Thursday, April 16, 2009

Lemon curd - sítrónukrem


Bjó til eigið sítrónukrem um páskana sem ég setti svo í sítrónupæj með berjamarenstoppi. Sjálft pæjið var ákaflega fallegt en lak dálítið þegar það náði stofuhita og það var búið að skera nokkrar sneiðar í burtu. En sítrónukremið ! Ó sítrónukremið... það var megagott. Var svo heppin að kremið varð meira en reiknað var með svo ég eignaðist þarna skyndilega nokkrar krukkur í afgang ;) Það var prófað oná ristað brauð, með nýbökuðum brauðbollum, með ferskum jarðaberjum og amerískum brunchpönnukökum. *smjatt*

Nú svona eftirá þegar ég fór að skoða hversu lengi þetta geymist þá er sagt "vika í ísskáp" og þá er nú kannski eins gott að búa bara til lítinn skammt við extra góð tilfelli enda er þetta nú ekki beint hollt... en þeim mun betra ;)


Lemon curd

einn lítill skammtur


3 sítrónur

1,5 dl sykur

50 g smjör

2 msk maizenamjöl

2 heil egg

2 eggjarauður


Fínrifinn börkur af 3 sítrónum sett í pott ásamt safanum af 2 sítrónum, allur sykurinn og smjörið líka. Hitað þartil sykurinn er búin að leysast upp. Börkurinn siktaður frá og vökvinn settur aftur í pottinn.

Maizenamjölið er hrært út í safann af síðustu sítrónuninni og að lokum hellt út í pottinn.

Svo kemur mest spennandi hlutinn !


2 heil egg og 2 eggjarauður eru hrærðar saman léttilega. Sett út í heitan/volgan vökvan í pottinum smám saman og hrært stöðugt í á meðan. Þegar öll eggin eru komin út í má hita við vægan hita aftur, hræra stöðugt í og bíða eftir að þykkni. Þetta ætti að þykkna á nokkrum mínútum. Fyrir þá sem vilja fara enn varlegar að þessari aðferð má gera þetta yfir vatnsbaði en þá nær maður að stjórna hitanum enn betur en þegar kremið er ofan í potti.


Svo er þykku kreminu hellt í hreinar krukkur og látið stífna inni í ísskáp.

Gott með öllu !

3 comments:

Anonymous said...

Dásamlegt lemon curd...takk fyrir krukkuna sem þú komst með, hún hvarf eins og dögg fyrir sólu.
Bestu þakkir fyrir frábært matarblogg ;)
Bestu kveðjur
Guðbjörg

Unknown said...

Sleeeef!
Var að græja þetta og stalst til að smakka smá áður en ég skutlaði krukkunum inní kæli. Algjör unaður auðvitað :) Takk fyrir uppskriftina! Kveðjur frá Akureyri.

Anonymous said...

Þetta er meiriháttar og fyllir mann stolti þegar nokkrar krukkur eru fylltar af heimagerðu "lemon curd". Okkar uppáhald er að setja þetta á amerískar pönsur.

Kv.
Íris