Tuesday, November 18, 2008

Úti á grænni grundu.... fiskur með ruccolapesto (GI)


Ég fékk næstum því heimþrá til Íslands þegar ég sá litasprengjuna sem samanstóð af kríthvítri íslenskri ýsu þakinni heimagerðu ruccolapestói. Fór að kyrja ættjarðarlög og hljóp svo og náði í myndavélina til að festa augnablikið á (digital) filmu.
Eftir veruna í ofninum tapaðist nátturulega aðeins af þessum skærgræna lit en var nú samt alveg óheyrilega fallegt á diskinum með baunasalatinu. Feikna hollt og feykilega gott.

Posted by Picasa


Hvítur fiskur með heimalöguðu ruccolapestó

600 g hvítur fiskur að eigin vali. Ég notaði íslenska ýsu sem ég átti í frystinum... mmm

50 g ruccolasalat
50 g furuhnetur, brúnaðar á heitri, þurru pönnu
1 dl parmesanostur
3 msk olía
Þessu er mixað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota þartil orðið að fallegu skærgrænu mauki.

Fiskurinn er lagður í ofnskúffu/fat, saltaður, pipraður og pestóinu smurt ofaná. Eldaður í 200 gráðu heitum ofni í 15-20 mín.

Bar þetta fram með baunasalati (GI-style) sem samanstóð af (ath! magnið miðast við salat fyrir einn); 1 lítil dós stórar hvítar baunir, hálfu avocadoi, smá niðurskornum rauðlauk og slettu af hvítvínsediki, olíu og salti+pipar.




Saturday, November 08, 2008

Jólagjöfin (og jólaföndrið) í ár...

Heimagert konfekt í heimagerðri öskju !

Gerist það betra ?

Í fyrra gerði ég æðislega góða sultu sem sló nátturulega í gegn hjá þeim sem voru nógu heppin að fá svoleiðis í jólagjöf frá mér... en þetta árið langar mig að dútla aðeins meira. Og þá meina ég töluvert mikið meira. Ekki nóg með að ég ætli að búa til smá konfekt heldur ætla ég líka að brjóta saman gjafaöskju fyrir hvern og einn.

Myndin er úr Elle Mat och Vin og ég ætla að gera tvær týpur sem þar er að sjá. Innihaldslýsing og uppskrift er hér. Svo er ég líka pínu heit fyrir að gera svona fylltar konfektdöðlur líka... sjá hér.

Ég er búin að sitja og æfa mig í að búa til öskjurnar. Það er alveg ferlega auðvelt ef maður bara er með réttan pappír og góða reglustiku til að fá öll brotin fín. Brotalýsingin er hér.