Thursday, July 30, 2009

Jógúrtmaríneringar x 3

Rifjaðist upp fyrir mér í hreint yndislegu matarboði hjá góðum vinum hversu bragðgóður og meyr kjúklingur verður ef hann fær að marínerast í jógúrt áður en honum er skellt á grillið. Er búin að endurtaka all-oft (of oft ?) síðan þá og í gær toppaði ég allt með því að gera mína eigin útfærslu... og það úr óhemju góðri kókósjógúrt úr Willy´s !



Svo hér eru þrjár í uppáhaldi, aðferðafræðin er sú sama... öllu innihaldi blandað saman í poka, kjúklingurinn (annaðhvort heill, niðurbútaður eða bringur) látið ofaní og látið standa helst í kæli yfir nótt en í neyð má láta 30 min-2 klst við stofuhita nægja :



Nigellujógúrtmarínering (einnig þekkt sem Bromstensmaríneringin)

500 ml jógúrt
60 ml olía
2 heil hvítlauksrif, léttilega marin (ekki kreist, kramin eða skorin)
1 msk heil piparkorn, marin (eða aðeins minna úr kvörninni)
1 msk salt
1 tsk cummin
1 msk síróp (maple eða ahorn helst... ekki pönnukökusíróp)



Salvíumarínering
úr LagaLätt
500 ml jógúrt eða léttjógúrt
4 hvítlauksrif, kramin
15 fersk salvíublöð, saxað
1,5 tsk salt
smá pipar úr kvörn
2 msk olía



Beggumarínering

500 ml Kókosjógúrt (fæst frá Milko í Willys)
2 hvítlauksrif, kramin
salt og pipar
2 tsk Vindaloo kryddblanda (mín er frá Pottagöldrum).... ef bara fullorðnir eru að fara að borða má auka magnið allverulega
2 tsk sojasósa

Wednesday, July 22, 2009

Einfalt sumarpasta

Fyrir mörgum mörgum árum síðan eyddum við Ingó 2 vikum í Brussel. Sú borg er matgæðingshöfuðborg Evrópu. Dvalarlengdin þar er ekki talin í vikum, mánuðum eða árum heldur kílóum. Þar komumst við líka í fyrsta sinn í kynni við alvöru matvöruverslun á útlenska vísu sem bauð uppá allt sem hugurinn girndist; Carrefour.
Þó við færum mikið út að borða fannst mér næstum því alveg jafn gaman að fá að versla einhvað í matinn og elda í íbúðinni sem við vorum með í láni (frá elsku hjartans Brynju). Sá réttur sem helst stendur uppúr frá þessari ferð er einfaldasti og bestasti sumarforréttur í heimi... niðurskorin Buffalo-Mozzarella með tómötum, basilíku og olíu.

Í kvöld gerði ég pastarétt sem minnti óneitanlega á Brusseluppáhaldið okkar. 10 mín max að búa til, ágætt í sumarletihitanum ;)

Mozzarellapasta
Magnið er ca fyrir 3...

Sjóða slatta af pasta
2 hvítlauksrif, skorin í þunnar sneiðar
1 lítil askja af kokteiltómötum, skornir í tvennt
safinn úr 1/2 sítrónu
væn handfylli af ferskri basillíku
2 kúlur af mozzarellaosti
væææn handfylli af nýrifnum parmesanosti
slatti af furuhnetum

Mýkti hvítlaukinn aðeins uppúr olíu í djúpum potti. Skellti útí tómötunum og leyfði þeim aðeins að hitna, sítrónusafi útí og svo pastað. Svo barasta skellti ég útí restinni; reif aðeins niður basilíkublöðin, reif líka niður mozzarellakúlurnar í smá klípur, parmesanosturinn og furuhneturnar. Hrærasmá og leyfa aðeins að hitna í gegn.
Pipar og salt.
Easy.

Wednesday, July 08, 2009

Kjúklingasalat

Á sumarletidögum erum við aðeins duglegri við að kaupa tilbúinn grillaðan kjúkling og hafa í kvöldmat, losnar við að standa og steikja, og ekki er nú verra að það er ódýrara en að kaupa hráefnið og gera allt frá grunni :)
Og þá vill nú verða að maður eigi smá afgang af kjúklingakjötinu. Upplagt að búa til smá salat til að hafa oná brauð, tilvalið í pikknikk og alveg hrikalega gott.
Svíarnir kalla by the way svona salat "röra" eða hræru. Svona til þess að aðgreina frá grænu salati. Hvað ætli Íslenska samheitið á því yrði ? Kjúklingahræra hljómar dáldið furðulega....

Tek fram að þegar ég geri salatið fer ég ákaflega frjálslega með innihaldsmagnið en hérna er upprunalega uppskriftin einsog hún stendur handskrifuð í bókinni minni góðu ;

Kjúklingasalat
120 g kjúklingakjöt, skorið í bita
1/3 bolli bitaskorin paprika, gul eða rauð
2 msk ristaðar furuhnetur
1/4 bolli hrein jógúrt
3 msk létt mæjónes
1 tsk sítrónusafi
1 tsk ferskt basilíkum, saxað (ég nota "ferskt" úr frysti)
1/2 tsk aromat