Monday, January 26, 2009

Kjúklingapottréttur með karabísku ívafi

Vá hvað ég á aldrei aftur eftir að kaupa svona Madhur Jaffrey/Uncle Ben´s tilbúnar dósasósur. Aldrei aftur !!
Þessa uppskrift reif ég úr einhverju gömlu Gestgjafablaði, magnið var miðað við 10-15 en ég minnkaði bara niður svo myndi samsvara minni fjölskyldu. Við átum yfir okkur og svo átti ég smá í box fyrir hádegið daginn eftir.

Kjúklingapottréttur með kókos og mangó
(tekið úr Gestgjafanum, magni breytt til að hæfa 4)

Kjúklingabringur sem nægir fyrir 4, skorið í teninga
1 lítill laukur
2 hvítlauksrif, kramin
1 msk engifer, ferskt, rifið (ég nota úr dós)
1 tsk kóríanderduft
1 dós kókosmjólk
1 dós niðursoðnir saxaðir tómatar, safinn siktaður frá... eða meirihlutinn af honum allavega
1 mangó, ferskt (eða frosið) og skorið í bita
1 -2 msk saxað jalepeno úr dós
ferskt kóríander
ristað kókosmjöl (ég notaði kókosflögur því þær eru svo stórar og girnilegar en sleppti því að rista)

Steikja kjötbitana í smá olíu og leggið til hliðar. Steikið svo saxaðan laukinn uppúr smá olíu þartil mýkist og bætið við hvítlauknum, engiferinum og kóríanderduftinu. Kókosmjólkinni hellt útí og leyft að hitna aðeins. Svo á að setja í matvinnslusvél og mixa maukið slétt. Ég skellti náttlega bara töfrasprotanum oní pottinn ;)
Síðan er kjúklingurinn settur útí maukið og látið malla smástund. Ég leyfði þessu að malla í alveg hálftíma bara afþví ég hafði nægan tíma en ætli það sé ekki nóg að hafa það rétt nægilega lengi svo kjúklingabitarnir séu fulleldaðir (15 min). Salta og pipra. Í blálokin bætti ég við ferskum kóríander, mangóbitunum og jalepenoinu. Athugið ! Ef maður er að gera fyrir börn er náttlega best að setja jalepeno útí EFTIR að maður er búin að taka frá barnaskammtana... að öllu öðru leyti er þetta ekkert sterkt.

Bar fram á disk með hráhrísgrjónum (brúnum hrísgrjónum) og drussaði yfir kókosflögunum/mjölinu.

Tuesday, January 20, 2009

Kornfleksfiskur með ágætlega hollri remúlaðisósu


Gerði bestasta steikta fisk í heimi núna áðan. Hef veigrað mér við að steikja fisk hérna í Svíþjóð vegna þess að a) gæðin á fiski hér eru ekkert til að hrópa húrra yfir og b) ég átti ekki til almennilegt rasp... þetta ofurbragðbætta í bláu pökkunum er bara til á Íslandi nefnilega.
En nú varð breyting á. Á nefnilega ágætis skammt af frystri íslenskri ýsu sem mamma ferjaði með sér í ferðatöskunni síðastliðið haust. Og svo rakst ég á skemmtilega uppskrift í gömlu Mama blaði þar sem bara er notast við mulið kornfleks til að velta fiskinum uppúr. Bráðsniðugt, auðvelt og sjúklega gott. Tala nú ekki um "hollu" remúlaðisósuna sem inniheldur bæði epli og súrar gúrkur ;)
Mig rámar í að hafa rekist á mjög svo svipaða uppskrift hjá Halldóru en þá var fiskurinn ofnbakaður og einhvað meira með kornfleksinu.... hún kannski kann betur skil á því. Ég eldaði eftir hennar leiðbeiningum fyrir langalöngu síðan en týndi svo uppskriftinni. Halldóra, ef þú lest þetta kommenteraðu þá endilega til að hafa smá viðmiðun og aðra útfærslu !
Kornfleksfiskur
Ýsa eða annar hvítur fiskur, magn sem mettir fjölda kvöldmatargesta
1 egg, hrært
kornfleks, mulið með höndunum
salt og pipar
smjör
Allir ættu nú að kunna aðferðina; velta fiskbitunum fyrst uppúr eggjahrærunni og svo uppúr kornfleksinu svo komi hjúpur á fiskinn. Salta og pipra og steikja uppúr smjöri. Ég var með frekar þykk stykki svo ég leyfði þeim aðeins að fullsteikjast inní ofn við 200 gráður, cirka 10-15 mín.
Remúlaðisósan;
1 dl léttmæjónes
1 dl sýrður rjómi, skyr, hrein jógúrt eða hvað sem er til í ísskápnum. Sjálf notaði ég tyrkneska jógúrt sem er hvít og þykk hrein jógúrt.
3/4 dl af hakkaðri súrri gúrku
1/2 rautt epli, skorið í litla bita (mér fannst reyndar að það hefði mátt vera meira epli)
salt og pipar
Öllu blandað saman og leyft að standa aðeins inní ísskáp til að "ná áttum" ;)

Tuesday, January 13, 2009

Gulrótarsúpa með stælum

Það er að mallast gulrótarsúpa í pottinum hjá mér.... skemmtileg uppskrift sem ég rakst á í nýjasta eintaki LagaLätt og bara varð að prófa. Fyrir utan það að hún er sprengfull af vítamínum koma þarna við sögu lime, cummin, engifer, kókosmjólk og sítrónugras !
Ef öllu er sleppt ef þetta samt góð basic gulrótarsúpuuppskrift en fyrir þá sem óhræddir eru má fara alla leið ;)

Gulrótarsúpa

1 laukur, saxaður
smá olía
800 g gulrætur, skornar í hæfilega litla bita og jafnvel skrældar ef hýðið er ljótt
1 líter vatn með kjúklingakrafti
2 þurrkuð limeblöð (til í poka frá Blue Dragon og heitir "kafir Lime leaves")
1 sítrónugras sem búið er að banka á til að leysa úr læðingi bragðið (þetta er svona harður stilkur, já eiginlega bara í útliti einsog lítið prik... má alveg sleppa)
smá salt
1 dós léttkókosmjólk

Laukurinn saxaður og mýktur uppúr heitri olíu í pottinum. Gulrótum, sítrónugrasi og limeblöðum bætt við og vatn með krafti hellt í. Leyft að sjóða þartil gulræturnar eru mjúkar. Saltað. Limeblöðin og sítrónugrasið veitt uppúr. Súpan mixuð með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Kókosmjólkinni bætt við og leyft að hitna vel í gegn.

Og svo lokatilþrifin;
2 dl tyrknesk jógúrt (bragðlaus þétt jógúrt... svipuð og skyr eða Óskajógúrt)
1 tsk cummin
1 msk olía
salt og pipar
Öllu blandað saman og leyft að standa inní ískáp smástund.

Súpan er svo sett saman á eftirfarandi hátt;
Í botninn á súpuskál er sett strimlur af niðursoðnum engifer (fæst í glerkrukku.. má sleppa) og jafnvel smá kóríander. Súpunni hellt í skálina og smá sletta af cumminjógúrt ofaná.