Chowder er súpa. Munurinn á chowder og súpu er að sú fyrri er aðeins þykkari.
Fyrsta súpan sem ég prófa úr nýju bókinni minni "Soppor, bröd och röror" varð semsagt Cajun Chowder. Þrælamerísk skelfiskssúpa með cayennepiparkeim. Mjög góð og ferlega ólík þeim fiskisúpum sem ég hef gert áður.
Í uppskriftinni eru ferskvatnsrækjur (kräftor) sem eru vinsælar hérna í Svíþjóð en ég efast ekki um að góðar, heiðarlegar rækjur séu engu verri.
Cajun Chowder
fyrir 4 eða fleiri
1 laukur, saxaður
1 hvítlauksrif, kramið
2 msk olía
fingurgómaklípa af svörtum pipar
fingurgómaklípa af hvítum pipar
væn fingurgómaklípa af möldum kóríander
væn fingurgómaklípa af cayennepipar
1/2 tsk malin paprika
1 lítill sellerístöngull (sleppti þessu því ég nennti ekki að kaupa heilan selleríhaus)
1 dós saxaðir tómatar
2 dósir gulur maís
2 lítrar af grænmetiskraftsvatni (ég lét nægja 1 l því við vorum bara 2 fullorðnir)
ca 300 g sterk pylsa einsog t.d. Chorizo
1 dós krabbakjöt
100 g kräftor (rækjur)
2 dl matreiðslurjómi
salt
Laukurinn og hvítlaukur hitaðir uppúr olíunni örlitla stund. Kryddunum öllum bætt út í og leyft að taka sig aðeins saman. Saxaði sellerístöngullinn (ef notaður) lagður oní ásamt dósatómötunum, majs og grænmetiskraftsvatninu. Leyft að malla í 20 mín.
Þá má mixa súpuna. Höfundar bókarinnar lögðu til að þriðjungur af súpunni væri tekin uppúr og sléttmixað, bætt svo við restina. Ég dýfði nú bara töfrasprotanum mínum oní og blastaði á fullum krafti þartil mér fannst rétta þykkleikanum náð. Það eiga nefnilega að vera smá bitar í súpunni, hún á ekki alveg að vera sléttmixuð.... þú prófar þig áfram ;)
Sterka pylsan er skorin í bita og bætt við oní súpuna ásamt krabbakjötinu, rækjunum og rjóma. Látið hitna í gegn og smakkað til með salti.
Við hjónin erum soddan chillíelskendur að okkur fannst cajunpiparinn ekki alveg gefa nógu gott kikk svo við helltum Tabasco frjálslega oní súpudiskana okkar.
Núna bíður smá afgangur af þessari góðu þykku súpu inní ísskáp og ég er alveg handviss um að hún eigi eftir að verða betri svona dagsgömul.... mmm.
Thursday, April 30, 2009
Sunday, April 26, 2009
Eplabrauð á 5 mín
Skellti í eitt stykki eplabrauð hérna í morgunsárinu sem ég ætla svo að njóta með hádegismatnum (sem verður skærgræn og fín grænbaunasúpa með pestói). Kom mér á óvart hvað ég var fljót að henda í þetta þarna oní hrærivélaskálinni og mér til mikillar ánægju var ekkert ger í þessu brauð (ég á mjög erfitt með að nota ferskt ger áður en það rennur út og litla sem enga þolinmæði í að láta það lyfta sér heldur).
Brauðið er svo troðfullt af góðum hlutum einsog spelti, jógúrt, hörfræjum og eplum. Gerist varla betra ;)
Eplabrauð
1 hleifur
2 dl haframjöl (já, einsog mar gerir graut úr)
2,5 dl spelt, fínmalað
2,5 dl spelt, grófmalað
0,5 dl hörfræ
0,5 dl sólrósakjarnar
1 tsk salt
2 tsk bikarbonat/natron
Öllu þessu er blandað saman í hrærivélaskál eða barasta skál ef þú ætlar að handhræra... sem er vissulega óflókið og gaman ef mar vill vera extra húslegur.
1 grófrifið epli
1 msk hunang, fljótandi
4 dl óbragðbætt naturell jógúrt
Þessu blandað saman í sérskál og svo saman við þurrefnin að ofan. Hræra þartil allt blandað saman og hella í vel smurt og "bröað" (ég átti ekki brauðmylsnu svo ég notaði kókosmjöl) brauðform. Baka við 175 gráður neðarlega í ofninum í 80 mín.
Thursday, April 16, 2009
Rúgbrauðsterta með rjóma
Las gömul Gestgjafablöð um páskana og um leið og ég sá uppskriftina að RÚGBRAUÐS-tertu þá bara varð ég að prófa. Hverjum datt þetta eiginlega í hug ?! Rúgbrauð með rjóma á ? En þetta kom þvílíkt á óvart og varð alveg óheyrilega gott.
Uppskriftina er að finna hér. Reyndar var hún pínu öðruvísi í Gestgjafanum því þar voru eggjarauðurnar þeyttar sér með sykrinum, eggjahvíturnar stífþeyttar og þær svo látnar út í deigið síðast. Botnarnir voru bakaðir í 3 smelluformum en næst myndi ég láta 2 nægja... í 3 urðu botnarnir óþarflega þunnir. Þeyta svo pela af rjóma með rifnu suðusúkkulaði í til að setja á milli.
Þjóðlegt með meiru !
Uppskriftina er að finna hér. Reyndar var hún pínu öðruvísi í Gestgjafanum því þar voru eggjarauðurnar þeyttar sér með sykrinum, eggjahvíturnar stífþeyttar og þær svo látnar út í deigið síðast. Botnarnir voru bakaðir í 3 smelluformum en næst myndi ég láta 2 nægja... í 3 urðu botnarnir óþarflega þunnir. Þeyta svo pela af rjóma með rifnu suðusúkkulaði í til að setja á milli.
Þjóðlegt með meiru !
Lemon curd - sítrónukrem
Bjó til eigið sítrónukrem um páskana sem ég setti svo í sítrónupæj með berjamarenstoppi. Sjálft pæjið var ákaflega fallegt en lak dálítið þegar það náði stofuhita og það var búið að skera nokkrar sneiðar í burtu. En sítrónukremið ! Ó sítrónukremið... það var megagott. Var svo heppin að kremið varð meira en reiknað var með svo ég eignaðist þarna skyndilega nokkrar krukkur í afgang ;) Það var prófað oná ristað brauð, með nýbökuðum brauðbollum, með ferskum jarðaberjum og amerískum brunchpönnukökum. *smjatt*
Nú svona eftirá þegar ég fór að skoða hversu lengi þetta geymist þá er sagt "vika í ísskáp" og þá er nú kannski eins gott að búa bara til lítinn skammt við extra góð tilfelli enda er þetta nú ekki beint hollt... en þeim mun betra ;)
Lemon curd
einn lítill skammtur
3 sítrónur
1,5 dl sykur
50 g smjör
2 msk maizenamjöl
2 heil egg
2 eggjarauður
Fínrifinn börkur af 3 sítrónum sett í pott ásamt safanum af 2 sítrónum, allur sykurinn og smjörið líka. Hitað þartil sykurinn er búin að leysast upp. Börkurinn siktaður frá og vökvinn settur aftur í pottinn.
Maizenamjölið er hrært út í safann af síðustu sítrónuninni og að lokum hellt út í pottinn.
Svo kemur mest spennandi hlutinn !
2 heil egg og 2 eggjarauður eru hrærðar saman léttilega. Sett út í heitan/volgan vökvan í pottinum smám saman og hrært stöðugt í á meðan. Þegar öll eggin eru komin út í má hita við vægan hita aftur, hræra stöðugt í og bíða eftir að þykkni. Þetta ætti að þykkna á nokkrum mínútum. Fyrir þá sem vilja fara enn varlegar að þessari aðferð má gera þetta yfir vatnsbaði en þá nær maður að stjórna hitanum enn betur en þegar kremið er ofan í potti.
Svo er þykku kreminu hellt í hreinar krukkur og látið stífna inni í ísskáp.
Gott með öllu !
Subscribe to:
Posts (Atom)