið úr í kvöld... svo set ég afgangin af súrdeigsgrunninum í glerkrús í ísskápinn og "mata" einusinni í viku) ! Þannig að baksturs, brauð og kökuuppskriftir eiga hug minn og hjarta allt þessa dagana. Hef rekist á svo mörg skemmtileg blogg sem fjalla um þetta og annað sem kveikir líf í sálu mér og bestust eru eftirfarandi;

http://miaohrn.wordpress.com

og svo beint á uppskriftirnar hennar; http://miaohrn.wordpress.com/recept/

http://www.paindemartin.blogspot.com/

http://mollyshalsoblogg.blogspot.com/

http://nasselblomchoklad.blogspot.com/

Saturday, April 10, 2010

SúkkulaðikakAN

Þessa súkkulaðikökuuppskrift á ég eftir að gera aftur.. og aftur... alveg ferlega góð og pottþétt hægt að nota öðruvísi frosna eða ferska ávexti á milli, öðruvísi krem ofaná.. jah... nánast hvað sem er. Passlega þétt, passlega einföld og passlega óholl því það er ekkert smjör í henni og fullt af bönunum !

Súkkulaðikökubotn

(úr LagaLätt, apríl 2010)

4 meðalstórir bananar (300 g án hýðis)
3 egg
2,5 dl sykur
1,5 dl rapsolía (eða hvaða bragðlitla olía sem er.. einsog t.d. Isio!)
100 g dökkt 70% súkkulaði
2,5 dl hveiti
0,5 dl kakó
2 tsk vanillusykur
1,5 tsk bakpulver (eða aðeins minna af lyftidufti)
ponsuklípa af salti

Hita ofninn á 175 gráður. Stappa bananana vandlega, t.d. með kartöflustappara og þeyta saman með sykrinum og eggjunum. Hita olíuna varlega í potti og skella súkkulaðinu útí og leyfa því að bráðna saman við olíuna. Passa að það hitni ekki of mikið ! Ég tók pottinn af hellunni um leið og ég bætti súkkulaðinu við.
Blanda öllum þurrefnunum saman í skál. Hella súkkulaðiolíunni ofan í hrærivélaskálina hjá bananaeggjablöndunni. Setja svo þurrefnin saman við og hræra (venda!) varlega með sleif. Smyrja hringlaga form og hella deiginu útí. Baka í miðjum ofni cirka 35 min. Leyfa að kólna og skera botninn í tvennt svo úr verði pláss fyrir kremið í miðjunni ;)

Krem í miðjuna;
250 g rjómaostur (Philadelfia)
fínrifinn börkur af hálfri sítrónu
100 g frosin ber (ég notaði hallon)
1 dl flórsykur
Allt blandað saman í hrærivél.

Ég setti svo kakósmjörkrem ofaná en í upprunalegu uppskriftinni var marsípan"þak" sem ég væri til í að prófa næst.
Posted by Picasa

Thursday, March 25, 2010

Bökuð ostakaka

Grunnuppskriftir eru svo mikil snilld. Endalaust hægt að varíera útkomunni. Fer þá bara eftir því hvaða þurrkaða ávexti maður á til í skápunum hjá sér.
Bjó þessa til um helgina og við fjögur fullorðin náðum að slátra heillri sem eftirrétt þrátt fyrir að hafa étið á okkur hálfgert gat af aðalréttinum. Svo mikil var græðgin og það góð var hún. Ég kynni til sögunnar;

Bökuð ostakaka - grunnuppskrift

50 g smjör
150 g digestive kex

Smjörið brætt og kexið mulið í agnir. Smjörinu hellt útá mylsnurnar og blandað vel saman. Sett í botninn á smjörpappírsklæddu smelluformi og þrýst vel út.

350 g rjómaostur (Philadelphia), hrært þartil mjúkt
150 g sykur
4 egg
1 sítróna, bæði safinn innanúr og fínrifinn börkurinn utanaf
2 tsk vanilludropar
handfylli af þurrkuðum ávöxtum/berjum að eigin vali. Ég notaði í þessu tilfelli trönuber.

3 dl sýrður rjómi (ég notaði 34% feitan)

Öllu nema sýrða rjómanum og þurrkuðu ávöxtunum hellt í skál og blandað vel saman. Hellt ofaná kexbotninn, þetta þurrkaða að eigin vali dreift ofaná, og bakað í 180 gráðu heitum ofni í 30 mín. Taka út og leyfa að standa í 10 mín (heldur áfram að bakast þó það sé tekið út). Sýrði rjóminn svo smurður ofaná og skellt aftur inní ofn í 10 mín í viðbót. Látið kólna vel og geymt í ísskáp þartil bera á fram.

Sunday, January 31, 2010

Súpa úr hvítum baunum... löguð á korteri !

Við sem erum einhvað örlítið GI meðvituð forðumst kartöflur einsog heitan eldinn... en ég er sko búin að finna það næst besta; stórar hvítar baunir !
Heitar eða kaldar eru þær alveg einsog kartöflur á bragðið. Og núna þegar ég hef prófað að gera súpu úr þeim er ég alveg sannfærð um bragðvíxlunina. Fín "skápasúpa" í þokkabót (ef mar á tvær dósir af stórum hvítum baunum eða í öðru falli Cannellinibaunir í skápnum og spínat í frystinum er dæmið klárt).

Súpa úr hvítum baunum

1 laukur, saxaður
1 hvítlauksrif, pressað/kramið
2 dósir af stórum hvítum baunum eða Cannellini baunum þær fyrrnefndu finnast ekki, vökvanum hellt af og baunirnar skolaðar.
1 l grænmetis eða kjúklingasoð
2 msk sítrónusafi
rifinn sítrónubörkur af 1/2 sítrónu
1 dl sýrður rjómi
spínat í frjálsu magni (ferskt eða frosið og afþítt; vatnið kreist vel úr)
salt og pipar

Laukarnir mýktir í smá olíu, baunum og soði bætt við. Leyft að malla í 10 mín og svo mixað slétt með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Sítrónusafa og berki bætt við ásamt sýrða rjómanum. Spínatinu bætt við og leyft að hitna í gegn. Smakkað til með salti og pipar.

Thursday, January 28, 2010

GI-bananabrauð... ofurhollt !

Það er ekki beint auðvelt að baka GI-heldar uppskriftir og þess vegna varð ég dálítið vel forvitin að komast að því hvernig þessi yrði á bragðið. Þurfti aðeins að breyta frá upprunalegu uppskriftinni (amerískar vörur sem ég hef ekki aðgang að) en mér fannst útkoman alveg fantagóð. Vel samkeppnishæft við þær útgáfur sem ég er vön að baka og stútfull af "góðum" sykri, eggjahvítu, grófmöluðu spelti, hörfræjum og þar fram eftir götunum.

Hollt (GI) bananabrauð

1,5 bolli (355 ml) heilhveitispelt eða heilhveiti venjulegt
3/4 bolli (177ml) hörfræ sem eru keyrð í matvinnsluvél þartil orðin að grófu dufti
2 tsk lyftiduft/bakpulver
1 tsk matarsódi/natrón
1 tsk kanil
1/2 tsk salt
3 vel þroskaðir bananar
6 msk sykur að eigin vali. Ég notaði ávaxtasykur (fruktos) í sama magni þar sem hann er GI vænni en sá hvíti/brúni.
3/4 bolli (177 ml) gräddfil/buttermilk/þykk venjuleg jógúrt með smá sítrónusafa útí
4 eggjahvítur
1 tsk vanilludropar
3/4 bolli (177ml) saxaðar valhnetur.

Byrjaði á því að þeyta eggjahvíturnar ásamt sykrinum þartil þær voru farnar að freyða vel. Ekki stífþeyta þó, bara farnar rétt að lyfta sér. Bætti svo öllum þurrefnunum saman og þeytti örstutta stund saman við hvíturnar.
Stappaði bananana og bætti við þá gräddfilnum og vanilludropunum. Hrærði þetta varlega saman við hvíturnar+hveitið og allra síðast söxuðu valhneturnar.
Hellti í aflangt form og bakaði við 175 gráður í 40-50 mín.

Wednesday, January 27, 2010

Jógúrtbrauð

Fer að verða síðasti sjéns að nýta hefunarábyrgðina sem þungað ástand mitt hefur og baka alvöru gerbrauð... prófaði þetta í gær og leyfði Hilmi að "skreyta" brauðið með hendinni sinni. Kom vel út bæði á að líta og borða. Verst að ég tók ekki mynd... en ef ég lýsi verklaginu þá bað ég Hilmi að setja hendina sína ofaná brauðið áður en ég setti það inní ofn, svona einsog ég ætlaði að teikna eftir hendinni. Svo var ég með hveiti í tesíl og dustaði VEL yfir brauðið svo það varð allt hvítt fyrir utan handarfarið sem myndaðist þegar hann tók hendina í burtu. Eftir að brauðið hafði bakast og orðið gullinbrúnt lýsti fjarvera hvíta hveitisins upp hendina sem hafði stækkað í ofninum og aflagast pínu svo úr varð rosa spennandi listaverk (eða það fannst allavega Hilmi sem stolltur borðaði handabrauðið "sitt").
Það er líka hægt að búa til stensil úr einhverju mynstri og dusta yfir hveiti.. nú eða bara dusta smá hveiti yfir án nokkurs og sjá æðarnar sem myndast þegar brauðið lyftir sér.

Uppskriftin er allavega einföld og laus við sykur af nokkurri sort sem er ekki verra ;)

Jógúrtbrauð
2 litlir hleifar

5 dl jógúrt/ab mjólk. Velgd uppað 37 gráðu hita (fingurvolgt).
50 g lifandi ger (eða þurrger), blandað saman við hluta af volgu jógúrtinni. Þarf ekki mikið til að fá það til að leysast upp, cirka 1-2 dl.

Í hrærivélaskálina er svo sett;
6 dl rågsikt/rúgmjöl
3-4 dl hveiti, geyma rúman dl til að hnoða út deigið með eftir að það hefur hefast í fyrsta sinnið.
2 tsk salt

Allt unnið vel saman í vélinni, plastfilma + viskustykki sett yfir skálina og hún sett til hliðar gjarnan á hlýlegan stað í eldhúsinu. Látið hefast í minnst 30 mín (ég leyfði að hefast í rúman 1,5 klst því ég var ekkert að flýta mér aldrei þessu vant).

Svo tekið úr skálinni og hnoðað örlítið með afgangs hveitinu. Það þarf ekkert að hnoða þartil það hættir að vera klístrað.. bara rétt svo maður geti búið til tvo litla hringlótta hleifa sem settur eru á bökunarpappírsklædda grind. Leyft að hefast í 30 mín til viðbótar. Skreytt með hveitimynstri ef maður vill.
Bakað í 15 mín við 250 gráður og leyft að hvílast í eftirhitanum þegar maður hefur slökkt að bökunartímanum loknum. Við vorum svo gráðug að við borðuðum brauðið ylvolgt 20 mín eftir að það hafði fullbakast, mjög gott. Þegar það svo hafði alveg kólnað seinna um kvöldið var það orðið þéttara í sér og "þroskaðra" einhvernvegin. Alveg jafn prýðisgott daginn eftir og skorpan orðin mýkri af dvölinni í plastpokanum.

Thursday, January 14, 2010

Fljótgerður pizzabotn úr spelti !

Alveg hreint elska ég brauðuppskriftir sem innihalda lyftiduft í staðinn fyrir ger. Hef oftast ekki þolinmæðina í að láta brauð lyfta sér og þá sérstaklega ekki ef maður er að gera heimagerða pizzu í snarhastri. Annars verður freistingin að labba útá horn og sækja sér eina tilbúna hjá vingjarnlegu kúrdunum of mikil.

Í kvöld prófaði ég eftirfarandi uppskrift með hreint æðislegum árangri. Nýtt uppáhald hjá fjölskyldunni !

5 dl spelt (dinkel á sænsku), notaði til helminga fínmalað og grófmalað
1 tsk salt
2 msk olía
3 tsk lyftiduft
1 msk blandað þurrkrydd (setti smá oregano, timjan, basiliku, jurtaaromat ofl)
3 dl ab-mjólk (naturell fil/a-fil)

Öllu hrært saman þar til rétt svo blandað saman. Má ekki ofhræra. Verður einsog teppalím í áferðinni en það er í fínu lagi, ég lofa ! Svo klessir maður þessu á bökunarpappír í þeirri stærð sem maður vill ná (ég gerði eina litla fyrir Hilmi og eina stóra fyrir okkur fullorðnu). Botninn á eftir að tvöfaldast að þykkt inní ofninum þannig að það má dreifa svolítið vel úr deiginu.
Forbakað í 200 gráðu heitum ofni í 5 mín, tekin úr og sett pizzasósa og álegg að eigin vali, bakað áfram í 15 mín í viðbót.