Ég fékk næstum því heimþrá til Íslands þegar ég sá litasprengjuna sem samanstóð af kríthvítri íslenskri ýsu þakinni heimagerðu ruccolapestói. Fór að kyrja ættjarðarlög og hljóp svo og náði í myndavélina til að festa augnablikið á (digital) filmu.
Eftir veruna í ofninum tapaðist nátturulega aðeins af þessum skærgræna lit en var nú samt alveg óheyrilega fallegt á diskinum með baunasalatinu. Feikna hollt og feykilega gott.
Hvítur fiskur með heimalöguðu ruccolapestó
600 g hvítur fiskur að eigin vali. Ég notaði íslenska ýsu sem ég átti í frystinum... mmm
50 g ruccolasalat
50 g furuhnetur, brúnaðar á heitri, þurru pönnu
1 dl parmesanostur
3 msk olía
Þessu er mixað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota þartil orðið að fallegu skærgrænu mauki.
Fiskurinn er lagður í ofnskúffu/fat, saltaður, pipraður og pestóinu smurt ofaná. Eldaður í 200 gráðu heitum ofni í 15-20 mín.
Bar þetta fram með baunasalati (GI-style) sem samanstóð af (ath! magnið miðast við salat fyrir einn); 1 lítil dós stórar hvítar baunir, hálfu avocadoi, smá niðurskornum rauðlauk og slettu af hvítvínsediki, olíu og salti+pipar.