Eftir allt tilheyrandi og bráðnauðsynlega ofát stórhátíðarinnar fannst mér við hæfi að bjóða uppá fiskisúpu á nýársdag. Við átum nú barasta samt yfir okkur af henni ! Enda rjómi og fleiri góðir hlutir í henni sem núlluðu út hollustuna í fiskinum ;) En mikið rosalega var hún góð.... öll indversku-thailensku kryddin voru hreint yndisleg með góða íslenska fiskinum. Heiti því að prófa hana heima í Svíþjóð líka og gá hvort hún sé jafn góð með "útlenskum" fiski. Hrikalega þæginleg uppskrift til að gera fyrirfram, gerði súpuna sjálfa um morgunin og skellti svo bara fiskinum í korteri áður en við ætluðum að borða hana.
Fiskisúpa kokksins (örugglega birt í Fréttablaðinu, des 2007, hlekkur líka hér ef þú villt sjá uppskriftina í upprunalegri mynd og án minna kommenta)
(Fyrir 6-10)
Tekur 30 mínútur að undirbúa. Líka góð daginn eftir.
150 g lúða
150 g ýsa (ég tvöfaldaði magnið af fiskinum, bæði ýsu og lúðu)
150 g rækjur
150 g hörpudiskur (má sleppa og ég sleppti því)
Mikilvægt að setja rækjurnar í eftir að slökkt er á pottinum eða hafa aðeins 1-2 mínútur á gashellu.
3 hvítlauksrif
3-4 gulrætur sneiddar
1 stk. laukur, saxaður
1 rauð paprika, söxuð
1 græn paprika, söxuð
1 dós tómatpuré
1 dós niðursoðnir tómatar
2½ dl vatn (ég þurfti að auka allverulega vatnsmagnið en það gerði ég í lokin þegar ég sá hvað hún varð þykk, fer eftir smekk býst ég við)
1 teningur fiskikraftur
½ teningur hænsnakraftur
1 tsk. tandoori masala (fann ekki þetta krydd heldur bara krydd sem hét Tandoori)
¼ tsk. karrí
¼ tsk. hvítur pipar
6 sólþurrkaðir tómatar sneiddir
4 msk. mango chutney
1 dl sæt chilisósa
500 ml matreiðslurjómi
Byrja á að hita eina matskeið af olíu í pottinum og brúna þrjú hvítlauksrif sem búið er að merja með hnífsblaði og skera niður. Tekið af hitanum og sett í skál. Brúna síðan í sama potti gulræturnar, laukinn og paprikurnar í tveimur matskeiðum af olíu. Þá er bætt í tómatpuré, niðursoðnu tómötunum, vatni, fiskikrafti, hænsnakrafti, tandoori masala, karríi og hvítum pipar. Nú strax á eftir eru sólþurrkuðu tómatarnir sneiddir niður og mango chutney, sætu chilisósunni og matreiðslurjómanum bætt við. Möluðum svörtum pipar bætt við eftir smekk og látið sjóða niður í um það bil fimmtán mínútur. Þá er slökkt undir pottinum. Þegar borðhaldið fer að nálgast er vermt undir pottinum og fiskurinn (allur nema skelfiskurinn) settur út í og beðið eftir suðunni. Gott að nota lúðu, ýsu eða búra. Skelfiskur eins og rækjur, hörpudiskur eða humar er settur út í þegar potturinn er tekinn af hellunni. Látið standa í fimm mínútur. Borið fram með nýju brauði. Smátt skorinni steinselju er sáldrað yfir.
Tuesday, January 01, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment