Thursday, November 26, 2009

Te-kaka með döðlum

Ekki laust við að ég sé að fara yfirum í bakstursáhuga þessa dagana. Bara svo margt sem mig langar að prófa ! Sérstaklega núna á jólamánuði þegar bakstursilmurinn sér um að skapa frið og ró á heimilinu (og þá þarf maður ekki að taka til !).

Ég átti því miður ekki "rétta" te-ið sem talið var upp í uppskriftinni en notaði í staðinn Indian Chai te. Held það sé engu verra.

Tekaka með döðlum
(úr LagaLätt des, 2007)

1 appelsína
1 sítróna
150 g döðlur sem búið er að taka kjarnann úr
1 dl sterkt Lapsang souchong te eða Earl grey
150 g smjör
1,5 dl hrásykur
2 egg
3 dl hveiti
1 tsk bakpulver/lyftiduft

Ofninn hitaður að 175 gráðum og aflangt bökunarform klætt með bökunarpappír.
Skola vel og skrúbba af ávöxtunum og börkurinn fínrifinn af.
Hita tebolla, vel sterkan (pokinn hafður ofaní nokkrar aukamínútur) og hella 1 dl af bollanum yfir döðlurnar í skál. Leyft að kólna aðeins.

Smjörinu og sykrinum blandað vel saman. Eggjunum bætt við einu og einu í senn. Döðluteblöndunni bætt útí ásamt berkinum af ávöxtunum. Bæta svo við hveiti og bakpulver/lyftidufti og blanda varlega saman þartil orðið að jöfnu deigi.


Hellt í bökunarformið og bakað neðarlega í ofninum í 45-50 mín.

Monday, November 23, 2009

Semifreddo - næstum því ís

Grunnurinn að þessum semifreddo (þýðir víst hálf-frosið á ítölsku og er einsog heimagerður ís) er einfaldlega létt og gott vanillubragð. Svo getur maður bætt við hverju sem er áður en borið er fram; ávöxtum/berjum, hnetum, súkkulaði eða öðru sælgæti. Já hverju sem hugurinn girnist !

Ég hef gert þetta tvisvar. Fyrsta skiptið dreifði ég ofaná ristuðum pistasíuhnetum og dökku súkkulaði. Í gær vorum við í aðeins meira vetrar-jólaskapi svo fyrir valinu varð Marabou-súkkulaðið "vinter" og smá skær rauður granateplasafi.

Semifreddo - grunnur

2,5 dl mellangrädde (26% feitur rjómi)
1 msk vanillusykur

4 eggjarauður
0,5 dl sykur

4 eggjahvítur
0,5 dl sykur

2 dl tyrknesk/grísk hrein jógúrt 10% feit

Rjóminn þeyttur ásamt vanillusykrinum. Eggjarauðurnar þeyttar ásamt sykri þartil orðnar örlítið þykkar. Eggjahvíturnar þeyttar þartil farnar að verða stífar, sykrinum svo bætt við smám saman og haldið áfram að þeyta þartil orðnar alveg stífþeyttar.
Rjómanum, rauðusykrinum og jógúrtinni blandað varlega saman og að lokum er hvítunum snúið niður með mestu varúð.

Sett í grunnt form og fryst í 2-3 klst lágmark. Ef lengur má taka fram úr frysti 10 mín áður en á að bera fram og geymt í kæli svo það verði aftur "hálf-frosið".
Skreytt og bragðbætt að vild !

Saturday, November 21, 2009

Döðlulambapottréttur að hætti Nigellu

Tók fram jólakassann minn um daginn. Í þeim kassa eru jólauppskriftablöð og bæklingar undanfarinna ára ásamt stóru jólabókinni hennar Nigellu Lawson. Akkúrat það rétta til að koma mér í jóla(matar)stemmningu ! Nigella vill meina að þessi marakóski pottréttur eigi vel við þegar vetur gengur í garð. Ekki bara útaf lykt og bragði (lambakjöt, döðlur, granatepli) heldur vegna þess að litasamsetningin sé svo hátíðarleg með dökku lambakjötinu, rauða salatinu sem er borið fram með því og grænum kóríandernum.

Því miður vorum við svo gráðug, ég, eiginmaðurinn og matargestirnir, að við höfðum ekki rænu á okkur að taka mynd áður en byrjað var að borða en ég get lofað því að þetta var alveg óheyrilega gott og ekki síður fallegt á að líta.



Döðlulambapottréttur að hætti Nigellu



1 kg lambakjöt af læri, skorið í bita

4 msk olía
2 laukar, saxaðir

1 tsk kanel
1 tsk engifer
1 tsk turmerick/gurkmeja
1 tsk "allspice" (pipartegund sem kallast víst allrahanda á okkar ástkæra ylhýra)
1 tsk cumin

Olían hituð í víðum potti eða á pönnu. Ég nota Le Creuset pottinn minn því svo set ég allt inní ofninn í lokin. Laukurinn mýktur við meðalháan hita í nokkrar mínútur og öllum kryddunum bætt við. Hrært vandlega og látið blandast vel saman við laukinn.

Kjötbitarnir látnir útí og brúnaðir á öllum hliðum. Þetta má gera í 2 atrennum ef kjötið er mikið og/eða potturinn eða pannan af minni gerðinni.


250 g þurrkaðar döðlur (steinninn fjarlægður úr)
2,5 dl granateplasafi (pomegrant juice)
2,5 dl vatn


Þegar allt kjötið er orðið hliðarsteikt (ekki steikja í gegn, bara rétt að fá lit á bitana) er döðlunum bætt við og safanum ásamt vatninu. Saltað. Ég saxaði ekki döðlurnar neitt heldur tók bara steininn úr og leyfði þeim að vera í sínu náttúrulega ástandi ;)


Svo má annaðhvort lækka hitann niður í algjört lágmark eða skella pottinum/pönnunni ef hún er ofnheld inní 150 gráðu heitan ofn og látið malla í minnst 2 klst.


Þennan pottrétt má gera allt að 2 dögum áður og hita svo bara upp rétt áður en á að njóta. Þá þarf jafnvel að bæta smá vatni saman við til að fá sósuna í gang aftur.


Borið fram með bulgur (eða couscous), hoummus og rauðlauks-granatepla"salati".

Granateplasalat
1 rauðlaukur, afhýddur, helmingaður og skorin í örþunna hálfmána
60 ml limesafi
60 ml granateplasafi (annaðhvort það sem kemur af ávextinum sjálfum eða granateplasafi úr fernu)

40 g granateplafræ
ferskur kóríander

Byrjar á að leggja skorinn rauðlaukinn í bleyti í lime- og granateplasafanum. Látið liggja í hálftíma. Laukurinn svo tekin uppúr bleytinu, lagður í skál og granateplafræjunum og kóríandernu stráð yfir.

Bulgur að hætti Yalla
Venjulega sýð ég bara bulgur allsbert eða mögulega með smá kjúklinga eða grænmetiskrafti ef ég vil hafa það bragðmeira.
Prófaði núna að blanda smá kryddblöndu að hætti Nigellu og leiðbeiningunum á pakkningunni (keypti útí tyrkjabúðinni í hverfinu mínu) og það varð sko töluvert betra fyrir vikið.

Byrjaði á því að bræða smá smjör í potti og vellta bulgurnum uppúr því, svipað og maður gerir við risottohrísgrjón. Svo bætti ég við eftirtöldu kryddi, 1/2 tsk af hvoru; kanil, papríka, cumin, kóríander ásamt 2 tsk af salti. Bætti svo við vatni í réttu magni og sauð við lágan hita þartil vatnið var allt gufað upp.

Sunday, November 15, 2009

Mandarínukaka með kókoskremi


Einsog langflestir hafa væntanlega tekið eftir tek ég ávexti frammyfir súkkulaði þegar kemur að bakstri. Reif þessa uppskrift úr einhverju jólablaði í fyrra en náði aldrei að prófa hana áður en klementínu/mandarínu tímabilið kláraðist. Fannst líka afar spennandi að fá að prófa að sjóða heilar mandarínur og mauka þær svo í töfrasprotanum mínum. Þær voru orðnar alveg hressilega mjúkar eftir suðuna í pottinum svo þær urðu auðveldlega að mauki.

Ég var ekki alveg með tímasetninguna á hreinu svo hún var kremsmurð meðan hún var ennþá volg og étin samstundis. Hefði vel mátt standa í kæli áður, held hún sé ennþá betri þannig.


Mandarínukaka með kókoskremi


450 g heilar mandarínur eða klementínur, helst steinalausar

125 g mjúkt smjör

2,5 dl sykur

2 egg

4 dl hveiti

1 tsk (ég ætla að hafa bara hálfa tsk næst) malin nellika

1 dl kókosmjöl

2 tsk "bakpulver" (lyftiduft í minna magni)


Kremið

300 g rjómaostur

3 msk sítrónusafi

0,5 dl flórsykur

0,5 dl kókosmjöl


Smjörsmyrjið og stráið brauðmylsnu inní hringlótt form (ég notaði kókosmjöl í staðinn fyrir mylsnuna).


Skolið heilu mandarínurnar eða klementínurnar vandlega uppúr volgu vatni og setjið í pott. Hellið vatni í pottinn svo þekji ávextina og sjóðið í 6-7 mínútur. Takið uppúr (með töng) og skolið aðeins aftur. Látnar standa og kólna. Maukaðar (já með berki og öllu!) í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Verður að þykku ilmandi mauki.


Þeytið saman smjöri og sykri og látið svo eggin útí. Þeytt áfram þartil orðið kremað og fínt.

Blanda saman í skál hveitinu, nelliku, kókos og bakpulvri/lyftidufti. Hrært saman við smjörblönduna ásamt mandarínumaukinu. Hellt í form og bakað í 175 gráðu heitum ofni, neðarlega, í 40 mín.


Kæld VEL áður en kremið er sett á.