Alveg hreint elska ég brauðuppskriftir sem innihalda lyftiduft í staðinn fyrir ger. Hef oftast ekki þolinmæðina í að láta brauð lyfta sér og þá sérstaklega ekki ef maður er að gera heimagerða pizzu í snarhastri. Annars verður freistingin að labba útá horn og sækja sér eina tilbúna hjá vingjarnlegu kúrdunum of mikil.
Í kvöld prófaði ég eftirfarandi uppskrift með hreint æðislegum árangri. Nýtt uppáhald hjá fjölskyldunni !
5 dl spelt (dinkel á sænsku), notaði til helminga fínmalað og grófmalað
1 tsk salt
2 msk olía
3 tsk lyftiduft
1 msk blandað þurrkrydd (setti smá oregano, timjan, basiliku, jurtaaromat ofl)
3 dl ab-mjólk (naturell fil/a-fil)
Öllu hrært saman þar til rétt svo blandað saman. Má ekki ofhræra. Verður einsog teppalím í áferðinni en það er í fínu lagi, ég lofa ! Svo klessir maður þessu á bökunarpappír í þeirri stærð sem maður vill ná (ég gerði eina litla fyrir Hilmi og eina stóra fyrir okkur fullorðnu). Botninn á eftir að tvöfaldast að þykkt inní ofninum þannig að það má dreifa svolítið vel úr deiginu.
Forbakað í 200 gráðu heitum ofni í 5 mín, tekin úr og sett pizzasósa og álegg að eigin vali, bakað áfram í 15 mín í viðbót.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment