Sat uppi með smá rabbabara og var komin hálfa leið með að gera klassíska mylsnuböku (smulpaj) þegar ég rak augun í gamla úrklippu úr Gestgjafanum sem ég bara VARÐ að prófa strax næsta dag.
Í morgun bakaði ég því böku sem svo var borðuð með góðu salati í kvöld. Óhemjugott ! Á örugglega eftir að gera þessa í næsta saumó í staðinn fyrir heitan brauðrétt...
Baka með rabbabara, beikoni og brie
(úr Gestgjafanum)
Botninn:
125 g smjör
3,5 dl hveiti
2 msk kalt vatn
Öllu hnoðað saman (notaði matvinnsluvél) og þrýst út í smelluform eða eldfast mót. Pikka í botninn með gaffli og geyma í kæli í 30 mín. Forbakað svo í 15 mín við 200 gráður.
Fyllingin:
200 g beikon, steikt þartil stökkt og skorið í litla bita
1 stór laukur, skorin í þunnar sneiðar og steikt örlitla stund á sömu pönnu og beikonið (tekur bragð úr beikoninu... nammmm)
1 dós sýrður rjómi (notaði 35%)
3 egg
salt og pipar
150-200 g rabbabari, skorin í litla bita
1 brie ostur (150-200 g)
ferskt timjan
Beikoninu og lauknum raðað fyrst oní forbakaðan botninn. Sýrða rjómanum og eggjunum hrært saman og saltað og piprað. Þessu hellt ofan á beikonið og laukinn. Rabbabaranum svo dreift ofaná og brie osturinn skorinn í þunnar sneiðar og lagðar yfir herlegheitin. Fersku timjani dreift yfir og bakað svo við 200 gráður í 25-30 mín.
Wednesday, August 19, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment