Tuesday, January 02, 2007

For- og eftirréttur gamlárskvölds

Þessir tveir réttir voru svo últrasúpergóðir að ég bara VERÐ að pósta þeim upp hingað. Verst að ég náði ekki að taka myndir af herlegheitunum. Var algjört "oooohhh" sem endaði á "mmmmm". Verður endurtekið í næsta fínfína matarboði.

Hörpuskelfiskur með klementínum
(úr Good Food, jan 05)
f. 4
9 klementínur
2 msk brandy/koníak
örlítið af sykri
smá olía og klípa af smjöri
12 snyrtir hörpuskelfiskar (vöðvinn fjarlægður)
graslaukur til að skreyta með

4 msk þeytirjómi
4 msk mæjónes
sítrónusafi eftir smekk

Undirbúið klementínurnar fyrst; afhýðið þær og skerið svo hvert "lauf" út fyrir sig. Best er að gera þetta yfir skál svo enginn safi fari til spillis. Í lokin eiga 12 heil lauf að vera tilbúin. Geymdar í lokuðu íláti í kæli þartil bera á frammá borð.
Kreistið safan af restinni af klementínunum í skálina. Hitið stóra pönnu og sjóðið niður safann ásamt áfenginu og örlitlum sykri. Vökvinn á að verða sírópskenndur. Geymdur í kæli.
Rjóminn í sósuna er þeyttur og blandað við mæjónesið. Smakkað til með sítrónusafa og kryddið örlítið með salti og pipar. Sósan á að vera þykk. Kælt.
Þetta má allt saman gera með góðum fyrirvara fyrr um daginn.
Rétt áður en bera á fram réttinn er panna hituð, olía og smjör sett á og hörpuskelin steikt. Snúið skelfisknum bara einu sinni á pönnunni, ætti að vera samtals 3 mín samtals á pönnunni eða þartil báðar hliðar eru fallega gylltar. Setjið á eldhúspappír og saltið örlítið.
Á hvern disk eru búnir til 3 matskeiðsstórir "pollar" af rjómamæjósósunni. Einn skelfiskur er settur oní hvern sósupoll og biti af mandarínu þar ofan á. Sírópsslettur settar á diskinn og á bitana. Skreytt með smávegis graslauksbitum.

Bláberjafrauð með berjablöndu og vanillurjóma
(úr SvD)
f. 4
1 dl bláber
4 msk sykur
1,5 dl vatn
1,5 msk kartöflumjöl
3 eggjahvítur
smjör og sykur til að húða formin með
Setjið bláberin í pott ásamt 0,5 dl af vatninu og 2 msk af sykrinum. Hitið að suðu. Puréa (með töfrasprota) þartil orðið að þykkum vökva. Bætið við 1 msk af sykri og hitið aftur að suðu. Blandið saman kartöflumjölinu og 1 dl af köldu vatni. Hellið þessu útí pottinn með bláberjavökvanum og hrærið í á meðan. Hitið aftur þartil þykknar. Leyft að kólna alveg undir loki eða plastfilmu.
Því næst eru eggjahvíturnar stífþeyttar ásamt 1 msk sykri. Helmingnum er blandað hressilega saman við bláberjaþykknið en hinum helmingnum er blandað vaaaarlega saman með sleikju í lokin. Formin (souffléform) eru smurð með smjöri og "sykruð" (sykri hellt í formið og leyft að festast í allar hliðarnar). Frauðblöndunni er bætt í hvert form. Núna er hægt að geyma formin í kæli í nokkrar klukkustundir EÐA sett í frysti ef þarf að geyma lengur. Ef sett eru í frysti þarf bara að taka þau út og geyma í kæli í nokkra klukkustundir áður en hitað og borið fram.
Gerið berjablönduna;
1,5 dl bláber
1,5 dl brómber
3 msk sykur
Allt sett í pott og hitað við meðalhita þartil berin eru sprungin og orðið að hálfgerðri sultu. (í lagi að nota frosin ber) Kælt.
Hitið ofninn að 175° og bakið frauðin í 8-10 mínútur eða þartil þau lyftast vel/rísa uppúr formunum. Þeytið rjóma með smá vanillusykri eða kornum úr hálfri vanillustöng. Frauðin eru svo borin fram heit með berjablöndunni kaldri og rjómanum.

Ofurhversdags; Tacofiskur

Fékk þessa uppúr Arla uppskriftarbæklingi þarsem gefnar voru "hversdagsuppskriftir fyrir stórfjölskyldur". Þarna var því lofað að börnin yrðu ofsaglöð og ætu allt upp til agna, meira að segja þó þetta væri fiskur. Prófaði þetta í kvöld á börnin þrjú (bara eitt mitt eigið; 1 árs, 11 og 12 ára) og allt fullorðna fólkið. Allir lofuðu í hástert og fatið var sleikt hreint !

Tacofiskur
(uppskrift fyrir fjóra, má auðveldlega tvöfalda)
600 hvítur fiskur (þorskur, ýsa....)
1 tsk salt
2,5 dl matreiðslurjómi
0,5 dl tacosósa (styrkleiki eftir smekk)
2 dl rifinn ostur
ríflega tvær handfyllir tortillaflögur, muldar

Fiskurinn settur í ofnfast mót og saltaður. Rjómanum, tacosósunni og ostinum blandað saman og hellt yfir fiskinn. Tortillaflögurnar dreifðar yfir og hitað í ofni við 225° í 25-30 mín.