Wednesday, January 27, 2010

Jógúrtbrauð

Fer að verða síðasti sjéns að nýta hefunarábyrgðina sem þungað ástand mitt hefur og baka alvöru gerbrauð... prófaði þetta í gær og leyfði Hilmi að "skreyta" brauðið með hendinni sinni. Kom vel út bæði á að líta og borða. Verst að ég tók ekki mynd... en ef ég lýsi verklaginu þá bað ég Hilmi að setja hendina sína ofaná brauðið áður en ég setti það inní ofn, svona einsog ég ætlaði að teikna eftir hendinni. Svo var ég með hveiti í tesíl og dustaði VEL yfir brauðið svo það varð allt hvítt fyrir utan handarfarið sem myndaðist þegar hann tók hendina í burtu. Eftir að brauðið hafði bakast og orðið gullinbrúnt lýsti fjarvera hvíta hveitisins upp hendina sem hafði stækkað í ofninum og aflagast pínu svo úr varð rosa spennandi listaverk (eða það fannst allavega Hilmi sem stolltur borðaði handabrauðið "sitt").
Það er líka hægt að búa til stensil úr einhverju mynstri og dusta yfir hveiti.. nú eða bara dusta smá hveiti yfir án nokkurs og sjá æðarnar sem myndast þegar brauðið lyftir sér.

Uppskriftin er allavega einföld og laus við sykur af nokkurri sort sem er ekki verra ;)

Jógúrtbrauð
2 litlir hleifar

5 dl jógúrt/ab mjólk. Velgd uppað 37 gráðu hita (fingurvolgt).
50 g lifandi ger (eða þurrger), blandað saman við hluta af volgu jógúrtinni. Þarf ekki mikið til að fá það til að leysast upp, cirka 1-2 dl.

Í hrærivélaskálina er svo sett;
6 dl rågsikt/rúgmjöl
3-4 dl hveiti, geyma rúman dl til að hnoða út deigið með eftir að það hefur hefast í fyrsta sinnið.
2 tsk salt

Allt unnið vel saman í vélinni, plastfilma + viskustykki sett yfir skálina og hún sett til hliðar gjarnan á hlýlegan stað í eldhúsinu. Látið hefast í minnst 30 mín (ég leyfði að hefast í rúman 1,5 klst því ég var ekkert að flýta mér aldrei þessu vant).

Svo tekið úr skálinni og hnoðað örlítið með afgangs hveitinu. Það þarf ekkert að hnoða þartil það hættir að vera klístrað.. bara rétt svo maður geti búið til tvo litla hringlótta hleifa sem settur eru á bökunarpappírsklædda grind. Leyft að hefast í 30 mín til viðbótar. Skreytt með hveitimynstri ef maður vill.
Bakað í 15 mín við 250 gráður og leyft að hvílast í eftirhitanum þegar maður hefur slökkt að bökunartímanum loknum. Við vorum svo gráðug að við borðuðum brauðið ylvolgt 20 mín eftir að það hafði fullbakast, mjög gott. Þegar það svo hafði alveg kólnað seinna um kvöldið var það orðið þéttara í sér og "þroskaðra" einhvernvegin. Alveg jafn prýðisgott daginn eftir og skorpan orðin mýkri af dvölinni í plastpokanum.

No comments: