Monday, February 25, 2008

Létt eplakaka með hindberjum

Þegar ég segi létt þá meina ég að hún er bæði léttgerð (einnig kallað imbaheld;)) og létt=diet. Frekar lítill sykur og smjör í þessu miðað við útkomumagn en þó alveg óhemjugóð. Maður getur bætt sér upp hitaeiningatapið með því að bera hana heita fram með vanilluís, þeyttum rjóma eða hinni sérsænsku vanillusósu.

Eplakaka með hindberjum
(úr "ViktVäktarna, Matnyttigt!")

3 3/4 dl hveiti með bakpulver eða lyftidufti í (ég notaði teskeið af hvoru til að vera viss!)
1 fingurklípa af salti
150 g smjör
3/4 dl sykur
225 g epli, skræld og skorin í litla bita
2 egg, slegin
3 msk léttmjólk
225 g fersk eða frosin hindber (ég hálf afþíddi þau frosnu sem ég notaði, kom ekki að sök)
3/4 dl möndluflögur
flórsykur að dusta yfir

Hitið ofninn í 175 gráður. Setjið bökunarpappír í botninn á hringlaga formi.
Blandið saman hveiti, salti og smjöri. Myljið með fingrunum þartil orðið að kornóttu deigi. Bætið svo við sykri, eggjum og mjólk. Hræra þartil allt samanblandað. Hrærið varlega saman við eplunum og meirihlutanum af hindberjunum (vaaaarlega því að hindberin kremjast ef farið er ógætilega, skemmir ekki bragðið en deigið verður ljósfjólublátt á litinn!).
Hellið deiginu í form og sléttið aðeins úr því. Hellið yfir afganginum af berjunum og möndluflögunum. Bakist í 60-75 mín eða þartil kakan hefur hefast og fengið fínan lit.
Taka úr forminu og dusta flórsykri yfir.

Tvennskonar tælenskar kjúklingasúpur

Finnst asískur matur dáldið góður og þá sérstaklega sá tælenski. Svona sterkar og góðar kjúklingasúpur reka hvaða kvef sem er langt í burtu og þá sérstaklega sú fyrri sem inniheldur engifer. Sú seinni er svo dáldið matarmeiri afþví hún er með rísnúðlum í. Báðar þó léttar og góðar, gæti eiginlega ekki gert upp á milli þeirra !

Kjúklingasúpa I

2 kjúklingabringur skornar í strimla
10 sveppir, saxaðir
3 gulrætur, saxaðar
Þetta er steikt uppúr 2 tsk olíu, saltað og piprað.
5 dl vatn
2 msk kjúklingakraftur, þetta tvennt hitað að suðu og kjúklingnum og grænmetinu bætt út í og leyft að sjóða í 5 mín. Því næst er eftirfarandi bætt út í...
1 tsk engifer
1 rautt chillí, saxað
2 msk fiskisósa (Nam Pla)
1 dós léttkókosmjólk
safinn af 1 lime
1-2 tsk kóríander (eða ferskt kóríander að vild).
Leyft að sjóða aftur í 5-6 mín.


Kjúklingasúpa II
1 msk grænt currypaste (tælenskt)
2 miðlungsstórir gulir laukar, þunnt sneiddir
2 hvítlauksrif, pressuð
1 þurrkað limeblað (eða börkurinn af 1 lime)
1 líter vatn með kjúklingakrafti í
150 g kjúklingakjöt sem búið er að skera í strimla og steikja á pönnu
hnefafylli af rísnúðlum (ath að sumar tegundir þurfa að fá að liggja í bleyti í nokkrar mínútur áður en settar út í til suðu)
1 dl létt kókosmjólk
1 hnefafylli af ferskum kóriander
salt og pipar
Þykkbotna pottur er hitaður á hellu og currypeistið léttsteikt (30 sek), setja útí lauk, hvítlauk, limeblað og smávegis af kjúklingakraftinum. Leyft að sjóða í 5 mín eða þartil laukurinn er orðin mjúkur.
Leggið í kjúklingin, hellið við afganginum af kraftinum og leyfið suðunni að koma upp. Setjið svo núðlurnar út í og leyfið að sjóða í nokkrar mínútur (cirka þann tíma sem núðlurnar þurfa til að fullsjóðast). Takið pottinn af hellunni veiðið uppúr þurrkuðu limeblöðin (ef þau voru notuð) og bætið við kókosmjólkinni, kóríander og saltið og piprið að smekk.

Friday, February 15, 2008

Thailenskur lax með núðlum

Fékk vinkonu og skólasystur (íslenska) í mat núna í vikunni. Hún er voða hrifin af lax svo ég ákvað að prófa eftirfarandi uppskrift sem var birt í DN einhverntíman... var rifinn úr og geymd þartil tækifæri gafst. Og það tækifæri gafst loksins þarna ;)
Var 30 mín að gera þetta, innifalið var spjall við gestinn og ein ferð niðrí þvottahús meðan vatnið fyrir núðlurnar færi að sjóða.
Lýgilega gott miðað við tíma og magn hráefnis !

Thailenskur lax með núðlum

Einn biti úr laxaflaki, stærð fer eftir fjölda gesta en við vorum þarna 2
1 tsk rautt curry paste (tælenskt)
Rifinn börkur af 1 lime
salt og pipar
Tók laxinn úr ísskápnum cirka 45 mín áður en það fór inn í ofn og bar á það þunnt lag af curry paste, saltaði og pipraði og reif svo yfir börkinn af 1 lime.
Lét þetta standa á borðinu meðan ofninn var að hitna og skellti því svo inn meðan ég var að steikja grænmetið með núðlunum. Var semsagt í cirka hálftíma við 175 gráður.

Eggjanúðlur, magn fer eftir fjölda, í upprunalegu uppskriftinni var ætlast til að maður notaði glernúðlur en ég er hrifnari af eggjanúðlunum svo ég nota þær.... Soðnar (matreiddar) skv. leiðbeiningum á pakkanum.
1-2 rauðar papríkur skornar í bita
2-3 vorlaukar/salatslaukar, sneiddir
Tvær hnefafyllir af frystu brokkolíi, afþýtt í örbylgjunni áður en notað
1,5 dl kókosmjólk
1 msk fiskisósa (Nam Pla)
safinn af liminu
Byrjaði á því að steikja papríkurnar á heitri pönnu með smá olíu í, bætti svo við vorlauknum og að lokum brokkolíinu. Steikti með hraði þartil allt fór að mýkjast örlítið. Bætti þá útí kókosmjólkinni og fiskisósunni og skellti tilbúnum eggjanúðlunum útá. Smakkaði til með limesafanum og leyfði öllu að hitna vel í gegn.

Saturday, February 09, 2008

Svínasneiðar með engifer.... og appelsínuquinoasallati

Ég er áskrifandi að DN og það er fastur liður hjá mér að kíkja fyrst á öftustu blaðsíðuna því þar er "uppskrift dagsins". Hef ósjaldan prófað það sem þar er birt og það bregst næstum aldrei. Góður hversdagsmatur.
Þessi réttur tók (grínlaust) 20 mín að gera svo það er næstum fljótlegra heldur en að panta pizzu. Og náttlega töluvert hollari ;) Svo skemmdi það ekki heldur fyrir að það var quinoasallat með svínasneiðunum ! Elska elska elska quinoa.

Svínasneiðar með asískum keim ásamt appelsínuquinoasallati
úr DN 28. jan 2008
4 svínakjötssneiðar (hér kallast þær karré, einskonar kótilettur)
2 tsk rifinn engifer
1 hvítlauksrif, kramið
1 msk sojasósa
1 msk vatn
Kjötsneiðarnar steiktar á pönnu þartil farnar að taka lit, saltaðar og pipraðar. Engiferinn og hvítlaukurinn blandaður saman og smurt ofan á hverja sneið á pönnunni. Hitinn lækkaður og 1 msk sojasósu hellt yfir kjötið ásamt 1 msk (eða meir ef maður vill meiri sósu) vatni. Lok sett á pönnuna og kjötinu leyft að fullsteikjast nokkrar mínútur í viðbót, ca 8 mín.
Kjötið tekið uppúr pönnnni og smá sósuþykkni bætt út í vökvann sem myndaðist. Þá er komin heimsins besta sósa til að hafa með þessu.

Appelsínuquinoasallat
2 dl quinoa, soðið skv. leiðbeiningum á pakka ásamt 1 kanilstöng eða 1 stjörnuanís sem svo er tekin uppúr eftir suðu. (Ef þið eigið rautt quinoa þá er það sjúklega flott á litinn og extra gaman að nota það í þetta sallat)
1/2 lítill rauðlaukur, skorin í þunnar sneiðar
1 appelsína, afhýdd og "filéuð" (bátarnir skornir úr appelsínunni án þess að hýðið komi með), passa uppá að safinn af appelsínunni sé geymdur, kreista það sem eftir verður þegar búið er að skera bátana burt)
Smá persilja og salt.
Öllu blandað saman og borið fram með svínakjötsneiðunum og smá sósu.