Friday, April 28, 2006

Mangósalsa

Eldaði eftir uppskrift úr misgömlu Mannlífsblaði í gær. Sesamhúðaður lax með mangósalsa. Laxinn var frekar einfaldur en ekkert voða spes miðað við hversu miklar væntingar ég bar til þess sem borið var á laxinn áður en hann var settur inní ofn; mangóchutney !, sesamfræ, salt og pipar.
Hinsvegar fylgdi með dýrindis mangósalsa sem var alveg sjúklega gott og ég á definetly eftir að gera aftur með fisk eða grillmat.

Mangósalsa

1 þroskað mangó, skorið í teninga
1/2 rauð papríka og
1/2 græn papríka, skorið í passlega litla bita
1 rauðlaukur, saxaður
handfylli af basilíku, söxuð
salt og pipar
2 msk hvítvínsedik
1 msk olía
1 tsk hunang
(svo væri ábyggilega vert að prófa að setja saxað rautt chillí ÁN fræja til að spica þetta aðeins upp)

Monday, April 10, 2006

Brownies með meiru

Keypti mér bók í fyrra sem ég er búin að margnota. Ekki oft sem ég margnota uppskriftabækur sem innihalda meira eða minna kökur og annað gúmmelaði en þarna viðurkenni ég fyllilega ... að ég er fallinn.
Ansi mikið einfaldar uppskriftir þarna sem byggja oftast á sama magni af smjöri/sykri/hveiti/lyftidufti en svo bætist alltaf við einhvað lýmskulega gott stöff sem gerir verkið einstakt, bæði í útliti og bragði.
Vara við að þetta er ekki fyrir sykurviðkvæmt fólk ! Algjörar spariskúffur þarna á ferð !

Expresso Brownies (úr Brownies and Bars)
250 g smjör
500 g sykur
100 g dökkt súkkulaði
50 g hreint kakóduft
4 egg
100 g "self raising flour" (hveiti með lyftidufti í; fyrir 1 bolla af hveiti er 2 tsk af lyftidufti)
2 msk sterkt expresso kaffi
2 msk heilar kaffibaunir, malaðar gróft
Hita ofninn að 180 gráðum. Setja smjörið, sykur, súkkulaðið og kakóið í pott og hita á lágum hita, hræra stöðugt, þartil smjörið er bráðnað. Verður að þykkum, grófkorna legi sem er svo leyft að kólna. Hrærið eggin, eitt og eitt saman við súkkulaðiþykknið og hrærið svo hveitið og expressokaffið við.
Hellið í ofnskúffu (djúpa, 20 x 30 cm að stærð) og dreifið grófmöluðu kaffibaununum yfir deigið. Bakist í 25 til 30 mínútur eða þartil deigið er rétt nýfarið að verða fullbakað. Passa þarf vel uppá að ofbaka ekki... deigið á að vera "fudgy". Leyft að kólna í ofnskúffunni og skorið í hæfilega stóra bita. Geymt í loftþéttu íláti.

Súkkulaði, peru og macadamia-hnetu Brownies (úr sömu bók, sjá ofan)
250 g smjör
500 g sykur
100 g hreint kakóduft
4 egg
100 g "self raising flour" (hveiti með lyftidufti í; fyrir 1 bolla af hveiti er 2 tsk af lyftidufti)
2 þroskaðar en stinnar perur, afhýddar, kjarninn tekin úr og skornar í bita.
100 g macadamiahnetur, gróflega saxaðar
Hita ofninn að 180 gráðum. Setja smjörið, sykur og kakóið í pott og hita á lágum hita, hræra stöðugt, þartil smjörið er bráðnað. Verður að þykkum, grófkorna legi sem er svo leyft að kólna. Hrærið eggin, eitt og eitt saman við súkkulaðiþykknið og hrærið svo hveitið, perurnar og hneturnar við. Hellið í ofnskúffu (djúpa, 20 x 30 cm að stærð). Bakist í 25 til 30 mínútur eða þartil deigið er rétt nýfarið að verða fullbakað. Passa þarf vel uppá að ofbaka ekki... deigið á að vera "fudgy". Leyft að kólna í ofnskúffunni og skorið í hæfilega stóra bita. Geymt í loftþéttu íláti.

Monday, April 03, 2006

Pasta sem garanterar sumarfílinginn

Þessi uppskrift er frá sætabossanum honum Jamie Oliver. Ég reyndar tek mér alltaf bessaleyfi þegar ég þýði uppskriftir frá frummáli yfir á íslensku að staðfæra/uppfæra og breyta einsog ÉG geri uppskriftina sjálf (hlutföll verða kannski öðruvísi o.sfrv.). Þá vitiði það...
Það er algjörlega fyrirhafnarinnar virði að möndlast við tómatana í staðinn fyrir að nota tómata úr dós. Mar verður líka svo einstaklega sérstaklega stollt af sjálfri sér að nenna því.... og verðlaunast vissulega þegar bragðlaukarnir hefja sitt starf.

Pasta með rækjum og "sætri" tómatsósu
(Jamie´s Kitchen)
Fyrir allt að fjóra,
8 ferskir plómutómatar, mega alveg vera soldið þroskaðir en alls ekki grænir! (gengur alveg með venjulega tómata eða tómata úr dós)
salt og pipar
1 msk af smjöri
olívuolía 1 msk
300 gr. rækjur
1 hvítlauksrif
1 sítróna (safinn og börkurinn rifinn smátt utanaf)
koníakslurkur... ca 1 msk (má sleppa)
100 ml matreiðslurjómi (15% rjómi)
Tagliatelle pasta, magn eftir þörfum
handfylli af saxaðri ferskri persillu
Tómatarnir eru "blancheraðir" (hýðið tekið af)... sem er gert svona:
Maður sker í burtu kjarnann (sem er efstur)... þarf ekki að vera djúpur skurður... bara fara með hnífinn rétt hringinn í kringum kjarnan og fjarlægja hann í burtu. Skera léttan kross í botninn á tómatinum, krossinn verður að fara a.m.k. í gegnum hýðið á tómatinum. Vatn látið sjóða í potti og tómötunum skella útí í ca hálfa mínútu... þið sjáið þegar hýðið fer að losna aðeins af. Teknir uppúr einn í einu með skeið og látnir oní skál með köldu vatni. Svo getur maður tekið þá í hendina og einfaldlega togað hýðið af... losnar af einsog bananahýði ! Ógó sniðugt og miiiiklu betra en tómatar úr dós í svona rétti!
"Nakinn" tómaturinn er þá tekin og skorin í tvennt, fræin og það sem er innaní er tekið úr með skeið og hent svo það sé bara "kjötið" af tómatinum sem er eftir. Það er svo hakkað léttilega svo það verði í sæmilegum teningum. Voila !


Hitar pönnu og setur smjörið og olíuna á þartil orðið sæmilega heitt... steikir í nokkrar mínútur hvítlaukinn, sítrónubörkinn (smátt rifin á rifjárni!), rækjurnar og tómatana. Bæta við koníakinu (ef vill) og láta hitna aðeins í gegn. Bæta næst við rjómanum og láta malla í 2-3 mínútur. Bragðbæta með sítrónusafanum, salti og pipar (maður verður að smakka sig vandlega til... má ekki vera of mikill sítrónusafi og alveg slatti af salti)
Þessu er svo bætt við soðið pastað og hakkaðri persillu stráð yfir.

Saturday, April 01, 2006

Tvær "kjötbollu" uppskriftir

Byrja á að setja inn það sem ég átti hvort eð er á tölvutæku... þá er þetta þó allt á sama stað; HÉR ! :)
Báðar þessar eru gerðar með hakki en sú seinni mæli ég sterklega með að sé notað lambahakk ef það er til... bragðmeira og betra en venjulegt nautahakk. Margar af mínum uppáhalds hakkupskriftum eru einmitt úr lambahakki, lofa að bæta þeim við hér síðar.

Litlar kjötbollur í karrí og kóríander

(LagaLätt 2005)
fyrir fjóra
250 g frosið blaðspínat
400 g svínahakk
1 egg
1 tsk af eftirfarandi; cummin, malið kóríander, múskat, salt... og svo smá pipar líka
1 msk olía
2 tsk (eða meira ef þú vilt sterkt....) grænt currypaste
1 1/2 dl (lítil dós) létt kókosmjólk
1/2 teningur kjúklingakraftur + 2 dl vatn
smá maízenaþykkir... magn eftir smekk
3 msk hakkað ferskt kóríander eða eftir smekk...

Þíddu spínatið og leggðu það í sigti svo þú getir kreist úr því allt vatnið. Hakkaðu helmingin af því gróft.
Blandaðu hakkið með eggi, kryddunum og hakkaða spítaninu (helmingnum þ.e.a.s). Rúllaðu valhnetustórar bollur úr blöndunni.
Hitaðu pönnu með olíunni og brúnaðu bollurnar á öllum hliðum. Taktu þær svo uppúr pönnunni og á disk meðan þú.... setur karrípeistið í pönnuna og steikir það í cirka 1 mín, hræra allan tímann! Helltu svo í kókosmjólkinni og kraftinum og láttu það sjóða í nokkrar mínútur. Leggðu svo kjötbollurnar í sósuna ásamt salti, pipar og ef til vill aðeins meiru karrípeisti. Ef þig langar að hafa sósuna þykkari bætiru við smá maizenaþykki eða ljósum sósuþykkji.
Hrærðu að lokum í kóríanderinn saman við ásamt restinni af spínatinu. Gott að bera fram með hrísgrjónum eða núðlum.

Kofta Karrí bollur

(Healthy Cooking; a commonsence guide)
fyrir fjóra
500 gr hakk (lambahakk helst)
1 laukur, saxaður
1 hvítlauksrif, saxað
1 tsk ferskt engifer niðurrifið (það er snilld að eiga ferskt niðurrifið engifer í krukku inní ísskáp... endist lengi)
1 rautt chillí, saxað
1 tsk garam masala
1 tsk malið kóríander
1/4 bolli (25 g) möndlur, saxaðar (þessu má sleppa og verður engu verra)
2 tsk hakkað ferskt kóríander (má líka sleppa)
1 tsk salt
Blanda þessu öllu saman og gera valhnetustórar bollur sem eru svo steiktar á pönnu... þarf ekki að steikja alveg í gegn því sósan kemur svo...

1 msk olía
1 laukur, saxaður
2 msk Korma karrí paste (eða annað karrí paste m/bragði)
400 g hakkaðir tómatar í dós
1/2 bolli (125 g) jógúrt, t.d. tyrknesk eða matreiðslujógúrt
1 tsk lime safi
Hitaðu olíuna í potti á lágum hita, bættu við lauk og steiktu í nokkrar mínútur þartil mjúkur og gylltur. Bættu við karrípeistinu ásamt tómötunum og leyfðu að malla í 5 mín. Hrærðu við jógúrtina, 1 msk í einu, og limesafanum. Helltu sósunni yfir bollurnar á pönnunni og mallaðu á lágum hita með loki á pönnunni í cirka 20 mín.
Ferski kóríanderin stráð yfir áður en borið er fram með hrísgrjónum.