Sunday, April 26, 2009

Eplabrauð á 5 mín


Skellti í eitt stykki eplabrauð hérna í morgunsárinu sem ég ætla svo að njóta með hádegismatnum (sem verður skærgræn og fín grænbaunasúpa með pestói). Kom mér á óvart hvað ég var fljót að henda í þetta þarna oní hrærivélaskálinni og mér til mikillar ánægju var ekkert ger í þessu brauð (ég á mjög erfitt með að nota ferskt ger áður en það rennur út og litla sem enga þolinmæði í að láta það lyfta sér heldur).
Brauðið er svo troðfullt af góðum hlutum einsog spelti, jógúrt, hörfræjum og eplum. Gerist varla betra ;)
Eplabrauð
1 hleifur
2 dl haframjöl (já, einsog mar gerir graut úr)
2,5 dl spelt, fínmalað
2,5 dl spelt, grófmalað
0,5 dl hörfræ
0,5 dl sólrósakjarnar
1 tsk salt
2 tsk bikarbonat/natron
Öllu þessu er blandað saman í hrærivélaskál eða barasta skál ef þú ætlar að handhræra... sem er vissulega óflókið og gaman ef mar vill vera extra húslegur.
1 grófrifið epli
1 msk hunang, fljótandi
4 dl óbragðbætt naturell jógúrt
Þessu blandað saman í sérskál og svo saman við þurrefnin að ofan. Hræra þartil allt blandað saman og hella í vel smurt og "bröað" (ég átti ekki brauðmylsnu svo ég notaði kókosmjöl) brauðform. Baka við 175 gráður neðarlega í ofninum í 80 mín.

No comments: