Gerði bestasta steikta fisk í heimi núna áðan. Hef veigrað mér við að steikja fisk hérna í Svíþjóð vegna þess að a) gæðin á fiski hér eru ekkert til að hrópa húrra yfir og b) ég átti ekki til almennilegt rasp... þetta ofurbragðbætta í bláu pökkunum er bara til á Íslandi nefnilega.
En nú varð breyting á. Á nefnilega ágætis skammt af frystri íslenskri ýsu sem mamma ferjaði með sér í ferðatöskunni síðastliðið haust. Og svo rakst ég á skemmtilega uppskrift í gömlu Mama blaði þar sem bara er notast við mulið kornfleks til að velta fiskinum uppúr. Bráðsniðugt, auðvelt og sjúklega gott. Tala nú ekki um "hollu" remúlaðisósuna sem inniheldur bæði epli og súrar gúrkur ;)
Mig rámar í að hafa rekist á mjög svo svipaða uppskrift hjá Halldóru en þá var fiskurinn ofnbakaður og einhvað meira með kornfleksinu.... hún kannski kann betur skil á því. Ég eldaði eftir hennar leiðbeiningum fyrir langalöngu síðan en týndi svo uppskriftinni. Halldóra, ef þú lest þetta kommenteraðu þá endilega til að hafa smá viðmiðun og aðra útfærslu !
Kornfleksfiskur
Ýsa eða annar hvítur fiskur, magn sem mettir fjölda kvöldmatargesta
1 egg, hrært
kornfleks, mulið með höndunum
salt og pipar
smjör
Allir ættu nú að kunna aðferðina; velta fiskbitunum fyrst uppúr eggjahrærunni og svo uppúr kornfleksinu svo komi hjúpur á fiskinn. Salta og pipra og steikja uppúr smjöri. Ég var með frekar þykk stykki svo ég leyfði þeim aðeins að fullsteikjast inní ofn við 200 gráður, cirka 10-15 mín.
Remúlaðisósan;
1 dl léttmæjónes
1 dl sýrður rjómi, skyr, hrein jógúrt eða hvað sem er til í ísskápnum. Sjálf notaði ég tyrkneska jógúrt sem er hvít og þykk hrein jógúrt.
3/4 dl af hakkaðri súrri gúrku
1/2 rautt epli, skorið í litla bita (mér fannst reyndar að það hefði mátt vera meira epli)
salt og pipar
Öllu blandað saman og leyft að standa aðeins inní ísskáp til að "ná áttum" ;)
No comments:
Post a Comment