Thursday, January 24, 2008

Tómatsúpa og hrað-hefaðar brauðbollur

Fór í ICA um daginn að kaupa einhvað smáræði. Í grænmetistorginu var stór rúlluvagn hlaðin tilboðsvörum. Þar á meðal 1,5 kíló af plómutómötum á tíkall. Jáh... tíkalll (sænskar) !
Voru akkúrat vel þroskaðir og alveg tilvaldir í súpugerð.
Lagðist í rannsóknarvinnu og fann miljón og eina aðferð við að gera tómatsúpu. Letin rak mig frá því að gera súpur sem þurfti að hita, endurhita, sigta, sía og kæla svo aftur... átakið mitt og nýársheit rak mig frá því að gera rjómasúpu eða súpu með massamikið af eggjarauðum (a´la Jamie Oliver elskulegur) svo ég endaði á því einfaldasta. Og mikið svaðalega var hún góð ! Engu síðri daginn eftir heldur og skammturinn varð svo passlega stór að ég náði meira að segja að frysta einn skálarskammt.

Einfaldasta tómatsúpa í heimi
fyrir guðmávita hvað marga
1 laukur
2 hvítlauksrif - olía hituð í potti og laukunum leyft að svitna í nokkrar mínútur.
1,5 kíló af gróft söxuðum plómutómötum bætt útí og leyft að malla cirka 35 mínútur
Mixað með töfrasprota þartil orðið að sléttu súpumauki.
Kryddað að vild, ég setti vel af salti, pipar og ogguskonsu grænmetiskrafti.
Bar fram í djúpum skálum og setti smá lófafylli af rifnum osti út í hverja skál.

Hraðhefuðu brauðbollurnar voru svo algjört delish með. Líka svo sætar í muffinsformum ;) ATH ! brauðið festist dáldið við muffinsformin, sérstaklega nýbökuð en það á alveg að vera hægt að setja deigið í vel smurt og brauðmylsnuþakin muffinsformabakkann (eiga ekki örugglega allir svona muffinsformaplötu, með 12 muffinsgötum í? *heheh*).

Hraðhefaðar brauðbollur (úr DN jan/2008)
12 stykki

50 g lifandi ger eða þurrger því að jafnaði
2 dl mjólk
2 msk olía eða brætt smjör
1 tsk sykur
1 dl jógúrt (ég notaði þessa þykku tyrknesku, annars ætti AB mjólk eða álíka að duga)
1 egg
1,5 tsk salt
1 dl rúgmjöl eða annað gróft
6 dl hveiti
Ofn hitaður í 250 gráður.
Mjólkin velgd og hellt yfir gerið í deigskálinni. Öllu hinu bætt við, hveitinu síðast og látið vinnast í hrærivélinni í nokkrar mínútur á góðum hraða. Deigið verður mjög rennandi en það er í lagi... á að vera svo... Hellt í smurt og brauðmylsnuþakið muffinsform eða í muffinsform og leyft að hefast í 30-35 mín eða þartil tvöfalt í stærð. Sett inn í ofn og hann lækkaður niður í 200 gráður. Bakað í 15-20 mín.

Tuesday, January 01, 2008

Nýársfiskisúpa ("fiskisúpa kokksins")

Eftir allt tilheyrandi og bráðnauðsynlega ofát stórhátíðarinnar fannst mér við hæfi að bjóða uppá fiskisúpu á nýársdag. Við átum nú barasta samt yfir okkur af henni ! Enda rjómi og fleiri góðir hlutir í henni sem núlluðu út hollustuna í fiskinum ;) En mikið rosalega var hún góð.... öll indversku-thailensku kryddin voru hreint yndisleg með góða íslenska fiskinum. Heiti því að prófa hana heima í Svíþjóð líka og gá hvort hún sé jafn góð með "útlenskum" fiski. Hrikalega þæginleg uppskrift til að gera fyrirfram, gerði súpuna sjálfa um morgunin og skellti svo bara fiskinum í korteri áður en við ætluðum að borða hana.



Fiskisúpa kokksins (örugglega birt í Fréttablaðinu, des 2007, hlekkur líka hér ef þú villt sjá uppskriftina í upprunalegri mynd og án minna kommenta)

(Fyrir 6-10)
Tekur 30 mínútur að undirbúa. Líka góð daginn eftir.
150 g lúða
150 g ýsa (ég tvöfaldaði magnið af fiskinum, bæði ýsu og lúðu)
150 g rækjur
150 g hörpudiskur (má sleppa og ég sleppti því)
Mikilvægt að setja rækjurnar í eftir að slökkt er á pottinum eða hafa aðeins 1-2 mínútur á gashellu.
3 hvítlauksrif
3-4 gulrætur sneiddar
1 stk. laukur, saxaður
1 rauð paprika, söxuð
1 græn paprika, söxuð
1 dós tómatpuré
1 dós niðursoðnir tómatar
2½ dl vatn (ég þurfti að auka allverulega vatnsmagnið en það gerði ég í lokin þegar ég sá hvað hún varð þykk, fer eftir smekk býst ég við)
1 teningur fiskikraftur
½ teningur hænsnakraftur
1 tsk. tandoori masala (fann ekki þetta krydd heldur bara krydd sem hét Tandoori)
¼ tsk. karrí
¼ tsk. hvítur pipar
6 sólþurrkaðir tómatar sneiddir
4 msk. mango chutney
1 dl sæt chilisósa
500 ml matreiðslurjómi
Byrja á að hita eina matskeið af olíu í pottinum og brúna þrjú hvítlauksrif sem búið er að merja með hnífsblaði og skera niður. Tekið af hitanum og sett í skál. Brúna síðan í sama potti gulræturnar, laukinn og paprikurnar í tveimur matskeiðum af olíu. Þá er bætt í tómatpuré, niðursoðnu tómötunum, vatni, fiskikrafti, hænsnakrafti, tandoori masala, karríi og hvítum pipar. Nú strax á eftir eru sólþurrkuðu tómatarnir sneiddir niður og mango chutney, sætu chilisósunni og matreiðslurjómanum bætt við. Möluðum svörtum pipar bætt við eftir smekk og látið sjóða niður í um það bil fimmtán mínútur. Þá er slökkt undir pottinum. Þegar borðhaldið fer að nálgast er vermt undir pottinum og fiskurinn (allur nema skelfiskurinn) settur út í og beðið eftir suðunni. Gott að nota lúðu, ýsu eða búra. Skelfiskur eins og rækjur, hörpudiskur eða humar er settur út í þegar potturinn er tekinn af hellunni. Látið standa í fimm mínútur. Borið fram með nýju brauði. Smátt skorinni steinselju er sáldrað yfir.