Sunday, September 20, 2009

Apríkósubrauð með furuhnetum

Núna þegar ég er í mínu gjöfula og frjósama ástandi virðist ég leikandi létt geta bakað brauð sem lyfta sér og hefast einsog þau eigi lífið að leysa. Og ekki verður útkoman bragðvond heldur.

Ég lagði í þetta brauð rétt eftir hádegi og leyfði því að hefast alveg til kl 4. Kannski þess vegna sem það hafi lyft sér svona vel ? ;) Var svo borðað með rauðbeðusúpu kvöldsins.

Apríkósubrauð með furuhnetum

1 dl þurrkaðar apríkósur, lagðar í bleyti í þónokkra stund... gjarna nokkra klukkutíma en mér lá á svo ég lét hálftíma nægja

1/4 pakki ger (1 heill pakki hvort sem er þurrger eða ferskt er oftast 50 g)
3,25 dl volgt vatn
2 tsk salt
8 dl hveiti + 1/2 dl eða meir til að hnoða úr
1 dl furuhnetur

Gerið leyst upp í volgu (37 gráður) vatninu og salti og hveiti bætt við. Hnoðað 10 mín í hrærivél eða 15 mín í höndunum. Apríkósurnar teknar uppúr vatninu og saxaðar gróft. Þeim ásamt furuhnetunum þarf síðan að handhnoða í deigið, nota afganginn af hveitinu til þess að fá deigið lipurt í höndunum á manni. Má samt alveg vera dálítið blautt þegar það fer í skálina aftur svo ekki ofhnoða neitt.
Látið lyfta sér í minnst 1 klst eða þartil tvöfaldast í stærð.

Tekið uppúr skálinni og formaður 1 vænn hleifur, takið skæri og klippið rifur í hleifinn hér og þar ("kottar" kallast það á sænsku). Látið lyfta sér aftur í hálftíma.
Ofninn hitaður í 250 gráður. Brauðið sett inn í og smá vatni skvett eða spreyað inní ofninn rétt áður en hurðinni er lokað. Lækkað niður í 200 og bakað í 30-35 mín eða þartil brauðið er orðið gyllt á litinn og fullbakað (holt hljóð heyrist þegar það er bankað í það).

Að sjálfsögðu er þetta brauð alveg ótemjandi gott með smá smjöri oná ;)
Posted by Picasa

No comments: