Friday, December 19, 2008

Smákökur með trönuberjum og hvítum súkkulaðibitum

Ég á sérstakan jólauppskriftakassa fullan af jólamatreiðslublöðum og bókum. Þangað fer sko nýjasta uppskriftabók Nigellu Lawson "Nigella Christmas" þegar jólin eru búin og bíður eftir mér til næsta árs ;)
Prófaði smákökuuppskrift úr bókinni og verð að segja að hún kom mér á óvart. Kannski var það afþví ég var nýbúin að baka (og smakka) íslenska smákökuuppskrift sem var svo dísæt að mér leið einsog ég væri að bryðja bragðbættan sykurmola. Svo þegar koma að frú Nigellu minnkaði ég sjálfkrafa sykurmagnið með prýðis árangri. Ég hef nefnilega komist að því að ég er ekkert rosalega mikið fyrir súkkulaðibakstur eða dísætar kökur. Frekar ávexti og haframjöl !
Þessi smákökuupskrift inniheldur bæði.

Smákökur með trönuberjum og hvítum súkkulaðibitum
(eiga að gefa 30 stykki)

150 g hveiti
1/2 tsk "baking powder" / bakpulver / örlítið minna ef notað er lyftiduft
1/2 tsk salt
75 g haframjöl
125 mjúkt smjör
75 g púðursykur eða dökkur muscavadosykur, ég minnkaði magnið niður í 60 g
100 g sykur, aftur minnkaði ég magnið niður í 85 g
1 egg
1 tsk vanilludropar
75 g þurrkuð trönuber
50 g pecan hnetur, saxaðar
150 g hvítir súkkulaðidropar eða "chips". Fann hvergi svoleiðis svo ég keypti hvítt blokksúkkulaði og saxaði það.

Hita ofninn í 180 gráður. Mæla í skál hveiti, bakpulver, salt og haframjöli.
Þeyta saman í hrærivél smjöri og sykri (bæði púðursykri og venjulega) og bæta svo við egginu. Hræra svo saman við hveiti/haframjölsblöndunni. Hnoða svo saman við trönuberjunum, hnetunum og súkkulaðinu.
Svo er að bretta upp ermarnar ! Taka litla lúkufylli af deigi og rúlla í kúlu. Hversu stóra fer eftir því hversu stórar kökur þú ert að skjóta á að fá. Ég gerði golfkúlustærð. Setja á bökunarpappírsklædda ofnplötu og þrýsta svo aðeins niður þannig að kúlan fletjist örlítið út. Baka í heitum ofninum í cirka 15 mín. Leyfa að kólna áður en tekið er af plötunni.

Þessar má baka og frysta í allt að 3 mánuði. Þíða þá við stofuhita. Geymast annars í 5-7 daga í lokuðu íláti.

2 comments:

Anonymous said...

Nammnamm.. hljóma vel. Gotta try! En segðu mér eitt, renna þær mikið út?
Annað, prófaði ferskju og gulrótamarmelaðið þitt frá því fyrir síðustu jól. Jók engifermagnið, minnkaði sykur og bætti svörtum pipar við - alveg magnað marmelaði! Snilld að nota svona þurrkaða ávexti, þeir verða svo djúsí :) Takk fyrir mig!!!

Begga said...

Hæ Fanney :)
Nei þær renna ekkert svo mikið út. Allavega héldu mínar alveg ágætlega sköpunarlaginu.
Flott hjá þér að minnka sykurinn í marmelaðinu !! Og extra flott að gera uppskriftina að þinni eigin með því að bæta við og breyta innihaldinu. Það er fegurðin við uppskriftir ekki satt ?
Takk tilbaka...
/Begga