Saturday, November 21, 2009

Döðlulambapottréttur að hætti Nigellu

Tók fram jólakassann minn um daginn. Í þeim kassa eru jólauppskriftablöð og bæklingar undanfarinna ára ásamt stóru jólabókinni hennar Nigellu Lawson. Akkúrat það rétta til að koma mér í jóla(matar)stemmningu ! Nigella vill meina að þessi marakóski pottréttur eigi vel við þegar vetur gengur í garð. Ekki bara útaf lykt og bragði (lambakjöt, döðlur, granatepli) heldur vegna þess að litasamsetningin sé svo hátíðarleg með dökku lambakjötinu, rauða salatinu sem er borið fram með því og grænum kóríandernum.

Því miður vorum við svo gráðug, ég, eiginmaðurinn og matargestirnir, að við höfðum ekki rænu á okkur að taka mynd áður en byrjað var að borða en ég get lofað því að þetta var alveg óheyrilega gott og ekki síður fallegt á að líta.



Döðlulambapottréttur að hætti Nigellu



1 kg lambakjöt af læri, skorið í bita

4 msk olía
2 laukar, saxaðir

1 tsk kanel
1 tsk engifer
1 tsk turmerick/gurkmeja
1 tsk "allspice" (pipartegund sem kallast víst allrahanda á okkar ástkæra ylhýra)
1 tsk cumin

Olían hituð í víðum potti eða á pönnu. Ég nota Le Creuset pottinn minn því svo set ég allt inní ofninn í lokin. Laukurinn mýktur við meðalháan hita í nokkrar mínútur og öllum kryddunum bætt við. Hrært vandlega og látið blandast vel saman við laukinn.

Kjötbitarnir látnir útí og brúnaðir á öllum hliðum. Þetta má gera í 2 atrennum ef kjötið er mikið og/eða potturinn eða pannan af minni gerðinni.


250 g þurrkaðar döðlur (steinninn fjarlægður úr)
2,5 dl granateplasafi (pomegrant juice)
2,5 dl vatn


Þegar allt kjötið er orðið hliðarsteikt (ekki steikja í gegn, bara rétt að fá lit á bitana) er döðlunum bætt við og safanum ásamt vatninu. Saltað. Ég saxaði ekki döðlurnar neitt heldur tók bara steininn úr og leyfði þeim að vera í sínu náttúrulega ástandi ;)


Svo má annaðhvort lækka hitann niður í algjört lágmark eða skella pottinum/pönnunni ef hún er ofnheld inní 150 gráðu heitan ofn og látið malla í minnst 2 klst.


Þennan pottrétt má gera allt að 2 dögum áður og hita svo bara upp rétt áður en á að njóta. Þá þarf jafnvel að bæta smá vatni saman við til að fá sósuna í gang aftur.


Borið fram með bulgur (eða couscous), hoummus og rauðlauks-granatepla"salati".

Granateplasalat
1 rauðlaukur, afhýddur, helmingaður og skorin í örþunna hálfmána
60 ml limesafi
60 ml granateplasafi (annaðhvort það sem kemur af ávextinum sjálfum eða granateplasafi úr fernu)

40 g granateplafræ
ferskur kóríander

Byrjar á að leggja skorinn rauðlaukinn í bleyti í lime- og granateplasafanum. Látið liggja í hálftíma. Laukurinn svo tekin uppúr bleytinu, lagður í skál og granateplafræjunum og kóríandernu stráð yfir.

Bulgur að hætti Yalla
Venjulega sýð ég bara bulgur allsbert eða mögulega með smá kjúklinga eða grænmetiskrafti ef ég vil hafa það bragðmeira.
Prófaði núna að blanda smá kryddblöndu að hætti Nigellu og leiðbeiningunum á pakkningunni (keypti útí tyrkjabúðinni í hverfinu mínu) og það varð sko töluvert betra fyrir vikið.

Byrjaði á því að bræða smá smjör í potti og vellta bulgurnum uppúr því, svipað og maður gerir við risottohrísgrjón. Svo bætti ég við eftirtöldu kryddi, 1/2 tsk af hvoru; kanil, papríka, cumin, kóríander ásamt 2 tsk af salti. Bætti svo við vatni í réttu magni og sauð við lágan hita þartil vatnið var allt gufað upp.

1 comment:

Svava said...

Sæl Begga

Þessi uppskrift er algjört ӔÐI! Ég sá hana í jólaþætti Nigella Lawson núna í desember og reyndi að finna uppskriftina á netinu. Horfði á þáttinn þrisvar sinnum á netinu og skrifaði niður. Þú segist eiga matreiðslubók með henni?!? Ótrúlegt að rekast á þessa uppskrift hér! Áttu ekki góða gúllas uppskrift með pilsner, eins og þú minntist á einu sinni? Ég fann enga hérna á matarblogginu!

Kær kveðja,

Svava Gunnarsdóttir Palma