Sunday, September 27, 2009
Birkirúnstykki
Brauðbakstur er sko nýja trendið hjá mér þessa dagana. Er búin að birgja mig upp af bæði fersku geri og þurrgeri til að geta seðjað hef-þörfina mína. Fyndið að segja frá því en ég er búin að finna alveg æðislegan hef-stað í eldhúsinu mínu. Í þeim íbúðum sem ég hef átt heima í hefur þessi staður oft verið í baðherberginu ef þar er gólfhiti eða uppvið stofuofn. Ágætt að hafa smá svona hlýju í gangi. Hér er hinsvegar engin gólfhiti og ofnarnir ekki í gangi á sumrin svo það er vandfundin hlýr hefunarstaður. Þartil mér datt í hug að prófa eldhússkápinn fyrir ofan frystirinn ! Augljóslega gefur frystirinn frá sér svona fína hlýju því þarna uppi hefast mjög vel. Og hrærivélaskálin kemst alveg akkúrat fyrir þarna.... fullkomið alveg.
Í dag eru semsagt birkirúnstykki á dagskrá. Fann uppskrift sem mér leist vel á en fannst bara magnið vera dáldið vel mikið svo ég helmingaði það. Notaðist við þetta:
25 g ger (hálfur pakki af fersku sænsku)
25 g smjör
3,5 dl vatn
1/2 egg (sló eggið með gaffli í skál og cirkaði svo bara á helmingin... hinn helmingurinn geymdur til að pensla rúnstykkin með áður en þau fara inní ofn)
1/2 tsk salt
1/2 tsk sykur
500 g hveiti
Gerið mulið oní skál, smjörið brætt í potti og vatninu blandað saman við, velgt þartil fingurhita er náð (37 gráður, mér finnst ágætt að nota hitamæli.. kjöthitamælir virkar líka á vökva ;)). Hellt yfir gerið svo það leysist upp í vökvanum.
Hnoðað í vél ásamt hveitinu og sykrinum. Hálfa egginu bætt við og unnið aðeins áfram og að lokum saltinu. Það eru víst einhver bakaravísindi sem segja að saltið eigi að fara síðast í þegar deigið er búið að vinnast aðeins saman.
Hnoðað hressilega í 10 mín, 15 mín ef maður er að handhnoða.
Deigið er núna dáldið klístrað og blautt en það er í góðu lagi. Á ekkert að "sleppa skálinni". Setti plastfilmu yfir skálina og tvöfalt viskustykki. Látið hefast á hlýjum og góðum stað í 30-45 mín eða þartil uppblásið og tvöfalt í stærð.
Handhnoðað á vel hveitistráðu borði en þó ekki svo mikið að það tapi léttleikanum. Maður á bara rétt að kasta það milli handa sér svo maður geti handleikið það. Skipt í þrennt og hverjum bita aftur í 5 bita. Bollur rúllaðar með léttum handahreyfingum (gott að hafa mikið hveiti á höndunum) og settar á bökunarplötu. Látið hefast aftur í 20-30 mín.
Penslað með eggi og birkifræjum (vallmofrö) stráð yfir.
Bakað í 225 gráðu heitum ofni í 15 mín.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment