Einsog langflestir hafa væntanlega tekið eftir tek ég ávexti frammyfir súkkulaði þegar kemur að bakstri. Reif þessa uppskrift úr einhverju jólablaði í fyrra en náði aldrei að prófa hana áður en klementínu/mandarínu tímabilið kláraðist. Fannst líka afar spennandi að fá að prófa að sjóða heilar mandarínur og mauka þær svo í töfrasprotanum mínum. Þær voru orðnar alveg hressilega mjúkar eftir suðuna í pottinum svo þær urðu auðveldlega að mauki.
Ég var ekki alveg með tímasetninguna á hreinu svo hún var kremsmurð meðan hún var ennþá volg og étin samstundis. Hefði vel mátt standa í kæli áður, held hún sé ennþá betri þannig.
Mandarínukaka með kókoskremi
450 g heilar mandarínur eða klementínur, helst steinalausar
125 g mjúkt smjör
2,5 dl sykur
2 egg
4 dl hveiti
1 tsk (ég ætla að hafa bara hálfa tsk næst) malin nellika
1 dl kókosmjöl
2 tsk "bakpulver" (lyftiduft í minna magni)
Kremið
300 g rjómaostur
3 msk sítrónusafi
0,5 dl flórsykur
0,5 dl kókosmjöl
Smjörsmyrjið og stráið brauðmylsnu inní hringlótt form (ég notaði kókosmjöl í staðinn fyrir mylsnuna).
Skolið heilu mandarínurnar eða klementínurnar vandlega uppúr volgu vatni og setjið í pott. Hellið vatni í pottinn svo þekji ávextina og sjóðið í 6-7 mínútur. Takið uppúr (með töng) og skolið aðeins aftur. Látnar standa og kólna. Maukaðar (já með berki og öllu!) í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Verður að þykku ilmandi mauki.
Þeytið saman smjöri og sykri og látið svo eggin útí. Þeytt áfram þartil orðið kremað og fínt.
Blanda saman í skál hveitinu, nelliku, kókos og bakpulvri/lyftidufti. Hrært saman við smjörblönduna ásamt mandarínumaukinu. Hellt í form og bakað í 175 gráðu heitum ofni, neðarlega, í 40 mín.
Kæld VEL áður en kremið er sett á.
1 comment:
Spennó verð að prófa þessa
Post a Comment