Sunday, September 21, 2008

Ætifífilssúpa með sítrónurækjum og rauðlauksbrauði

Ok... þessi súpa hljómar MUN girnilegri á sænsku; jordärtskocksoppa. Ég hafði ekki hugmynd um hvað jordärtskocka héti á íslensku, né heldur ensku svo ég bara googlaði því. Upp kom þessi síða hjá gestgjafanum.
Sumsagt Jordärtskocka = ætifífill = jerusalem artichoke.
Minnir á hnýðótta ljósa kartöflu í útliti en er ekki jafn mjölkennd á bragðið.

Þessi uppskrift er GI-skotheld en með brauðbollunum fer það dáldið forgörðum. En maður getur svosem sleppt þeim eða bara fengið sér pínusmá... því þær eru svo góðar að það má varla sleppa þeim ;)
Ég varð eiginlega mest hissa á því hvað rækjurnar féllu vel við bragðið á súpunni. Eiginlega dáldil sparisúpa (enda sunnudagur í dag og engin steik á þessu heimili) og ég á ekki eftir að hika við að bjóða gestum uppá þessa útgáfu einhverntíman fljótlega.

Ætifíflasúpa með sítrónurækjum
(uppskriftin segir fyrir 4 en við vorum 2 fullorðnir + barn og átum upp til agna... potturinn var sleiktur)

2 hvítlauksrif, þunnt sneidd
1 msk olía
5 dl vatn (ég bætti smá grænmetiskrafti við, á svo gott "lantbuljong")
600 g skrældir ætifíflar, skornir í helminga
salt
1 dl matreiðslurjómi
1 msk hvítvínsedik
Hvítlauksrifin mýkt uppúr olíunni, smávegis af vatninu bætt við og að lokum ætifífilsbitarnir. Restinni af vatninu bætt við en það á rétt að ná að þekja ætifífilsbitana í pottinum. Leyft að malla í 15 mín eða þartil orðnir vel mjúkir. Saltað örlítið og mixað með handmixara (eða sett í matvinnsluvél).
Rjómanum og edikinu bætt við og leyft að hitna aftur.

200 g rækjur
Safinn af einni sítrónu
2 msk olía (gjarnan olívuolía)
Rækjunum leyft að liggja aðeins í sítrónusafanum + olíunni. Ég saltaði örlítið. Bætt við í hvern súpudisk rétt áður en borið er fram og piprað.

Rauðlauksbrauðbollur
10 bollur (ég minnkaði uppskriftina um helming og gerði bara 5 sem nægði alveg fyrir okkur.. en hér kemur heil uppskrift)

4,5 dl hveiti
2 tsk "bakpulver" (svipað og lyftiduft)
1/2 tsk salt
50 g smjör
2 rauðlaukar, skornir í strimla
100 g rifinn, fitulítill ostur
Upprunalega uppskriftin segir að hér eigi að vera líka 1 dl olívur en ég átti engar svo ég sleppti þeim og jók við ostamagnið
2 dl mjólk

Ofninn hitaður í 250 gráður. Þurrefnunum blandað saman og smjörið skorið í bita, bætt við og mulið með fingrunum. Lauknum, ostinum og mjólkinni blandað við. Sett á bökunarpappírsklædda ofngrind. Búnar til 10 bollur sem eru cirka 5 cm að breidd. Bakað í 10 mín.
Posted by Picasa

No comments: