Tuesday, May 16, 2006

Örbylgjurisotto

Vissiru að það væri hægt að gera risotto í örbylgju ? Ekki ég heldur... fyrr en fyrir stuttu... og varð hissa á hversu auðvelt og gott þetta er. Minnkar fyrirhöfnina á matreiðslunni til muna ;)

Fljótgert tómata risottó (úr Good Food, maí 2006)

250 g risotto hrisgrjón (Arborio til dæmis)
1 laukur, fínsaxaður
50 g smjör
140 ml grænmetiskraftsvatn
500 ml passata (fínmaukaðir tómatar, einskonar þykkur tómatasafi)
500 g kirsuberjatómatar
100 g mozzarellakúla, skorin eða rifin í stóra bita
rifin parmesanostur eftir smekk ásamt ferskri basilíku

Blandið saman í örbylgjuheldri skál grjónunum, lauknum og helmingnum af smjörinu. Setjið á lok (eða plastfilmu þétt) og hitið í örbylgjuofninum á hæstu stillingu í 3 mínútur. Hrærið við kraftinum ásamt passatainu og haldið áfram að hita í örbylgjunni án loks/filmu í 10 mín. Hræra vel aftur og blanda við ferskum tómötunum og mozzarellaostinum. Öbba aftur í 8 mínútur eða þartil hrísgrjónin eru orðin alveg passlega "soðin". Þarf kannski að bæta við nokkrum mínútum ... fer eftir styrkleika örbylgjuofnsins.
Þá mega grjónin slaka á í nokkrar mínútur og blanda svo við restinni af smjörinu, parmesaninu og basil. Salta og pipra að lokum.

Tuesday, May 09, 2006

Meðlætissalat með perum

Móðir mín elskuleg bauð okkur uppá þetta um páskana ásamt geggjuðum kjúlla (sem ég á eftir að prófa og gefa svo uppskriftina hingað inn). Ég hermdi svo og bauð uppá þetta um helgina ásamt íslenskum grilluðum lambalærissneiðum. Súperdúpergott og á pottþétt eftir að vera endurtekið oft í sumar með grillmatnum.

Perusalat með gráðaosti
(hlutföllin fara eftir smekk finnst mér)
Perur, afhýddar og úrkjarnaðar, skornar í hæfilega stóra báta
Steiktar uppúr smá smjöri þartil mjúkar en samt ekki farnar að detta í sundur.

Spínat sett í skál og olíu, sítrónusafa, salti og pipar blandað við.

Furuhnetur þurrsteiktar á pönnu.

Nachos snakk með chillíbragði brotið í litla bita... cirka lúkufylli eða meira eftir smekk.

Gráðaostur mulin í bita.

Öllu blandað saman og vessegú !!

Tuesday, May 02, 2006

Banana who ?

Elska banana í mat; bananakökur og bananabrauð er æði !
Þessar tvær eru favvó og endurteknar á víxl á þessu heimili;

Bananahleifur (úr Good Food, apríl 2004)
p.s. ! má frysta !
100 g smjör
140 g ljós muscavado sykur
2 egg
3 þroskaðir bananar, maukaðir (cirka 450 g)
50 g pecan hnetur
50 g rúsínur
150 ml "buttermilk" (ég nota gräddfil hérna í Svíþjóð, ætli súrmjólk/ab mjólk myndi ekki ganga líka!)
250 g hveiti
1 tsk matarsódi

Hita ofn í 160 gráður f. blástursofn, 180 gráður venjulegan. Smyrja aflangt jólakökuform og setja bökunarpappír í botninn einungis.
Hræra vel saman sykur og smjör þartil ljóst og kremkennt. Bæta við eggjum, einu í einu... gerir ekkert til ef það virðist verða kekkjótt. Bæta svo við maukuðum bönunum, hnetum, rúsínum og gräddfil/súrmjólk. Hveitið er siktað í ásamt matarsódanum og blandað varlega ("fold") saman við, passa vel uppá að ofhræra ekki ! Þessu er svo hellt í formið og bakað í cirka 1 klst og 15 mínútur.

Banana og pekanhnetuskúffukaka (Brownies and bars)
200 g smjör
200 g sykur
3 egg
200 g "self raising flour" (2 tsk lyftiduft fyrir hvern bolla af hveiti)
2 þroskaðir bananar
150 g pecan hnetur, gróflega saxaðar
Hita ofn í 180 gráður. Hræra vel saman smjöri og sykri (þartil kremkennt) og bæta svo við eggjunum einu í einu. Hræra hveitinu varlega saman við ("folda"). Bananar og hnetur hrærðar varlega við í lokin. Hella í smurt form (djúpt, 20x30 cm) og baka í cirka 25 mínútur. Kælt og skorið í hæfilega stórar sneiðar. Geymt í loftþéttu íláti.